Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:26:30 (770)

2001-10-18 15:26:30# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Já, það hangir margt á hinni og þessari spýtunni.

Þingmaðurinn segir að ég sé málefnaleg í þetta sinn. Ég held að ég hafi verið það líka í hin skiptin þegar ég fjallaði um þetta mál og vitna til fyrri ræðna minna um þetta mál.

Box er hættuleg íþrótt. Atvinnubox er hættuleg íþrótt, segir þingmaðurinn. Ég er alveg sammála því. En það sem við erum ósammála um er hvort ólympískt box sé hættuleg íþrótt. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé. Ég er þeirrar skoðunar að þjálfun, æfing í íþróttasal í ólympísku boxi sé mjög góð æfing, loftsækin, fín þjálfun, en það eru keppnir og svokallað ,,sparring`` þar sem heilaáverkar koma fyrir, og höfuðhlífar þær sem notaðar eru í ólympísku boxi bjarga því ekki við, því miður.

Meiðsli í þróttum eru mismunandi tíð. Menn töluðu hér áðan um áverka sem gætu orðið við að fá fótbolta í höfuðið. Ég er alveg viss um að ef heilaáverkar í fótbolta væru algengir væri löngu búið að banna að skalla bolta. En það er bara ekki þannig. Það koma fyrir slys, jú, en það virðist vera mikill munur á því hvort fólk skallar bolta á ákveðnum stað ofan á höfðinu eða fær hnefahögg á hliðina á höfðinu eða framan á það. Heilinn bregst nefnilega ekki eins við. Og ég er viss um að öll fótboltasambönd heimsins hefðu stoppað það að boltar yrðu skallaðir ef afleiðingarnar yrðu svipaðar og við höfuðhögg í boxi, hvort sem er atvinnuboxi eða áhugamannaboxi. En svo er ekki.