Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 14:54:29 (760)

2001-10-18 14:54:29# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika er lagt hér fram í þriðja sinn á þessu kjörtímabili. Í fyrsta skipti var það fellt, í fyrra fékk það enga afgreiðslu og nú er það lagt fram í þriðja sinn. Efnislega ætla ég ekki að fara yfir þetta frv. við 1. umr. Ég vísa til fyrri umræðna um frv. í bæði skiptin sem það var flutt og til allra þeirra umsagna sem um frv. hafa komið. Ég hef enga trú á því að í sjálfu sér komi neitt nýtt fram við þessa umræðu í dag.

Ég tek hér til máls, herra forseti, vegna þess að ég vil gera athugasemd við dagskrá þingsins, í fyrsta lagi að mál sem er nr. 39 skuli vera tekið fram fyrir önnur mál á dagskrá sem voru með lægri málsnúmer og sem hefði örugglega frekar þurft að vera vísað til nefndar og til umsagnar núna á næstunni heldur en þetta mál sem þegar hefur fengið mjög góða umræðu og umsagnir víða að. Ég geri athugasemd við að þetta mál skuli ekki hafa fengið að bíða enn um sinn. Þegar komið er að deginum í dag geri ég athugasemd við að það skuli vera sett á dagskrá sem liður nr. 5 en síðast á dagskrá dagsins í dag mál varaþingmanna sem nauðsynlega þurfa að koma til umræðu og hefðu að mínu mati og fleiri átt að vera fyrr á dagskránni svo að hv. varaþingmenn gætu með góðu móti talað fyrir sínum málum og þingfundur þá ekki staðið fram á kvöld.

Annað vildi ég ekki segja um þetta mál að sinni. Ég held að það sé að mörgu leyti þegar útrætt.