Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:16:11 (7903)

2002-04-19 15:16:11# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fátt er fjær huga mínum í dag en mikið ergelsi eða pirringur enda farið að vora og margt sem bendir til þess að dögum þessarar ríkisstjórnar fari ört fækkandi. Því verð ég að segja alveg eins og er að heldur er ég glaður á þessum vordögum en að ergelsi og pirringur hafi náð sérstöku valdi á huga mínum.

Ég fjallaði hins vegar áðan aðeins að litlu leyti um þann tæknilega ramma sem verið er að reyna að setja utan um þær reglur sem gilda um persónuvernd og söfnun persónuupplýsinga. Ég var miklu frekar að reyna að hvetja til þess að við töpum okkur ekki í þessum tæknilega hugsunarhætti þó að vísindin færi okkur einhver skref framar í upptökutækni eða möguleikum á að safna upplýsingum um einstaklinga, að við hlaupum ekki alltaf eftir því. Við skulum rifja upp og muna eftir þeim grundvallarhagsmunum sem við viljum vernda, friðhelgi einkalífs fólks, að það fái að eiga sitt líf án þess að eiga alltaf á hættu að ríkið eða aðrir séu að safna um það upplýsingum. Núna, á þessari tækniöld ef svo má að orði komast, er hægt að nota þessar upplýsingar svo víða, til að mynda er hægt að dreifa upplýsingum um internetið á mjög auðveldan og hraðvirkan hátt. Það er hægt að taka myndbönd og breyta þeim. Það er hægt að gera svo margt við þessar upplýsingar. Það er hægt að skaða mannorð fólks á svo margan hátt.

Þess vegna, virðulegi forseti, legg ég á það ríka áherslu að við reynum að muna eftir að halda utan um og passa upp á persónuverndina.