Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:26:09 (7936)

2002-04-19 17:26:09# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma að nokkrum atriðum varðandi umræðu um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Við fyrri umr. málsins lýsti ég yfir ánægju með það markmið sem sett er í þáltill. um að stefnt skuli að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 40%, miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001, fyrir lok ársins 2012. Ég tel þetta vera mjög metnaðarfullt markmið til að stefna að.

Þá vil ég og fagna þeim áherslum sem koma fram í nál. frá allshn. sem er samhljóða í áliti sínu og, með leyfi forseta, vitna ég í nál.:

,,Nefndin gerir sér grein fyrir að tillagan um umferðaröryggisáætlun 2002--2012 felur í sér viðamiklar aðgerðir sem munu kalla á aukið fjármagn til umferðarmála. Nefndin telur þó að þær muni leiða til verulegs sparnaðar með fækkun umferðarslysa og leggur því áherslu á nauðsyn þess að fjármagn verði tryggt til framkvæmdaráætlunarinnar. Jafnframt telur nefndin brýnt að gert verði hið fyrsta kostnaðarmat fyrir áætlunina sem lögð verði fyrir allsherjarnefnd strax á næsta þingi.``

Ég tel, virðulegi forseti, að nefndin hafi þarna tekið góða afstöðu og gert sér grein fyrir því að það muni ekkert gerast nema til komi bein framkvæmdaráætlun sem er jafnframt studd fjármagni.

Hitt er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. áðan að það má margt gera án þess að það kosti verulegt fjármagn. Hugarfarsbreyting eða styrking hugarfars skiptir máli til að umferðin mótist með þeim hætti að úr slysum dragi. Ég held að það sé kannski einn veigamesti þátturinn í þessu, það hugarfar til umferðarmála, og þar líti hver og einn í eigin barm. Ég tek alveg undir það hjá hæstv. dómsmrh. að þar er ábyggilega hægt að ná árangri án þess að þar séu fjárútlát og beinn sparnaður verði fyrir hvern og einn og samfélagið í heild. Ég tel það mikilvægt og hefði kannski mátt draga þennan þátt fram í nál., mikilvægi afstöðu og hugarfars hins almenna vegfaranda í umferðaröryggismálum. Það verður seint ofgert í því, án þess að ég sé neitt að telja að við séum verr á vegi stödd, síður en svo, hvað það varðar en aðrar þjóðir, þá er það í sjálfu sér ekki neinn mælikvarði sem við mælum okkur við. Við erum fyrst og fremst að horfa á okkar eigin árangur.

Það sem í annan stað hvatti mig til þess að koma hér með ítrekaðar ábendingar var að ég gat þess við fyrri umr. að ég teldi að umferðaröryggismál og áherslan á umferðaröryggismál ætti að koma inn í hinn samræmda texta fyrir gerð heildstæðrar samgönguáætlunar sem liggur fyrir í þinginu, að inn í samgönguáætlunina, inn í þá lagaumgerð sem verið er að setja um vinnu við samgönguáætlun, hefði átt að koma texti sem lyti að umferðaröryggismálum.

[17:30]

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá í þessu nál. aukna hvatningu til að svo yrði. Ég gagnrýndi það líka í umræðunni um samgönguáætlunina, um frv. til laga um samgönguáætlun þegar það kom hér til 1. umr. og einnig til 2. umr., að áherslan tæki ekki tillit til umferðaröryggis og umhverfismála og ég mun gera það áfram þegar það frv. kemur til 3. umr.

En það er alveg ótækt að ráðuneyti sem fer með þann meginflokk mála sem lýtur að samgöngumálum skuli ekki með markvissum hætti taka öryggismál inn. Það er bara alveg ótækt og því sjónarmiði mínu vil ég koma hér á framfæri. Það er hvergi minnst á umferðaröryggismál í megintexta laganna og ekki heldur með afgerandi hætti í greinargerðinni sem fylgdi frv. Þar er minnst á aðra þætti eins og þá að hinar einstöku undirstofnanir samgrn. --- það er sett í lög --- þurfi að vinna saman að stefnumótun í umferðarmálum. Það er dregið fram. Gott og vel með það ef það er eitthvert vandamál. En að þessi áhersluatriði sem hæstv. dómsmrh. hefur svo virkilega mælt hér fyrir af þunga --- ég met það --- skuli ekki tekin inn í samgönguáætlun sem áherslupunktur í þeim markmiðssetningum sem þar eru sett, finnst mér bara vera bara veikleiki og fráleit nálgun.

Þegar við veltum fyrir okkur hugarfarslegri nálgun hins almenna vegfaranda hvað öryggi varðar sem ég minntist á hér áðan og tel afar mikilvæga og lykilatriði í umferðinni þá er ekki síður mikilvægt að einmitt þetta hugarfar, þessi hugarfarsnálgun sem lýtur að umferðaröryggismálunum sé einnig í heiðri höfð í öðrum ráðuneytum sem að þessum málum koma, og fyllilega af fullum þunga. Ég er ekki að gera því skóna að það sé alls ekki gert. En ég gagnrýni hér að það sé ekki gert af þeim þunga sem þörf er á og af þeim þunga sem ég finn að hæstv. dómsmrh. leggur í þetta mál.

Það er gott að beita sektum og viðurlögum og raða upp lögreglumönnum meðfram þjóðvegum og þess háttar. Ég er ekkert hrifinn af því að við þurfum að byggja umferð okkar upp á því að vera lögregluríki þó ég sé ekki heldur að mæla gegn því að hér sé haldið uppi eðlilegu umferðareftirliti. En umferðarmenning skapast ekkert á þeim forsendum. Það held ég sé fráleit nálgun, þ.e. að hugarfarsleg umferðarmenning skapist á forsendum lögregluvaktar. Það held ég sé fráleitt og ég held að engum detti það í hug.

Í nálgun á stefnumörkun í samgöngumálum og í umferðarmálum verður að hafa umferðaröryggismálin inni. Ég mun aldrei þreytast á því að gagnrýna að það skuli ekki vera gert.

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér í lokin hvetja hæstv. dómsmrh. til að beita sér fyrir því að ákvæði sem lúti að þessu komi inn í samgönguáætlun við lokaumfjöllun hennar hér við 3. umr. Ég vil benda á að ég flutti brtt. við þessa samgönguáætlun sem að mér fannst vera mjög eðlileg og sanngjörn. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Samgönguáætlun skal vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum.``

En þetta fékkst því miður ekki samþykkt við 2. umr. Það sýnir mér enn hversu mikill skortur er þeirri sýn sem ég vil sjá hér í umferðarmálum og umferðaröryggismálum í nálgun þessa máls.

Hins vegar dregið fram í samgönguáætlun að huga þurfi að verktökum og öðru slíku við mannvirkjagerðina og það er alveg hárrétt. En þessa sýn vantar í samgönguáætlunina og ég hvet hæstv. dómsmrh. til þess að beita sér fyrir því að hún verði tekin með eðlilegum og réttmætum hætti inn í þann stefnumörkunarramma sem hér liggur fyrir Alþingi.