Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:10:08 (7599)

2002-04-17 12:10:08# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:10]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir sérstökum aðgerðum í skattamálum til þess að styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni.

Undanfarin ár höfum við horft upp á, herra forseti, að landsbyggðin hefur átt mikið undir högg að sækja í samkeppni um vinnuafl og einnig í verslun og á mörgum öðrum sviðum. Við höfum horft upp á mikla flutninga fólks utan af landi til höfuðborgarsvæðisins og hefur það skapað margvísleg vandamál í byggðunum, keðjuverkandi vandamál og væri í löngu máli hægt að telja upp afleiðingarnar af þeim.

Fyrir þinginu liggur þáltill. um aðgerðir í byggðamálum frá hæstv. iðnrh. og þar er ekki mikið vikið að þeim málum en ég minnist þess, herra forseti, að byggðanefnd forsrh. sem sett var á stofn vegna kjördæmabreytinga skilaði samdóma áliti sem hæstv. forsrh. lýsti stuðningi við. Þar á meðal kom fram tillaga um breytingu á reglum í sambandi við endurgreiðslu á námslánum þar sem fram kemur vilji til þess að þeir sem eru að greiða námslán sín þrufi ekki að greiða eins ört eða mikið og þeir sem búa hér á þéttbýlissvæðinu. Þetta er gert til að hvetja fólk sem hefur verið í námi til að flytja sig út á land.

Einnig má spyrja í sambandi við tryggingagjaldið hvort hæstv. fjmrh. sjái fyrir sér að það verði lækkað á fyrirtækjum úti á landi einkum í tengslum við þá umræðu sem fram hefur farið um byggðamál og sérstaklega tryggingagjaldið þegar verið var að breyta lögunum um það og tekjuskattinn. En þar kom fram að ef lögin um tryggingagjaldið kæmu til framkvæmda kæmi það afar illa niður á mörg fyrirtæki á landsbyggðinni.

Nefna má marga aðra kosti sem lúta að þessu eins og t.d. að persónuafslátturinn verði hagstæðari úti á landi og einnig að sveitarfélög á landsbyggðinni fái jafnvel hærra hlutfall af skattgreiðslum til sín. Ég ætla ekki að telja fleira upp. Meginefnið er að fá fram sjónarmið hæstv. fjmrh. og líka hvort rætt hafi verið í hæstv. ríkisstjórn að koma til móts við íbúa landsbyggðarinnar í þessu efni.