Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:06:57 (7501)

2002-04-10 22:06:57# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta hefur verið nokkuð mikil umræða og um margt gagnleg. Þrátt fyrir allt hefur hún dregið fram ýmsa þætti þessa máls sem vert er að athuga. Að vísu finnst mér hafa heldur spillt fyrir umræðunni að hæstv. ráðherra hefur verið kergjuleg í svörum og ekki hjálpað til við uppbyggilega umræðu. Hún hefur tekið illa í alla gagnrýni og önnur sjónarmið sem sett hafa verið fram og ekki einu sinni fengist til að viðurkenna augljósar staðreyndir eins og þær að þetta mál er auðvitað illa undirbúið, kemur allt of seint fram og er að hluta til borið inn á röngum forsendum.

Herra forseti. Ég verð að segja að umræðan hefði getað orðið enn þá betri. Það er mikill skaði að hér skuli vera í salnum hæstv. fyrrv. umhvrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, án þess að hafa enn heiðrað okkur með því að taka þátt í umræðunni. Það er nokkur skaði. Mér finnst miður að hæstv. fyrrv. ráðherra, núv. hv. þm. Össur Skarphéðinsson, doktor að mennt í líffræði, skuli ekki hafa dýpkað og breikkað þessa umræðu með því að tala af reynslu sinni m.a. sem fyrrv. hæstv. umhvrh. Eins og menn minnast, þá átti hæstv. þáv. ráðherra Össur Skarphéðinsson oft góða spretti í því ráðuneyti, skrifaði bréf og hringdi símtöl sem menn minnast. Hæstv. fyrrv. ráðherra hefði af víðtækri reynslu að miðla ef hann vildi auðga umræðuna með því að taka lítillega þátt í henni. Út af fyrir sig hafa vaskir talsmenn verið með í umræðunni frá Samfylkingunni þannig að það er kannski til of mikils mælst að formaðurinn sjálfur heiðri okkur með þátttöku í henni. En fróðlegt hefði verið að heyra viðhorf hv. þm. til þessara breytinga og vinnubragða.

Ég tel, herra forseti, að undir lok þessarar umræðu sem verður væntanlega síðust á dagskrá þessa fundar í kvöld standi það eftir að röksemdafærslan er hrunin, röksemdafærslan um hinar gömlu stofnanir sem séu arfur frá því fyrir daga umhvrn. er hrunin eins og spilaborg. Ég held að spilaborg hafi verið orðið sem ég notaði hæstv. ráðherra en ekki skýjaborg. Skýjaborgir hverfa með öðrum hætti en spilaborgir hrynja gjarnan. (ÖS: Hinar gufa.) Hinar gufa upp fyrir augunum á manni.

Lögin eru eiginlega öll ný. Þau eru öll yngri en ráðuneytið og sum glæný. Stofnanirnar eru endurskipulagðar og nýlega fluttar, ýmist innan borgarinnar, norður á Akureyri eða austur á land. Þannig stendur ekki steinn yfir steini í þeirri röksemdafærslu að hér séum við að glíma við einhvern gamlan stofnanaarf sem löngu sé orðið tímabært að endurskipuleggja. Hæstv. ráðherra horfir fram hjá þeirri staðreynd að Alþingi hefur nýlega talað í málinu. Alþingi hefur sett niður þessa starfsemi með lögum hjá þessum stofnunum eins og þær eru í dag. Það er nýbúið að fara í gegnum það mál og endurskoða það. Ég sé því ekki að sótt verði mikil rök í að hér sé um svo fornan arf að ræða að það eitt og sér kalli á þessar breytingar, fyrir utan það að stundum á að láta gamla og góða hluti í friði.

Stundum er það vitlausast af öllu að breyta bara til þess að breyta. Sumt fyrirkomulag er þannig að menn hafa leitað hundruðum ára að öðru betra betra. Þingræðið og lýðræðið eru þannig. Dómskerfið er þannig. Menn hafa ekki fundið miklar skipulagsbreytingar sem yrðu til bóta, t.d. hjá Hæstarétti. Er það? Nei. Er það ekki stundum þannig að ákveðið fyrirkomulag öðlast í raun klassískt gildi af því að það hafi sannað gildi sitt og gefist vel? Það þarf líka að huga að því að menn séu ekki svo ástríðufullir við að breyta bara breytinganna vegna og það beri menn ofurliði.

Mér finnst þetta lykta af því, að svo miklu leyti sem ég af ýtrustu jákvæðni reyni að lesa út úr þessu einhvern efnislegan velviljaðan tilgang, að menn hafi hugsað sem svo: Það er svona og svona hvernig okkur hefur gengið í umhverfismálunum og þá er best að reyna að skora prik með því að fara í að endurskipuleggja. Þetta orðalag, að ,,sækja fram á sviði umhverfismála með því að einfalda uppbyggingu stofnana ráðuneytisins`` finnst mér benda til að menn hafi verið að heyja sér rök í slíkan leiðangur. Nema hitt sé hinn raunverulegi tilgangur öðrum þræði, jöfnum höndum eða í bland, að þurft hafi að gera þetta til að búa til embætti í blóðspreng þannig að hægt sé að koma hinum nýja forstjóra fyrir í stólnum strax 1. ágúst nk. sem er auðvitað ákaflega sérkennilegt fyrirkomulag, herra forseti.

Ég geri ráð fyrir að djobbið verði auglýst, a.m.k. í þykjustunni. Þá er bara að gera það alveg á næstu vikum til þess að þar sé eðlilegur umsóknarfrestur og frestur til að vinna úr umsóknunum o.s.frv., sérstaklega ef þetta er eins og ráðherra segir, að það sé alls ekki búið að ákveða hver eigi að fá starfið. Þá veitir ekki af að drífa í því ef ráða á í þetta strax 1. ágúst. Sumarið er ódrjúgt til svona starfa, það eru sumarleyfi og alls konar frátafir þannig að það er greinilega ekki seinna vænna, herra forseti.

Nei, að öllu gamni slepptu leyfi ég mér að skora á hv. umhvn. Alþingis að láta ekki kúga sig til að sulla þessu máli í gegn á örfáum sólarhringum. Það er ekkert flókið mál, herra forseti. Það er engin leið að vinna þetta frv. þinglega ef það á að fá afgreiðslu í vor. Það er ekki hægt. Það er ekki hægt að senda það út til umsagnar til þeirra aðila sem örugglega væri ástæða til því að málið varðar ekki fáa, allt verksvið Hollustuverndarinnar, Náttúruverndar ríkisins o.s.frv. Þyrfti ekki að gefa þessum aðilum nokkurra vikna frest til að skila inn vönduðum umsögnum? Það eru hin venjulegu þinglegu vinnubrögð og hér er farið fram á að Alþingi hendi því öllu saman, færibandið sé sett á fulla ferð og málinu rúllað í gegn á örfáum sólarhringum. Það er algerlega ómögulegt. Ég blæs á þessi rök, að það sé nauðsynlegt að eyða óvissu sem ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hefur sjálfur skapað. Ég tel að umhvn. eigi þá að byrja á að kalla fyrir fulltrúa starfsmanna þessara stofnana og spyrja þá: Eruð þið á móti því að við tökum okkur tíma til þess að skoða þetta mál í sumar, m.a. með aðild ykkar þannig að farið verði vandlega og faglega yfir það hvort þetta séu réttu breytingarnar ef menn vilja ráðast í einhverjar o.s.frv. Sama á auðvitað að gera með Þjóðhagsstofnun og önnur mál sem hæstv. ríkisstjórn er, mér liggur við að segja, með ósvífni sinni að ætlast til að troðið sé í gegnum Alþingi á örfáum sólarhringum, síðustu starfsdögum þess. Það er engin framkoma, herra forseti, og ekki góð vinnubrögð. Við eigum að láta af slíku.

Að síðustu ítreka ég tilmæli mín til hæstv. forseta að við förum að láta hér nótt sem nemur. Þetta er orðinn nokkuð drjúgur starfsdagur hjá okkur. Ég inni hæstv. forsrh. eftir því: Er sá skilningur minn ekki alveg örugglega réttur að þetta verði síðasta málið sem verður tekið fyrir í kvöld?