Umferðarlög

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 18:20:46 (7952)

2002-04-19 18:20:46# 127. lþ. 123.22 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Frv. sem er hér til umræðu virkar við fyrstu sýn afskaplega skynsamlegt í alla staði og er öllu jafnan skynsamlegt að reyna að straumlínulaga það þjónustukerfi sem til staðar er í ríkiskerfinu, hvort heldur það er á vettvangi umferðaröryggismála eða annarra þjónustuþátta eða öryggisþátta.

Ég hef lúslesið þetta frv. og einnig nál. sem frá allshn. hefur komið og ég verð að viðurkenna, herra forseti, að býsna margar spurningar vakna í huga mínum um veigamikla þætti í þessu efni, spurningar sem engan veginn er svarað, hvorki í greinargerð né í nefndaráliti. Sú er venjan þegar gerðar eru skipulagsbreytingar á stofnunum, hvort sem þær eru lagðar niður eins og í umræðunni í gær um Þjóðhagsstofnun ellegar þegar tvær stofnanir eru sameinaðar og í raun báðar lagðar niður og sameinaðar í þeirri þriðju, að gerð sé allítarleg grein fyrir umfangi þeirra stofnana sem fyrir eru þegar samruni á að fara fram, hvert sé umfang þeirra, hver sé fjárumsýsla þeirra, hver sé starfsmannafjöldi þeirra o.s.frv. En í engu er reynt að gera grein fyrir því í þessu frv. Mér þætti vænt um að formaður nefndarinnar --- og nú staldra ég við, herra forseti, því ég gleymdi að geta þess í upphafi ræðu minnar að það er auðvitað algjörlega á mörkunum að þessi umræða geti farið hér fram þegar dómsmrh. hæstv. er ekki hér til staðar. Ég veit að hún var búin að lofa sér annars staðar. Ég hitti hana hér í útidyrunum. Hún sagði mér að hún þyrfti að fara annað og vissulega höfum við þingmenn skilning á því að ráðherrar hafa í ýmis horn að líta. En það breytir því ekki að það er algerlega á mörkunum, og ég trúi því að hæstv. forseti sé mér sammála um það, að hægt sé að ræða stórmál á borð við þessi án þess að dómsmrh. sé til staðar.

Ég vil gera við það mjög alvarlegar athugasemdir og hafa á því þann fyrirvara að ef ráðherra verður ekki komin til leiks áður en ég lýk ræðu minni geti svo farið að ég þurfi að endurtaka hana við 3. umr. til þess að hún hafi tök á því að hlýða á hana.

Að svo komnu máli þá læt ég mér það nægja að ...

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er ekki væntanleg alveg á næstunni þannig ef hv. þm. óskar þess er sjálfsagt að fresta þessari umræðu.)

Það er mjög freistandi, herra forseti. En af því ég er kominn svo vel á veg ætla ég að taka lítinn sprett á þessari umræðu en á þá inni kannski dýpri umræðu síðar þegar ráðherra kemur til leiks hér við þá 3. umr.

Ég sagði áðan að mér finnst vanta ákveðnar grundvallarupplýsingar um umfang, kostnað og mannahald þeirra stofnana sem fyrir eru og ég vænti þess að formaður nefndarinnar, ellegar aðrir fulltrúar í allshn., geri bragarbætur þar á og upplýsi þingheim um það hvernig þeim málum er háttað.

Ég þekki býsna vel til Umferðarráðs eins og kannski velflestir aðrir landsmenn, bæði utan frá og raunar þekki ég það einnig innan frá eftir að hafa setið í Umferðarráði fyrir margt löngu. Skráningarstofuna þekki ég öllu minna og heyri það hér á ræðum sérfræðinga úr allshn. að sú stofnun sýslar nú við sitthvað annað en eingöngu umferðarmálin. Hér var vakin athygli á því og um það spurt hver hugmyndin væri um vistun annarra verkefna sem Skráningarstofan hefur með höndum. Það er hins vegar önnur Ella.

Herra forseti. Ég fletti hins vegar gjarnan aftast í frv. af þessum toga og skoða umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Sérstaklega geri ég það þegar menn hafa mjög á orði að tiltekið frv. auki hagkvæmni og spari peninga og þá er nú gjarnan bætt við ,,þegar til lengdar lætur``. Það er ekki alveg í dag og ekki alveg á morgun heldur kannski einhvern tímann seinna. Ég átti því von á því að finna þar eitthvað handfast í þeim efnum, þ.e. hvað þessi samruni þýddi í krónum og aurum. Þýðir það auðvitað ekki hagræðingu og þar með sparnað í krónum og aurum? Nei, herra forseti. Fjármálaráðuneytið og fjárlagaskrifstofan þora ekki að festa það niður í krónur og aura. Þar segir einfaldlega, með leyfi forseta:

,,Reikna má með því að unnt verði að ná fram hagræðingu með sameiningu verkefna á þessu sviði, en á þessu stigi liggur ekki fyrir með hvað hætti eða í hversu miklum mæli það verður.``

Er það nú mjög sannfærandi þegar okkur er boðið upp á það hér, hv. Alþingi, að leggja til atlögu við sameiningu tveggja ríkisstofnana, þegar það ráðuneyti sem sérfrótt hlýtur að teljast þegar kemur að peningamálum orðar það þannig og ég endurtek, með leyfi forseta:

,,Reikna má með því að unnt verði að ná fram hagræðingu með sameiningu verkefna á þessu sviði, en á þessu stigi liggur ekki fyrir með hvað hætti eða í hversu miklum mæli það verður.``

Herra forseti. Mér er skapi næst að halda að fjmrn. hafi á tilfinningunni að þetta leiði til kostnaðaraukningar. Svo veikt er þetta orðað að ég hef sjaldan séð það daprara. Því vil ég biðja formann allshn. að reyna að sannfæra mig um það og sýna mér fram á það með tölum og rökum hvar hagræðingin og hvar sparnaðurinn liggur við sameiningu þessara tveggja stofnana, því að til þess hlýtur auðvitað leikurinn að vera gerður ekki síst. Ég hlýt a.m.k. að ætla það fyrir fram.

Eins og ég sagði þá er ekki reynt að gera neina tilraun til þess að festa það niður í krónur eða aura hvort tiltekinn biðlaunakostnaður mundi til að mynda falla á þessar stofnanir. Því er einfaldlega slegið föstu að svo verði ekki. Menn hafa nú bitra reynslu af því að gefa sér eitthvað fyrir fram í þeim efnum. Þó allt kunni að vera í lukkunnar velstandi í augnablikinu og starfsmenn þessara ágætu ríkisstofnana kunni að vera býsna kátir með þessi áform þá þekkja menn það frá fyrri tímum að margt getur breyst á skömmum tíma þegar menn eiga að koma að nýjum húsbændum, nýjum skrifstofum og hugsanlega nýju starfsumhverfi.

Ég spyr því hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: Hefur einhverju verið haldið til haga í þeim efnum? Er einhverjum fjármunum haldið innan sviga til þess að mæta hugsanlegum biðlaunakostnaði?

Í gær ræddum við Þjóðhagsstofnun sem er að því leytinu sambærilegt mál að þar var verið að leggja niður eina stofnun og færa verkefnin inn í tvær. Hér er þessu öfugt farið. Það er verið að leggja niður tvær stofnanir og leggja inn í eina. Þrátt fyrir allt var þar gerð alveg skýr grein fyrir því hver kostnaðurinn af þeirri stofnun væri og hvernig þeim fjármunum sem þangað höfðu runnið yrði skipt á milli annarra aðila, þ.e. í tilfelli fjmrn. að einum þriðja og Hagstofu Íslands að tveimur þriðju. Hér er ekki gerð nokkur tilraun til slíks.

[18:30]

Ég spyr því beint: Hvaða fjármuni erum við að ræða hér um? Hvaða hafa þessar stofnanir, Skráningarstofan annars vegar og sá þáttur hennar sem lýtur að umferðaröryggismálum eða umferðareftirlitsmálum, skulum við segja, og hins vegar Umferðarráð, kostað? Og hvað mun hin nýja stofnun kosta á ársgrundvelli þegar hún verður komin í fullan gang?

Þetta eru slíkar lykilspurningar, herra forseti, að það er ekki nokkur vegur að vera hér kominn langveginn inn í 2. umr. án þess að þær grundvallarupplýsingar liggi fyrir. Ég held að herra forseti sé mér hjartanlega sammála um að það er alveg á mörkunum að menn geti --- ja, það er nú alveg klárt að menn geta ekki lokið umræðunni fyrr en þau grundvallaratriði liggja fyrir þinginu.

Meðan hv. formaður allshn. er að sækja þessar upplýsingar ætla ég aðeins að víkja af vegi og taka hér upp önnur atriði frv. en víkja aftur að þeim grundvallaratriðum sem ég nefndi áðan örlítið síðar, því að eilítið viðhengi með frv. eru ákveðnar breytingar er lúta að ökuprófum og þá ökuprófum ungra ökumanna, afgreiðslu bráðabirgðaskírteina. Ef ég fæ best séð þá er hér fyrst og síðast um það að ræða að nú eigi ungir ökumenn með bílpróf í fyrsta sinn þess kost, ef þeir standa sig, að fá fullnaðarskírteini eingöngu eftir ár en þurfa ekki að bíða í tvör ár, og ég held að þetta sé hið besta mál og get alveg stutt þá hugsun.

Hins vegar er óhjákvæmilegt annað en að fara í þessu samhengi nokkrum orðum um það umhverfi sem ökuprófum er búið og ég vil segja þá fjárplógsstarfsemi sem á sér stað gagnvart umsækjendum og handhöfum ökuskírteina.

Ég spurði hæstv. dómsmrh. á 125. löggjafarþingi, sem var á vetrinum 1999--2000, hvernig fjárumsýslu prófgjalda væri háttað og hvort þar væri ekki haft í heiðri það grundvallaratriði sem á að vera hinn rauði þráður þegar kemur að þjónustugjöldum á borð við þessi. Niðurstaðan var sú að ríkissjóður var að taka inn á útgáfu ökuskírteina tugi milljóna króna í gróða. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að það væri líka orðin tekjulind fyrir ríkissjóð að gefa út ökuskírteini, einkum og sér í lagi auðvitað til unga fólksins því að það er það sem fyrst og síðast þarf að sækja sér þetta, fyrst bráðabirgðaskírteini og borga prófgjöld og standa straum af þeim grunnkostnaði sem er til staðar þegar fólk er ekki að stíga sín fyrstu skref heldur aka sína fyrstu kílómetra.

Ég skrifaði um þetta nokkrar blaðagreinar og fékk afskaplega lítil viðbrögð við þeim. Á þeim tíma, bara til að gefa þingmönnum hugmynd um á hvaða ferðalagi þessi gjaldtaka er, þá kostaði eitt bráðabirgðaskírteini 9.714 kr., þ.e. á vetrinum 1999--2000, ég er ekki með nýrri tölur. Tekjur ríkissjóðs af útgáfu ökuskírteina á árinu 1999, þ.e. aðeins frá janúar til október, fyrstu tíu mánuði þess árs, voru upp á 66 millj. kr. Ríkissjóður tók inn 66 millj. kr. á útgáfu ökuskírteina fyrstu tíu mánuði ársins 1999.

Ég spurði á sama hátt hver væru útgjöld ríkissjóðs af þessari útgáfu og útlagður kostnaður vegna þessa var upp á 40 millj. kr., raunar nákvæmlega 42.030 þúsund. Útgáfa ökuskírteina skapaði ríkissjóði --- ekki umferðinni, ekki Umferðarráði, heldur ríkissjóði, ríkiskassanum tekjur upp á 25 eða 30 millj. kr.

Ég lýsti undrun minni með þetta. Að vísu er þetta lögum samkvæmt því að farin hefur verið sú leið sem hér hefur verið farin í stórauknum mæli af skattaglöðum ríkisstjórnarflokkum, Framsfl. og Sjálfstfl., að færa æ fleiri ákvæði undir sértekjur ríkissjóðs, ákvæði sem í eðli sínu eru ekkert annað en þjónustugjöld, hrein og klár þjónustugjöld. En Sjálfsfl. og Framsfl., þeir skattaflokkar hafa fundið þá millileið að lengja ævinlega þennan lista sem er undir heitinu ,,sértekjur ríkissjóðs`` og þar á meðal er sú gróðaleið að græða á útgáfu ökuskírteina. Mér er skapi næst að halda að á þessu hafi engin breyting orðið. Með öðrum orðum, kostnaðurinn við útgáfu ökuskírteina er rúmlega helmingur af tekjum sem af þeirri útgáfu skapast.

Þetta þykir mér auðvitað algjör ósvinna, herra forseti, og ekki nokkurt vit í og taka þarf á þessu. Það þarf að taka á miklum mun fleiri atriðum þegar kemur að matarholum stjórnarflokkanna að ná í peninga af fólki en kalla það ekki skatta. Þeir sömu fulltrúar þessara stjórnarflokka koma hér trekk í trekk og tala um skattalækkanir en fara síðan hina leiðina og kalla það sértekjur ríkissjóðs.

Og aðeins til fróðleiks, herra forseti, í því samhengi, þá er ekki eingöngu stórgróði af því að gefa út ökuskírteini. Nei, það er líka stórgróði af því, því það heyrir nú undir þetta sama ráðuneyti, að gefa út vegabréf. Þar er gróðinn miklum mun meiri raunar og þar hafa menn farið þá leiðina að það kostar miklu meira ef menn ætla að fá vegabréf í hvelli heldur en ef beðið er í hálfan mánuð, þó að það liggi fyrir í svörum að það taki ekki nema fjóra, fimm daga að ganga frá vegabréfum, þá eru þau látin liggja þar í tíu daga. Ef menn sækja þau hins vegar innan viku, ef ég man rétt, þá hækkar gjaldið um helming. Þetta eru líka sértekjur ríkissjóðs.

Ég held ég muni það rétt, það er hérna á blaði hjá mér, að tekjur vegna vegabréfaútgáfu voru 120 millj. kr., þ.e. árið 1999. Og kostnaðurinn? Ja, hann var í kringum 55 milljónir. Þar tók ríkissjóður, skattaflokkarnir tveir, inn 70 milljónir af fólki sem var að fá sér vegabréf. Hún er mörg matarholan.

Mér þótti ástæða til að leggja lykkju á leið mína bara til að vekja athygli á þessu og það leiðir einmitt þráðbeint að því sem einnig vekur athygli mína í því frv. sem hér er til umræðu og enginn veit hvað kostar og enginn veit hvaða fjármuni er verið að flytja frá tveimur stofnunum til einnar, engar upplýsingar liggja fyrir um það, hvorki í ræðum eftir því sem ég hef best heyrt og þaðan af síður í skriflegum grundvallargögnum. Þá er líka samkvæmt orðanna hljóðan, a.m.k. í 9. gr. frv. reynt að tryggja að þau gjöld sem þegar renna til þessara tveggja stofnana, Skráningarstofu annars vegar og Umferðarráðs hins vegar, fylgi með til hinnar nýju stofnunar. Og í 9. gr. er gerð grein fyrir þeim gjöldum. Það eru gjöld vegna skráningar ökutækja, sbr. 64. gr. gildandi laga. Síðan eru gjöld fyrir skráningarmerki, einnig sbr. 64. gr. gildandi laga, og síðan eru gjöld fyrir gerðarviðurkenningu, sbr. 64. gr. gildandi laga.

Fyrir forvitnis sakir, herra forseti, væri gaman að vita hvað felst í gerðarviðurkenningu. Hvers konar gerð er það? Formaður allshn. svarar mér væntanlega um það, þó að það sé nú svo sem í gildandi lögum og við höfum búið við það lengi þá væri bara fróðlegt að vita hvað þetta er.

Síðan eru náttúrlega gjöld fyrir einkamerki, og öll vitum við nákvæmlega hvað það er, það er nú margfrægt. Er það ekki 30 þúsundkallinn sem menn þurfa að borga ef þeir vilja setja einhver orð framan á bílnúmerin sín?

En herra forseti, síðan kem ég hérna að e-lið og það er umferðaröryggisgjald, sbr. 2. mgr. frv.

2. mgr. frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarstofnunar, að fjárhæð 200 kr., og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Ráðherra setur reglur um innheimtu gjaldsins og um skil þess í ríkissjóð.`` Svo mörg eru þau orð.

Ég fæ ekki annað séð, herra forseti, en hér sé verið að leggja á alveg glænýtt gjald. Að vísu hljómar þetta kunnuglega. Umferðaröryggisgjald hljómar a.m.k. öllu kunnuglegar í eyrum mínum heldur en gerðarviðurkenningargjald en það er önnur saga. Samkvæmt frv. liggur það algerlega ljóst fyrir að hér eru skattaflokkarnir aftur komnir á kreik. Nota á ferðina þegar á að fara að hagræða með sameiningu tveggja stofnana og ná sér í nokkra aura.

Ég náði ekki að afla mér upplýsinga um það svona seint á deginum, þegar ég rak augun í þetta, hversu mikil þau viðskipti eru á ári hverju, þ.e. skráning ökutækis, almenn skoðun ökutækis og skráning eigendaskipta. Ég gæti vel ímyndað mér að þetta væru ,,transaksjónir`` og hreyfingar upp á 100 þúsund plús a.m.k., ég ímynda mér það. Ætli bílaeign landsmanna sé ekki 150 þúsund eða svo? Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kannski veit það, vanur bílstjóri. En 150 þúsund held ég að sé bara ekki fjarri lagi þegar allt er talið. Þá erum við að tala um 30 millj. kr., það eru 30 nýjar millj. kr. sem bifreiðaeigendur eiga að fara að borga.

Þá fer nú að fara lítið fyrir þessu sem ég las upp hér í upphafi á bls. 8, nefnilega umsögn fjmrn. og Fjárlagaskrifstofu þar sem menn gerðu sér óljósar vonir um að ná mætti fram hagræðingu, þó að þeir vissu ekki almennilega með hvaða hætti það yrði eða í hversu miklum mæli það yrði. Þá fer það að fara fyrir býsna lítið því ekki er annað sjá á frv. en að það eigi ekki aðeins að taka peningana sem þessar stofnanir hafa haft, bæði í sérgjöldum og væntanlega líka á fjárlögum, og svo til viðbótar eiga að koma þarna 30 millj. kr. Hafi ég á einhvern hátt misskilið þennan texta og fari ég með rangt mál bið ég hv. þingmenn að leiðrétta mig.

En þá er líka alveg ljóst að texta frv. er mjög auðvelt að misskilja því að hann segir alveg klárlega að hér sé um nýtt gjald að ræða, sbr. 2. mgr. þessa frv. til laga um breytingar. (ÖS: Hvar er ráðherrann?) Hagræðingin er því farin fyrir lítið, sýnist mér í fljótu bragði.

[18:45]

Það er rétt sem kastað var hér fram þegar spurt var um ráðherrann og ég upplýsti hv. þm. um að ráðherrann mundi koma hér von bráðar. (Gripið fram í.)

Hvað sem því líður langar mig í þessari stuttu ræðu minni, sem er nánast ,,intró`` að ræðu minni við 3. umr. þegar ráðherrann verður komin til leiks, að vekja upp hugrenningar mínar um 11. gr. þegar kemur að þessari sérstöku rannsóknarnefnd umferðarslysa sem ég er mjög spenntur fyrir og held að sé skref í rétta átt.

Frumvarpstextinn hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu, svo sem að því er varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar. Dómsmálaráðherra ákveður fjölda nefndarmanna og setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.``

Herra forseti. Mér þykir þetta góð hugsun. Ég styð þá hugsun sem hér kemur fram. En ég spyr: Af hverju skilur Alþingi við þessa hugsun með þeim hætti sem texti frv. segir til um? Af hverju tekur Alþingi ekki einfaldlega af skarið og segir að dómsmrh. skuli skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa, og gerir nákvæmlega grein fyrir því hvernig hún eigi að vera saman sett af hálfu ráðherrans, hversu margir skuli í henni vera o.s.frv.? (Gripið fram í.) Ja, mér er alveg full alvara með þetta eins og önnur atriði í ræðu minni þannig að mér þykir alveg ástæðulaust af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að gera gys hér að alvörumáli eins og þessu. (LB: Þetta var bara í tillögu ráðherrans.)

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni gott hljóð.)

Þakka hæstv. forseta fyrir það. (LB: Hvernig hljómar það?) Ég árétta að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, eins og ég held reyndar miklum mun fleiri, að við eigum að stíga það skref til fulls eins og gert hefur verið varðandi sjóslysin og flugslysin að hafa fastanefnd sem er sérfróð um rannsókn á umferðarslysum. Oft hafa ærin tilefni verið til þess og mér finnst ekki mikill mannsbragur á því af hálfu þingsins að skilja þessa hugsun svona eftir. Raunar veit ég vel að þetta frv. er samið af dómsmrh. og hennar fólki. En mér hefði þótt dálítill mannsbragur á því ef allshn. hefði tekið þetta mál upp því að hér er ekki um neina breytingu að ræða í sjálfu sér. Þetta er svona í gildandi lögum. Ef ég man rétt þá hygg ég að dómsmrh. sjálf hafi lýst yfir vilja sínum til að setja svona nefnd á laggirnar og kannski er það mál komið vel á veg, vonandi. En ég held að lagatexti í jafnmikilvægu máli, máli sem varðar heilsu og hag allra landsmanna, eigi ekkert að fara á milli mála. Alþingi Íslendinga á einfaldlega að segja að dómsmrh. skuli skipa slíka rannsóknarnefnd. Alþingi Íslendinga á líka að segja fyrir um hvernig slík nefnd eigi að vera skipuð. Ég vil nú ekki ganga svo langt að segja að það eigi endilega að vera á hendi Alþingis að skipa hana, þó að maður hafi nú auðvitað misjafna reynslu af nefndarskipunum ráðherra. Alltént vil ég að menn stígi hér skrefi lengra og noti ferðina vegna þess að hér þarf hvort eð er að breyta röðun og það þarf að taka þessa gildandi grein umferðarlaganna upp í þessu frv. Því hefði mér þótt mannsbragur á því af hálfu allshn. að nota ferðina og gera þetta skýrara og skilmerkilegra.

Herra forseti. Ég gleymdi því í 9. gr., gjaldtökugreininni, skattagreininni, að það var ekki eingöngu þessi 200 kall sem á að fara að leggja á og bíleigendur á borð við hv. þm. Össur Skarphéðinsson þurfa að greiða, heldur er hér opin heimild frá Alþingi þar sem vísað er til annarra gjalda sem Umferðarstofnun innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af dómsmrh. Það eru matarholurnar. Mér þykir afspyrnuslæmt að Alþingi skilji við mál af þessum toga og gefi sér að ráðherra sé heimilt samkvæmt tiltölulega opinni heimild að leggja á hin og þessi gjöld. Vel kann að vera að þessi gjöld hafi verið til staðar áður. Þau eru ekkert betri fyrir það. Og vel getur verið að ráðherrann ætli ekkert að bæta við í þessa gjaldskrársúpu alla saman, vafalaust ekki því að önnur lög hamla auðvitað nokkuð valdi ráðherra til þess arna. Ég er auðvitað fullmeðvitaður um það. En mér finnst það vondur lagatexti hjá löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem opnar með jafnríkum hætti og hér um ræðir fyrir slíka gjaldtöku sem ráðherra getur innheimt með einfaldri setningu reglugerðar. Það er ekki góður bragur á því, herra forseti. Við eigum að vanda okkur í slíkum vinnubrögðum, sérstaklega flokkar sem í orði kveðnu tala um mikilvægi þess að halda niðri sköttum og tala um mikilvægi þess á góðviðrisdögum og hátíðisdögum að halda niðri kostnaði við ríkisreksturinn, þó að veruleikinn sýni auðvitað allt annað. Ég á auðvitað við Sjálfstfl., herra forseti.

Ég ætla ekki að hafa þennan inngang minn öllu lengri og vænti þess að hv. formaður allshn. geri mér glöggt og ítarlega grein fyrir ýmsu því sem ég vakti hér máls á og svari ýmsum þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hana. Mér dugir það ekki í tveggja mínútna andsvari þannig að það sé algerlega skýrt. Ég er til í að eiga hér orðastað við hana í andsvari um ýmis álitamál sem uppi eru. En margt af því sem ég nefndi er þannig vaxið að við afgreiðum það ekki hér í skeytastíl.