Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:15:15 (768)

2001-10-18 15:15:15# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Katrín Fjeldsted:

Forseti. Hér er komið fram í þriðja sinn frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Í þau tvö skipti sem frv. kom til umræðu hér tjáði ég mig um það í allítarlegu máli og ég ætla ekki að endurtaka þær ræður hér. Ég ætla að vísa til fyrri umræðna um þetta mál. Það eru örfáir punktar sem mig langar til að hnykkja á og þeir eru eftirfarandi --- ef flutningsmaður gæti gefið mér athygli sína smástund. --- Ég hinkra bara, forseti. --- Já, nú er fyrsti flutningsmaður tillögunnar kominn í sæti sitt.

Ég ætlaði að byrja á því að segja að öllum rökum 1. flm. frumvarpsins, Gunnars Birgissonar, hefur þegar verið svarað í mjög ítarlegu máli. En mér virðist hann ekki breyta neinum af fullyrðingum sínum þrátt fyrir það, nema einni. Ef ég man rétt sagði hann og fleiri flutningsmenn þessa frv. að í barna- og unglingakeppnum í Golden- og Silvergloves-keppnum væri ekki vitað um nein slys. En í ræðu hans nú kom fram að í 23.000 keppnum hefðu orðið 98 meiðsli. Ég held að þetta séu nýjar upplýsingar. Þær urðu til þess að hann tjáði þá skoðun sína að þetta þýddi að íþróttin væri ekki mjög hættuleg. Að mínu viti aðskilur box sig frá öðrum keppnisgreinum í því að vera ekki varnaríþrótt --- að vera ekki sjálfsvarnaríþrótt eins og þorri hinna, heldur er hún stunduð í árásarskyni.

Það er alveg rétt að ekki eru skoruð sérstök stig í ólympískum hnefaleikum út á rothögg en það eru heldur ekki veitt refsistig. Rothöggið gefur sem sagt stig. Þannig er ekkert sem letur keppendur, það er ekkert sem eykur líkurnar á því að þeir hlífi höfðinu á andstæðingi sínum.

Ég vil líka nefna að keppni í ólympísku boxi á að fara fram í viðurvist læknis. Það er skýrt kveðið á um það. Ég hef lýst því hér áður að það er falskt öryggi, einkum hvað áverka á heila snertir, nema vel útbúin taugaskurðdeild sé í fárra mínútna fjarlægð frá keppnisstað. Þess vegna hafa læknar líka skipt sér af þessu máli. Þess vegna samþykkti Alþjóðasamband lækna að beita sér fyrir banni á hnefaleikum. Þess vegna tóku Evrópusamtök lækna undir þá áskorun nú í haust, samhljóða, á fundi sínum. En þangað til bann við hnefaleikum, og þá er verið að tala um alla hnefaleika, nær fram að ganga er því beint til Alþjóðaólympíusambandsins og boxsambanda um allan heim að bannað verði að slá í höfuð þegar keppt er í boxi.

Mér finnst þetta skipta heilmiklu máli. Læknar eru þeir sem eru kallaðir til ábyrgðar, þ.e. boxkeppni má ekki fara fram nema að viðstöddum lækni. Og þegar Alþjóðasamtök lækna og Evrópusamtök lækna eru þeirrar skoðunar að höfuðáverkar í boxi séu það alvarlegt mál að hætta beri keppni í áhugamannahnefaleikum á Ólympíuleikunum finnst mér vert að leggja við hlustir.

Ég gef í rauninni mjög lítið fyrir yfirlýsingar sumra flutningsmanna þessa frv. um forsjárhyggju ríkisins nema þeir gangi þá alla leið og vilji að forsjárhyggja ríkisins banni ekki atvinnuhnefaleika. Þá fyrst verða þeir trúverðugir. Það er ekki hægt að segja að það sé forsjárhyggja að banna áhugamannabox en það sé ekki forsjárhyggja að banna atvinnumannabox. Menn geta komið hér með rökstuðning sem sýnir hversu miklar tekjur þjóðarbúið gæti fengið af því að bjóða hingað Mike Tyson og einhverjum álíka hetjum hnefaleikanna, halda keppni af þessu tagi hér á landi, menn geta búið til alls konar slík dæmi og sýnt hvað það sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna og þjóðarbúið og guð veit hvað. En að halda því fram að það sé ekki forsjárhyggja að banna atvinnuhnefaleika, það sé bara forsjárhyggja að banna ólympískt box, það stenst ekki.

Frá 8 ára aldri má keppa í alþjóðlegum keppnum í ólympísku boxi. Það þýðir að það má fara að þjálfa ung börn í boxi nokkru fyrr þannig að þau verði reiðubúin að keppa frá 8 ára aldri. Ég er kannski svona mikil forsjárhyggjukona að ég tel að í ljósi þess ástands sem er meðal ungs fólks á Íslandi sé þetta ekki það sem við þurfum mest á að halda til viðbótar.

Komið hefur fram að konur muni keppa á næstu Ólympíuleikum. Við höfum talað um þá alþekktu reglu sem öllum finnst sjálfsögð --- að ekki megi slá fyrir neðan beltisstað --- menn hljóta að breyta reglunum þegar konur fara að keppa á Ólympíuleikunum enda hangir ekkert fyrir neðan beltisstað á konum sem til vandræða horfir. Ég held að boxarar um allan heim verði nú að hugsa um þetta. Konur sem stunda box verða að krefjast þess að leyft verði að slá fyrir neðan beltisstað.

Við höfum áður í þessum sal talað um þau rök að heilinn ætti að skipta meira máli en kynfærin og ég ætla ekki að rifja það upp frekar. En mér finnst í rauninni hálfgrátlegt að sjá þetta mál komið hér enn einu sinni á dagskrá Alþingis vegna þess að það hefur verið fellt af Alþingi. Hér eru fjölmargar tillögur fluttar að nýju, frv., þingsályktanir, sem ekki ná fram að ganga af ýmsum ástæðum, tímaskorti og hinu og þessu eða komast ekki á dagskrá. Þær eru oft endurfluttar en það er mjög sjaldgæft að sjá endurflutt mál sem þingið hefur þegar tekið afstöðu til á svo skýran hátt sem það gerði --- því málið var fellt. En það er nú svo, þetta er staðreyndin.

Ég lít svo á að það sé rétt að þetta mál fari í þann farveg sem það gerði við fyrri meðferð. Það hefur kannski ekki svo mikið breyst nema þetta þó að einn af flutningsmönnunum hefur áttað sig á því að það er saga um a.m.k. 98 meiðsli í Golden- og Silvergloves-keppnunum og hann orðar það svo að þetta sé ekki mjög hættuleg íþróttagrein. Ég hef margoft bent hv. þm. Gunnari H. Birgissyni á að allar tölur sem hann fór með hér áðan um tíðni áverka í íþróttum séu ekki nothæfar til samanburðar, og hef höfðað til hans betri vitundar sem verkfræðings, að þekking hans á stærðfræði hljóti að vera á þá lund að hann sjá hvenær tölur eru samanburðarhæfar og hvenær ekki.

En ég geri ráð fyrir að þetta frv. fari inn til menntmn. og komi inn til heilbr.- og trn. á sama hátt og það hefur gert við fyrri umfjöllun.