Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 14:24:17 (7893)

2002-04-19 14:24:17# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um þetta atriði. Í rauninni fannst mér hv. þm. kannski svara þessu í upphafi sjálf því að þetta er mjög flókinn lagabálkur sem við mótuðum og samþykktum hér árið 2000 og menn sjá ekki fyrir ýmis atriði.

Síðan kemur reynslan, eitt leiðir af öðru og menn fara að sjá hvernig þetta virkar í raun. Þar af leiðandi höfum við þennan lagabálk hér fyrir framan okkur. Hann er saminn að frumkvæði Persónuverndar sem er að vinna með þessi lög, hefur eftirlit með þeim aðilum sem þeim ber skylda til að hafa eftirlit með og þeir leggja til þessar tillögur þannig að þeirra eftirlit verði skilvirkara og skýrara í rauninni. Þannig lít ég á þetta.

Ég álít að ég hafi í framsögu minni gert ágætlega grein fyrir 4. tölulið 4. mgr. 3. gr. Það er kannski ekki það sem hér um ræðir. Ég tel að algjör eining sé um þann tölulið sem lýtur að því að þegar einkahagsmunir séu ríkir sé hægt að undanþiggja það að þriðja aðila sé tilkynnt um skráningu á nafni hans og vegna hans persónu. Ég benti á barnaverndarnefnd í því tilviki og þau tilvik sem koma til hennar.

En varðandi 1. tölulið vil ég benda á að í 4. mgr. 32. gr. laganna er m.a. verið, og það kemur fram í greinargerðinni, að fjölga atriðum sem þurfa að koma til í tilkynningunni sem fer til Persónuverndar til þess að Persónuvernd geti gripið inn í þannig að hún hafi ríkari ástæðu og meiri mögleika til þess að grípa inn í, leiki einhver vafi á að tilkynningarskyldunni og því sem henni fylgir hafi verið sinnt á fullnægjandi hátt.

Herra forseti. Ég ítreka það aftur að þetta frv. er fram komið að tilstuðlan Persónuverndar og ég vona að þetta sé raunhæft innlegg inn í þá starfsemi.