Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:46:31 (979)

2001-11-01 11:46:31# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal benti á. Það voru auðvitað aðrir tímar, aðrir menn uppi og önnur lög sem giltu þegar Eysteinn Jónsson, sá mikli náttúruverndarfrömuður var meðal vor.

En Náttúruverndarráð það er nú starfar, starfar samkvæmt lögum nr. 93/1996, bara svo því sé haldið til haga.

Hins vegar kom ég hér upp til að þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að taka af allan vafa um ástæður þess að þetta frv. er fram komið. Það kom ekki svona skýrt fram í máli hæstv. umhvrh. Það er sett fram til að bregðast við harðri gagnrýni á störf Náttúruverndarráðs, það sagði hv. þm. Ég vil þakka fyrir að það hafi verið sagt hér og staðfest af hinu háa Alþingi. Sú gagnrýni mun hafa komið fram í einkasamtölum og annars staðar, eins og hv. þm. benti á. Það er ágætt að þetta liggi ljóst fyrir áður en málið fer til nánari umræðu í hv. umhvn.