Umhverfisstofnun

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 22:24:19 (7506)

2002-04-10 22:24:19# 127. lþ. 117.6 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 127. lþ.

[22:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að svara spurningu sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beindi sérstaklega til mín. Hún spurði: Hvað er það í rekstraráætlunum Náttúruverndar ríkisins sem gerir það að verkum að hún verðskuldi að vera lögð niður? Eins og ég reyndi að útskýra í umræðum áðan er það ekkert enda var farið að ræða þetta mál löngu áður en nokkur umræða fór fram um landvörslu og rekstraráætlanir Náttúruverndar ríkisins.

Eins og ég sagði áðan --- þess vegna furða ég mig á því að þingmaðurinn spyrji svona aftur --- komst þetta m.a. til tals á samráðsfundi sem ég átti með forstöðumönnum undirstofnana umhvrn. í Viðey á síðasta ári. Það var líka löngu áður en nokkuð var farið að ræða um landvörslu og rekstraráætlanir þannig að þetta er ekki mál sem tengist landvörslumálinu með neinum hætti. Þó að hv. þingmaður gangi með einhverjar slíkar grillur í kollinum er það alls ekki. Þetta er miklu eldra og stærra mál en svo að það taki því að tengja það við mun minna mál eins og hér hefur verið reynt að gera.

Það er heldur ekki rétt að það standi til að fækka störfum hjá stofnununum eða þessari nýju stofnun. Það hefur komið fram að allir starfsmenn hafa forgang að störfum, en nýr forstjóri verður ráðinn. Það er ekki búið að ákveða hver það verður. Hér verður sem sagt ekki um fækkun starfa að ræða, frekar trúlega um aukningu í framtíðinni af því að fleiri verkefni koma inn í þessa nýju stofnun. Við sjáum það alveg fyrir.

Það er líka afar líklegt, mér finnst það eiginlega liggja í augum uppi, að störf munu færast út á land í framtíðinni með þessu fyrirkomulagi af því að starfsemin verður fjölbreyttari en hún er í dag hjá veiðistjóraembættinu og hreindýraráði.

Hv. þm. spurði líka út í umsagnir Náttúruverndar, t.d. með starfsleyfin sem Náttúruverndin sendir til Hollustuverndarinnar, og hvernig menn sjá það fyrir sér í einni stofnun, hvort hún eigi að hafa eftirlit með sjálfri sér eins og hér var sagt. Ég tel að það sé mjög gott fyrirkomulag að menn hafi í sömu stofnuninni aðkomu að starfsleyfunum þannig að þeir sem hafa sérþekkingu á náttúruverndarþættinum geti komið að þeim þætti innan frá á þessari stofnun varðandi starfsleyfin en hafi ekki áhrif á það utan frá eins og í dag með því að senda umsagnir milli stofnana. Þannig sé ég fyrir mér að menn fái í þessari stofnun strax heildstæða sýn á starfsleyfin.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér í umræðunum að hann hefði á tilfinningunni að verið væri að breyta breytinganna vegna. Það er alls ekki svo. Við erum að gera þetta af því að við teljum þetta vera rétt og faglegt. Við teljum að þetta styrki faglega stjórnsýslu nýrrar stofnunar. Við mundum aldrei nenna að standa í því að fara með þetta mál fram breytinganna einna vegna.

Ég fagna því sem hér kom fram að lokum, virðulegur forseti, hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar. Hann sagði að hér væri um spor í rétta átt að ræða, og ég finn það að hv. þm. hefur íhugað þessi mál um langt skeið, enda var hann umhvrh. á sínum tíma, og ég deili því með honum að þetta er rétt skref. Ég tel þetta reyndar ekki bara spor í rétta átt, ég tel þetta mjög mikilvægt skref. Þess vegna vona ég að þetta mál verði unnið til enda á yfirstandandi þingi þannig að við getum byrjað með nýja og öfluga Umhverfisstofnun strax í upphafi næsta árs.