Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:42:24 (773)

2001-10-18 15:42:24# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú sat hv. þm. Gunnar Birgisson svona tvær armslengdir fyrir framan mig og hlustaði, sem og aðrir þingmenn, og mér er þar af leiðandi ómögulegt að skilja hvernig hv. þm. gat misheyrt þetta svona hrapallega. Ég var einmitt að gera athugasemdir við þá röksemdafærslu að það ætti að leyfa þetta vegna þess að ýmsar aðrar hættulegar íþróttagreinar eða sambærilegar árásargreinar væru ekki bannaðar. Það tel ég aumlega röksemdafærslu. Og ég sagði: Það eru ekki rök fyrir því að leyfa hass, að tóbak er ekki bannað. Það var þetta sem ég sagði, hv. þm. Skilst þetta ekki? Á ég að fara yfir þetta aftur? Ég er að mótmæla því að menn reyni að koma málum sínum fram með svona óframbærilegri röksemdafærslu. Það var allt og sumt.

Að ég sé á móti ýmsu --- það er alveg hárrétt. Ég er iðulega á móti hlutum. Ég er á móti öllu sem ég tel vera vitlaust og rangt og ég skammast mín ekkert fyrir það. Ef ég væri það ekki þyrfti að fara að athuga mig eitthvað því þá væri ég ekki að bregðast við og taka afstöðu til hlutanna út frá minni sannfæringu. Erum við ekki hérna á þingi til þess? Ætlum við að bogna í hnjánum af því að einhverjir eru að væla um það að við séum neikvæð og á móti einhverju? Nei, ekki hann Steingrímur J. Sigfússon. Ég er á móti því sem ég er á móti og biðst ekkert afsökunar á því. Að sjálfsögðu hafa þingmenn síðan rétt til sinna skoðana. Ég vona að ég hafi ekki skilist þannig að ég væri að amast við því að menn töluðu fyrir sínu máli --- ef þeir bara gera það með rökum.

Það sem ég gagnrýndi var hvernig staðið er að fundarstjórninni hér í dag. Ég tók það sérstaklega fram að menn hafa auðvitað fullan rétt til þess að endurflytja sín mál út í hið óendanlega, hversu vitlaus sem þau eru. Þess vegna getur hv. þm. Gunnar Birgisson verið á þingi í 20 ár og flutt þetta mál í hvert einasta skipti og ekkert einasta annað mál öll þessi 20 ár. Það er hans réttur.