Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:28:50 (484)

2001-10-15 16:28:50# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh., að stærsti hluti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til eru til komnar vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í efnahagsumhverfinu, kjarasamninga, gengisbreytinga o.s.frv. Hæstv. ráðherra sagði líka að við hefðum gaman af því að tala um þessar litlu upphæðir en ef um ófyrirséð útgjöld væri að ræða, ættu þau útgjöld að fara inn í fjáraukalög.

Ég er ekki að öllu leyti sammála þessu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur 200 millj. kr. pott sem hún hefur óskipt til að mæta ýmsum verkefnum sem kunna að falla til á hverju fjárlagaári. Einnig hefur ríkisstjórnin og hvert ráðuneyti safnliði til þess að mæta ófyrirséðum verkefnum. Þess vegna er dálítið sérkennilegt að sjá hér sumar upphæðirnar, eins og þegar skipt er um ráðherra og breytingar verða á starfsliði aðstoðarmanna ráðherra vegna ráðherraskipta, að þá þurfi að sækja um 2,4 millj. líkt og hjá heilbrrn.

[16:30]

Það er einnig dálítið sérstakt að sjá undir menntmrn. að þar eru mjög mörg verkefni sem heita ,,Rannsóknir og önnur verkefni``.

,,Lagt er til að veittar verði 80 millj. kr. vegna fyrirhugaðs samnings um rannsóknir á vegum háskólans. Að auki er sótt um 40 millj. kr. til rannsóknarmála á lið 236 Vísindasjóður, 10 millj. kr. á lið 239 Rannsóknarnámssjóður og um 20 millj. kr. á lið 299 Háskóla- og rannsóknastarfsemi.``

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þetta eru ekki verkefni sem megi bíða og hljóta eðlilega afgreiðslu t.d. á fjárlögum næsta árs. Og þegar um er að ræða kjarasamninga eða ákvarðanir kjaranefndar frá því árið 1999, getur það varla flokkast undir ófyrirséð, eins og er t.d. hvað varðar yfirdýralækni. Og þannig eru þó nokkuð mörg verkefni í þessum fjáraukalögum sem ekki er hægt að flokka undir ófyrirséð.