Ávísanir á ávanabindandi lyf

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 10:54:36 (7852)

2002-04-19 10:54:36# 127. lþ. 123.96 fundur 528#B ávísanir á ávanabindandi lyf# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Ásta Möller:

Herra forseti. Læknar einir stétta hafa ótakmarkaðan rétt til að ávísa lyfjum. Strangar kröfur eru gerðar til þeirra um að sá réttur sé notaður í samræmi við reglur samfélagsins og siðareglur stéttarinnar. Sé brotalöm á taka eftirlitskerfi heilbrigðiskerfisins og fagfélagsins í taumana og viðkomandi sætir rannsókn og viðurlögum ef svo ber undir.

Læknar njóta almenns trausts í samfélaginu og það ekki að ástæðulausu. Því hljóta fréttir síðustu daga um ábyrgðarlausar ávísanir lækna á ávanabindandi lyf til fíkniefnaneytenda að vera áhyggjuefni. En þótt einstaka læknir reynist ekki verðugur trausts samfélagsins dæmir það engan veginn heila stétt manna, og ég bendi á að Læknafélag Íslands hefur tekið af ábyrgð á málinu og fordæmir slíka hegðun. Hér skiptir mestu máli að eftirlitskerfi heilbrigðiskerfisins séu virk og læknar sem stunda slíka starfsemi séu teknir úr umferð. Heilbrigðisstarfsmönnum á ekki að líðast að misnota aðstöðu sína í hagnaðarskyni á þann hátt sem fréttaflutningur og greinaskrif undanfarinna daga hafa gefið til kynna. En ég bendi þó á að það er ekki allt sannað í þeim efnum og ekki hægt að setja alla undir sama hatt. Þannig getur verið erfitt að sjá við þeim sem af ásettu ráði ganga milli lækna í þeim tilgangi að afla lyfja til að svala eigin fíkn eða annarra.

Herra forseti. Í læknalögum eru ákvæði um viðurlög vegna brota í starfi og getur læknir sætt áminningu og jafnvel verið sviptur lækningaleyfi vegna alvarlegra brota. Hið sama á við um aðra heilbrigðisstarfsmenn sem brjóta af sér í starfi.

Það er ljóst að strangt eftirlit er haft með lyfjaávísunum hér á landi. Samstarf Lyfjastofnunar og landlæknisembættisins hefur leitt til að hægt er að hafa náið eftirlit með lyfjaávísunum sem gerir þessum eftirlitsaðilum kleift að greina óeðlileg tilvik. Hins vegar má ljóst vera að herða þarf slíkt eftirlit og gera það skjótvirkara og víðfeðmara en þó með augu á persónuverndarsjónarmiðum. En til þess þarf að styrkja landlæknisembættið enn frekar.