Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:58:37 (7628)

2002-04-17 13:58:37# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Skilaboðin til hæstv. ráðherra eftir þessa umræðu eru skýr. Það á að leysa þetta mál og leysa það strax. Þetta er forgangsmál eins og hér var sagt. Og það er með ólíkindum hvað það vefst fyrir ráðherrum og ríkisstjórn að leysa þetta mál og setja í það 20--30 milljónir til að hægt sé að leysa brýnasta vandann, en það vefst ekkert fyrir ráðherrunum að skammta til aðalskrifstofu ráðuneyta sinna 170 milljóna raunaukningu á þessu ári.

Ráðherrann hefur ekkert hér að segja í umræðunni við þau börn á skólaaldri sem ekki fá nauðsynlega sérkennslu í grunnskólunum vegna skorts á greiningu Greiningarstöðvarinnar sem hún getur ekki veitt vegna fjárskorts, hann hefur ekkert að segja varðandi það sem fram hefur komið í umræðunni um að einhverfutilvik hafa þrefaldast. Hann var spurður um hvort hann teldi ekki ástæðu til þess að styrkja Greiningarstöðina sérstaklega vegna þessa og ég óska svara ráðherrans við því.

Ráðherrann fer með rangt mál þegar hann segir að starfsfólkið hafi sambærileg kjör á þeirri stofnun og öðrum sambærilegum stofnunum. Það munar 20--30% og fólk sem þaðan fer getur fengið tugi þúsunda kr. meira í mánaðarlaun ef það fer á sambærilegar stofnanir hjá sveitarfélögunum.

Staðreyndin er sú að staðan er svo þröng hjá Greiningarstöðinni að hún hefur ekki getað gert nauðsynlega stofnanasamninga við starfsfólk sitt með líkum hætti og aðrar stofnanir hafa gert sem hafa rýmra svigrúm.

Ég fagna því auðvitað að viðbótarfjárveiting á að koma á fjáraukalögum til þessa verkefnis, en ég skora á ráðherrann að henda nú ekki 5--6 milljónum í stofnunina sem engu mun skila. Það þarf að leysa þessi mál með viðunandi og traustum hætti. Það er ekki forsvaranlegt fyrir þingið eða framkvæmdarvaldið að búa þannig að stofnuninni, sem svo miklu máli skiptir fyrir þroskaheft börn, að þau þurfi að standa í biðröðum árum saman til að fá nauðsynlega þjónustu.