Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:04:51 (966)

2001-11-01 11:04:51# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst nú virðulegur þingmaður komast heldur illa frá því að reyna að snúa út úr því sem ég sagði.

Það er mat núverandi stjórnvalda að í Náttúruverndarráði séu öfgafullir náttúruverndarsinnar. Hvers vegna er það? Er það ekki vegna þess að núverandi ríkisstjórn stendur fyrir svo stórfelldum stóriðju- og virkjanaframkvæmdum að þeim síðustu hefur verið hafnað af náttúruverndarsjónarmiðum, að hér eru talsmenn sem styðja ekki þessa aðför að náttúrunni? Og ef samt á að halda áfram, hverjir eiga þá að standa vaktina? Það þarf ekkert að vera öfgafullur í náttúruvernd til þess að láta í sér heyra þegar verið er að deila um virkjanaáform núverandi ríkisstjórnar sem ganga stórlega á náttúruna.

Ég held að við séum hér komin að kjarna málsins. Það á að leggja Náttúruverndarráð niður vegna þess að það hefur staðið sig í hlutverki sínu.