Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:37:34 (508)

2001-10-15 17:37:34# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ef ég tók rétt eftir þá talaði hv. þm. um að það ætti að verja 2,4 milljörðum til verkefnisins. Er það ekki rétt? Þá reiknar hann með gömlu kjördæmunum sex, virðist mér --- en á árunum 2002--2004 eigi þá að verja 200 milljónum af þessum 2,4 milljörðum. Mér finnst ekki óeðlilegt að hv. þm. geri gleggri grein fyrir máli sínu svo að hægt sé að ræða tillöguna vendilega og samviskulega, líka vegna þeirra ummæla sem hann hafði um aðra hv. þm. Er hann að ræða um það að þessir 2,4 milljarðar dreifist um landið á næstu tíu árum, 20 árum eða eiga að vera 200 milljónir á árunum 2002--2004 og svo kannski 20 milljarðar á næstu þrem árum? Eða hvað er hv. þm. að hugsa?

Eins og fram kom af svari hv. þm. þegar hann fann að því að ég spurði, er þessi tillaga alveg óhugsuð. Hv. þm. hefur ekki gert sér grein fyrir því í hvaða röð hann vill taka fjórðungana. Hann minntist að vísu á Norður-Þingeyjarsýslu, sem ekki kom á óvart, Norðvesturland og Vestfirði, sem þá aftur þýðir að hann telur kannski ástæðulaust að hugsa um Vesturland og Suðurland. Nú eru veik svæði t.d. í Vestur-Skaftafellssýslu. Ég held að hv. þm. ætti að leggja leið sína til Vestur-Skaftafellssýslu. Það eru líka veikar byggðir t.d. í Dalasýslu. Ég held að hv. þm. ætti að fara í Búðardal og velta fyrir sér hvort ástæða sé þá til að geyma fjárveitingar til þessara byggðarlaga kannski til 2020. Það væri fróðlegt að fá að vita ögn nánar hvernig hv. þm. hugsar þetta.