Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:01:00 (964)

2001-11-01 11:01:00# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi máls síðasta ræðumanns er hugsanlegt að komið hafi fram bein yfirlýsing og skýring á því hvers vegna á að leggja Náttúruverndarráð niður.

Náttúruverndarráð stendur sem sagt fyrir öfgafullum náttúruverndarsjónarmiðum, er öfgafullur náttúruverndarhópur. Náttúruverndarráð er samnefnari hinna frjálsu félagasamtaka, skipað fulltrúum frjálsra félaga. Hafi rödd Náttúruverndarráðs verið öfgafull að mati núverandi stjórvalda þá er það vegna þess að Náttúruverndarráð hefur talið stjórnvöld ganga of langt í framkvæmdum á kostnað náttúrunnar og látið í sér heyra. Er það þess vegna sem á að leggja Náttúruverndarráð niður?

Er þetta allt saman bara blekking? Verður hægt að velja til samstarfs þægilega hópa, þægileg samtök sem þóknast stjórnvöldum í hvert skipti í viðkomandi málum, og ekki bara núverandi stjórnvöldum heldur stjórnvöldum sem eiga eftir að sitja? Er það þess vegna sem á að gera þetta? Hefur Náttúruverndarráð staðið vaktina of vel fyrir hönd náttúrunnar?