Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:29:47 (793)

2001-10-18 17:29:47# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um gerð svæðisskipulags fyrir landið allt, sem hv. þm. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir hefur mælt fyrir, er að mínu mati hið merkasta og þarfasta mál. Eins og hv. þm. rakti í ágætri ræðu sinni þegar hún mælti fyrir tillögunni er gerð svæðisskipulags afar mikilvæg til að byggja á framtíðaráætlanir byggðar, búsetu, nýtingar lands og auðlinda hvarvetna á landinu.

Það er líka, herra forseti, afar mikilvægt að svæðisskipulag sé unnið nokkurn veginn samtímis fyrir landið allt til þess að hægt sé, eins og hv. þm. kom inn á, að taka nokkurn veginn samræmda stefnu, eftir því sem mögulegt er, fyrir framtíð byggðar í landinu öllu. Við horfum upp á það núna að ágætt og metnaðarfullt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið hefur verið kynnt, og það vakti áhuga íbúanna og viðbrögð í samfélaginu. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að fjölgun á þessu svæði verði um ákveðið árabil um 60 þúsund manns og þar af flytji 30 þúsund af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Samtímis eða nokkru seinna verðum við síðan að búa til svæðisskipulag fyrir Vestfirði, Norðurland, Austfirði og Suðurland, og hvert svæði mun náttúrlega vafalaust skipuleggja sína byggð, sína búsetu og sínar áætlanir, miðað við að þar fjölgi einnig, a.m.k. má ætla að metnaður þeirra standi til þess.

Það gefur því augaleið að til þess að það sé eitthvert samræmi í þeim markmiðum og áætlunum sem verið er að gera í þróun byggðar, búsetu og nýtingu náttúruauðlinda, er mikilvægt að líta á þetta einmitt í heild sinni til þess að þarna verði þá ekki togstreita.

Annað sem hv. þm. minntist á, og kemur fram í tillögunni sjálfri, er að mörg fámenn og stór sveitarfélög með mikið land hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að axla ábyrgð af þessari vinnu. Tökum til dæmis alla Vestfirðina, þau gríðarlega stóru og landmiklu sveitarfélög, hvort sem það eru Strandir eða annað, þar sem er bæði fámennt og ekki miklar tekjur en mikið land og náttúruauðlindir, svæði sem mikilvægt er að sé skipulagt --- þessi sveitarfélög ráða að sjálfsögðu engan veginn við þetta á eigin spýtur. Jafnmikilvægt er það samt sem áður.

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi, að þessi þáltill. og sú greinargerð sem hv. þm. hefur fylgt úr hlaði er afar þýðingarmikið mál fyrir landið allt. Ég styð eindregið að þegar tillagan kemur til hv. umhvn. fái hún ítarlega og góða umfjöllun og fáist afgreidd hér á þinginu.