Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:50:49 (488)

2001-10-15 16:50:49# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef maður vill vera jákvæður getur maður sagt að þessi tillaga sé ákveðin viðleitni. Samt er annað orð mér ofar í huga núna og það er orðið sýndarmennska. Það er verið að reyna að slá ryki í augu fólks á Austurlandi. Staðreyndin er sú að það verkefni sem stjórnvöld styðja og hafa á prjónunum er stærsta byggðamál sem við höfum fjallað um á hv. Alþingi að mínu mati, Noral-verkefnið. Þeir hv. þm. sem leggja fram þessa tillögu styðja ekki það mál þó svo sveitarfélögin á Austurlandi geri það. Þróunarstofan styður það líka en að sjálfsögðu eru Vinstri grænir á móti.

Annað mál hefur verið til umræðu sem varðar Austurland og er mikið framfaramál og því tengist mikil atvinnuuppbygging, þ.e. fiskeldið. Vinstri grænir eru náttúrlega á móti því líka. Því er gripið til þess ráðs að sjóða saman tillögu sem felur í sér að veita 2,4 milljarða kr. til Austurlands í algjörlega óskilgreind verkefni. Ekki nóg með það, heldur á í framhaldinu að veita fé til annarra landshluta, eftir því sem ég skil tillöguna, þannig að við erum þar kannski að tala um 10 milljarða í óskilgreind verkefni, bara í eitthvað.

Þetta er að mínu mati tillaga sem dæmir sig sjálf og að mínu áliti er hún með því lakara, þegar ég hugsa til þeirra tillagna sem áður hafa komið fram af hálfu þessa þingflokks í sambandi við byggðamál.