Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:17:10 (735)

2001-10-18 12:17:10# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur hæstv. heilbrrh. lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar.

Þetta frv. er að mörgu leyti mjög áhugavert. Og tilgangur frv. á að vera að: ,, ...að styrkja stöðu heilbrigðisyfirvalda til að marka stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu og að heimila heilbrigðisráðherra að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði þjónustunnar.``

Við höfum nýlega samþykkt heilbrigðisáætlun sem gilda á til ársins 2010. Ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem þar eru lögð fram og við höfum samþykkt þá verður að breyta stjórnun í heilbrigðisþjónustunni.

Við höfum varðandi ferliverk haft tvær samninganefndir og þjónustan hefur þróast sjálfkrafa, að eigin frumkvæði, eigin hvötum og raunar þróast af framboði þeirra sérfræðinga sem hafa verið til staðar innan ákveðinna greina á ákveðnum tíma. Þjónustan hefur þróast ómarkvisst frá heilsugæslunni eins og til stóð að byggja hana upp, yfir í sífellt meiri sérfræðiþjónustu utan heilbrigðisstofnana.

Það hefur verið mikið bráttumál að fá aukið fé til sjúkrahúsa hvar sem er á landinu, ekki síður úti á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Reynt hefur verið að fjölga ferliverkum þar til að efla sérfræðiþjónustu úti um land og hefur gengið mjög erfiðlega að fá aukið fjármagn til þeirrar starfsemi. Vísað hefur verið til fjárhagsramma hverrar stofnunar fyrir sig. Þetta hefur staðið mörgum stofnunum fyrir þrifum. Þær hafa ekki getað bryddað upp á nýrri þjónustu, ekki getað fengið til sín t.d. lækna eins og kvensjúkdómalækna, barnalækna, sálfræðinga og sérfræðinga, nema í mjög takmörkuðum mæli þar sem mjög hefur verið þrengt að þessum stofnunum. Sérfræðingar á þessum sviðum hafa aftur á móti getað komið eða veitt þjónustu á eigin stofu eða eigin forsendum án þess að hafa nokkrar áhyggjur af fjárhagsramma sjúkrahúsanna.

Svona hefur þetta þróast. Ég fagna því að það skuli reynt að koma einhverjum böndum á þessa þróun, þ.e. að við höfum áhrif á að heilbrigðisþjónusta verði veitt í grunnþjónustunni, ef við reynum að beina frumþörfum inn til heimilislækna á heilsugæslustöðvum, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, að sérfræðingar séu nýttir þegar á þarf að halda og sjúkrahúsþjónustan sé efsta stigið sem tekur við erfiðustu tilfellunum.

Þetta hefur allt farið í rugling hjá okkur. Margir hafa farið beint til sérfræðinga með sín vandamál, oft vegna þess að það hefur ekki verið hægt að fá tíma á heilsugæslustöðvunum. Það á sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið. Hér er bara mjög erfitt að komast að og þar af leiðandi hefur fólk frekar farið beint til sérfræðinga þar sem auðveldara hefur verið að að komast að. Þar af leiðandi höfum við ekki stýrt þessu eins og við hefðum viljað.

Ég held að forsenda þess að hægt sé að koma á þessum samningum og að hlutirnir gangi vel í framtíðinni --- því auðvitað verður þetta ekki gert nema í góðu samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn og þá sérstaklega lækna --- sé að farið verði í þá vinnu að skilgreina þá þjónustu sem við teljum að eigi að vera á sjúkrahúsunum, hún sé skilgreind þar og hvað við teljum að geti verið unnið utan sjúkrahúsanna. Ef þessi vinna liggur fyrir þegar farið verður í samningaviðræður, þá held ég að samningar um ferliverkin verði auðveldari í framhaldi af því.

Í aðeins einni grein frv. er komið inn á greiðslur til dvalarheimila, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila, sem ekki eru á föstum fjárlögum. Það á að greiða þessum stofnunum samkvæmt hjúkrunarþyngd eða RAI-mati. Ég held að það hljóti að vera af hinu góða að þar sé samræmdur grunnur og að greiðslur til viðkomandi stofnunar séu þá metnar eftir hjúkrunarþyngd. Í RAI-mati er meira en bara hjúkrunarþyngdin. Við í heilbr. og trn. munum fara vel yfir hvað þetta þýðir.

Eins þurfum við að skoða 8. gr. vel, þar sem segir: ,,Heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar, þ.m.t. upplýsingar úr sjúkraskrám, vegna ákvörðunar um greiðslu bóta...``

Við þurfum auðvitað að vita nákvæmlega hvar við stöndum gagnvart persónuverndinni þegar við förum yfir þessa grein.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Í heildina líst mér vel á þetta frv. Við þurfum alla vega að taka til hendinni ef við ætlum að ná markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að veita þjónustu á réttu þjónustustigi. Því ber okkur líka að efla forvarnirnar, auka þjónustu í heimahúsum og nýta þá starfskrafta sem við höfum, t.d. sjúkraliða og ófaglært starfsfólk, til að sinna grunnþjónustunni og í heimahjúkruninni. Við verðum öll að leggjast á eitt við að finna hverju verkefni rétt þjónustustig.