Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:23:06 (547)

2001-10-15 19:23:06# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það eru athyglisverðar spurningar sem hv. þm. ber fram og ánægjulegt að lenda í yfirheyrslu af hálfu hv. þm.

Ég ætla að byrja á því, herra forseti, af því að ég var ekki búinn að ljúka allri umfjöllun um þessa ágætu skoðanakönnun að vekja athygli hv. þm. á því að ef hann skoðar skiptingu milli flokka, þá er það nákvæmlega niðurstaðan í þeirri skoðanakönnun að fylgismenn virkjunarinnar, einn stærsti hópur í einstökum flokkum er í Samfylkingunni, þannig að við skulum ekkert láta okkur bregða við það að hér hafi þrír hv. þm. Samfylkingarinnar talað á þessum nótum.

Hins vegar er ljóst eins og sést mjög vel á skoðanakönnuninni að skiptar skoðanir eru um málið í öllum flokkum. Það sem ég var að vekja athygli á var það að hv. þm. Vinstri grænna tala eins og ekki séu skiptar skoðanir hjá þeim. Ég held að ekki hafi farið fram hjá nokkrum manni að skiptar skoðanir hafa verið í Samfylkingunni um þetta mál, ég held að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni. Hins vegar liggur fyrir sameiginleg ályktun þingflokks og framkvæmdastjórnar um það að endanleg afstaða til málsins verður ekki tekin fyrr en öll kurl eru komin til grafar í málinu og það verður að sjálfsögðu ekki fyrr en búið er að kveða upp úrskurð um umhverfismatið á Kárahnjúkavirkjun. Það er ekki fyrr en þá sem allar upplýsingar verða komnar um málið og það eru auðvitað hin, eigum við ekki að segja eðlilegu vinnubrögð hjá stjórnmálaflokki þar sem eru m.a. skiptar skoðanir að hinkra eftir að allt sé komið upp á borð í málinu. Hins vegar hefur aldrei vafist neitt fyrir mér hvaða afstöðu ég hef í málinu. Hún hefur verið alveg skýr held ég allan tímann og við fórum vel yfir það, ég og ýmsir hv. þm. Vinstri grænna í umræðunni um Fjótsdalsvirkjun. Ég hef óbreytta skoðun. Ég get hins vegar rifjað upp hvaða skoðanir sumir aðrir höfðu fyrir nokkrum árum. Það getur vel verið að það verði gert í andsvörum á eftir.