Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:36:11 (529)

2001-10-15 18:36:11# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi ekki alveg þennan neikvæða tón í máli hv. þm. Kristjáns Möllers því að hv. þm. tók það sérstaklega fram að hann væri stuðningsmaður svæðisbundinna byggðaaðgerða og byggðaáætlana. Það er nákvæmlega það sem þessi tillaga gengur út á. Hann nefndi fordæmi í Noregi og víðar að. Það er einmitt það sem vísað er til í þessari tillögu --- við viljum nota þá nálgun í sambandi við þessi mál að horfa á, með fjölbreytni að leiðarljósi, þann grunn sem byggðin þarf að hafa til þess að geta dafnað. Og það er einmitt það sem hefur gefist vel, þ.e. að styðja heimamenn í þeim verkefnum sem þeir vilja beita sér fyrir, styðja þá með öflugum utanaðkomandi stuðningi og það er í sjálfu sér sama hvaðan hann kemur, hvort hann er eyrnamerktur Evrópusambandi eða kemur frá íslenska ríkinu í okkar tilviki. Þetta er allt saman spurning um fjármuni og afl til að gera hlutina og gera þá með réttu hugarfari og nálgast vandamálin á réttan hátt, taka á hinum undirliggjandi orsökum þessa vandamáls sem menn eru sem betur fer í vaxandi mæli að horfa á núna. Þannig hefði ég haldið að hv. þm. ætti einmitt að fagna þessari tillögu.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég fagna hverri einustu tillögu og hverri einustu umræðu sem hér er um byggðamál af því að það er þó til marks um það að menn eru meðvitaðir um vandamálið. Menn vekja á því athygli og menn eru að kalla eftir umræðum um það. Mér er alveg nákvæmlega sama hvort tillögurnar eru fluttar af Samfylkingunni eða einhverjum öðrum þannig að það voru vonbrigði að heyra hv. þm. ónotast svona út í þetta af þeirri einu ástæðu að þeir sem á bak við tillöguna standa eru ekki stuðningsmenn þessarar tilteknu stóriðju, sem er auðvitað ekki aðalatriði þessa máls. Hitt er ljóst að ein ástæða þess að okkur ber niður á Austurlandi fyrst er að okkur er vel ljóst að þar hafa risið væntingar sem munu þýða, ef ekki verður af neinum framkvæmdum, að þar er umtalsverð hætta á bakslagi. Það er reyndar eitt af því sem ég og margir fleiri höfum nefnt í sambandi við þessi mál, menn hefðu átt að ganga þar gætilegar um gleðinnar dyr því að auðvitað áttu menn að gera ráð fyrir þeim möguleika að af þessu yrði kannski ekki.