Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:31:51 (725)

2001-10-18 11:31:51# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. góðar undirtektir við frv. Varðandi undirtektir lækna hygg ég að þær séu að hluta til byggðar á því að læknastéttin stóð í þeirri meiningu að verið væri að mismuna rekstrarformum með þessu frv. Ég vona að sá misskilningur hafi verið leiðréttur.

Varðandi kynningu á frv. þá er frv. búið að vera nokkuð lengi í undirbúningi og umræða hefur farið fram um það. Menn, m.a. í læknastétt, hafa vitað af þeim umræðum sem hafa verið um þessi mál á vettvangi ráðuneytisins. Meðal annars komu þeir að máli við mig og töluðu um að samráð vantaði og þess vegna var frv. kynnt á aðalfundi þeirra. Mér þótti rétt að koma til móts við þá. Ég vil bara biðja forláts á því. Mér þykir þetta leitt. Ég skil alveg afstöðu hv. þm. til þessa. Það hefði vafalaust verið allt í góðu lagi að kynna stjórnarandstöðunni frv. áður en það kom fram. En ég vona að þetta komi ekki að sök.

Heilbr.- og trn. mun fjalla um málið og vinna það vandlega eins og hennar er von og vísa, kalla eftir skýringum á ýmsum atriðum og umsögnum frá læknum.