Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:06:30 (967)

2001-11-01 11:06:30# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þeir sem núna skipa Náttúruverndarráð ríkisins eigi mjög auðvelt með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri hjá venjulegum samtökum, frjálsum félagasamtökum sem um þessi mál kunna að fjalla.

Ef við ræðum aðeins um öfgafulla, við skulum segja andstöðu við virkjanir þá má hafa mjög langt mál um það. Ég minnist þess að þegar Eyjabakkaumræðan stóð hér sem hæst þá lýstu þessi samtök því yfir að þau mundu sætta sig við virkjanir ef umhverfismat yrði jákvætt.

Ég hef ekki orðið var við það nú upp á síðkastið að menn ætli sér yfirleitt að sætta sig við það, t.d. gagnvart Kárahnjúkavirkjun, að þeir hætti andstöðu sinni við virkjun hvernig sem umhverfismat fer. Ég veit að það er ekki búið. En ég hef ekki heyrt það á þeim mönnum sem hafa verið að kynna sjónarmið sín í þessu máli að þeir muni nokkurn tímann fara að þeim úrskurði sem fellur, þ.e. ef hann verður andstæður náttúruverndarsjónarmiðum þessara manna.

Það er hægt að verða svo öfgafullur í sínum sjónarmiðum að það skaði þjóðfélagið í heild sinni. Það er aldrei hægt að framkvæma neitt í landi öðruvísi að skaða náttúruna að einhverju leyti. Þetta er allt spurning um ákveðið jafnvægi, þ.e. að hægt sé að gera þetta þannig að gengið sé eins lítið á náttúruna og kostur er til að hægt sé að halda uppi eðlilegu mannlífi í landinu.