Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:40:25 (1025)

2001-11-01 14:40:25# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þær undirtektir sem ég hef fengið við frv., þó að fram hafi komið hjá þeim spurningar og athugasemdir um sitthvað í frv. sem væri hægt að taka til meðferðar og e.t.v. breytinga í hv. samgn. Það er auðvitað hinn venjulegi háttur hjá okkur í þinginu. Þess vegna erum við nú að tala saman hér, að lengi má gott bæta, eins og þar stendur.

Ég vil taka það fram að vegna vinnu hv. samgn. á síðasta þingi var frv. breytt í nokkrum atriðum. Ég er þeirrar skoðunar að allt hafi það verið til bóta þannig að hv. samgn. vann prýðilega að skoðun á frv. og að sjálfsögðu komu ýmsar athugasemdir frá þeim sem fengu það til umsagnar.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um það sem hefur komið fram, í fyrsta lagi um að nefnt var að sveitarfélögin tækju að sér þetta verkefni. Hv. þm. Kristján Möller og hv. þm. Katrín Fjeldsted nefndu þann möguleika og hv. þm. Kristján Möller spurði: Hvers vegna er sveitarfélögunum ekki falið þetta? Ég verð að viðurkenna, vegna þess að ég hef tröllatrú á sveitarfélögum eins og fleiri hv. þingmenn hér inni, að ég gerði tilraun til þess. Skemmst er frá því að segja að ekki var óskað eftir því af hálfu sveitarfélaganna að taka við þessu verkefni. Ég tel nú að það hafi verið eðlilegt að sjálfsögðu að láta það eftir þeim, þó að við tökum ekki tillit til allra óska sem til okkar koma. Lög eru lög, auðvitað. En af minni hálfu var ekki um það að ræða að pína sveitarfélögin til þess að taka að sér þetta verkefni. En koma tímar, koma ráð kannski.

Þetta er það fyrirkomulag sem við leggjum til núna. Eins og fram kom í framsöguræðu minni þá tel ég að með því fyrirkomulagi sem við erum að taka upp séum við að bæta stjórnsýsluna. Við erum að fela mjög traustri ríkisstofnun, Vegagerðinni, framkvæmdina að því marki sem bifreiðastöðvarnar sjá ekki um hana sjálfar. Ef út af ber er síðan hægt að leita úrskurðar ráðherra. Ég tel að þetta sé af hinu góða allt saman og vænti þess að vel megi til takast.

Hv. þm. Jón Bjarnason gerði tilraun til þess að vekja athygli á því, og ég held að honum hafi nú tekist það bærilega, að hér væri á ferðinni einhver alveg sérstök skattheimta. Það er nú bara þannig að við erum hér að setja takmörkun. Við erum að setja hér með lögum takmörkun á því að einstaklingar geti gengið inn á þetta svið atvinnulífsins og fyrir því eru margs konar rök. Það getur vel verið að sú tíð renni upp að ekki verði takmarkaður fjöldi leigubíla á höfuðborgarsvæðinu, en ég er ekki reiðubúinn til að ganga til þess á þessari stundu. Til þess að halda utan um þetta kerfi, sem allbærilegt samkomulag er um að hafa, teljum við eðlilegt að þeir sem fá þessi takmörkuðu atvinnuréttindi greiði beinan útlagðan kostnað vegna kerfisins en taki að öðru leyti að sjálfsögðu þátt sem skattgreiðendur í sameiginlegum útgjöldum samfélags okkar.

[14:45]

Þessi er hugsunin, að beinn kostnaður sé greiddur að því marki sem hægt er að meta hann fyrir fram. Við höfum lagt í heilmikla vinnu eins og hv. þm. Kristján Möller vakti athygli á. Við vorum fyrst að vonast til þess að atvinnuleyfið þyrfti ekki að kosta svona mikið. Síðan voru gerðar áætlanir sem ég lét endurskoða, fara rækilega yfir, í þeim tilgangi að lækka kostnaðinn. Niðurstaðan varð sú að sérfræðingum sýndist að þetta leyfisgjald mætti lækka niður í 13 þús. kr.

Auðvitað hljótum við að endurmeta þetta að fenginni reynslu í þeim tilgangi að hafa þetta sem allra lægst, hafa kostnaðinn við þetta kerfi sem minnstan. Ég vil lýsa því yfir hér og nú að það er ekki meiningin að efna til þess að ná inn tekjum til annars en að standa undir þessum kostnaði. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði, að leigubílstjórar eru auðvitað að veita almenningi þjónustu. Þetta er afar mikilvæg þjónusta og mikilvægur þáttur í ferðaþjónustunni. Þess vegna þarf auðvitað að líta á það í því ljósi.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristján Möller, velti fyrir sér hvort frv. stæðist samkeppnislög, hér væri um miðstýrt kerfi að ræða. Ég sé enga ástæðu til að ætla annað en svo sé. Gert er ráð fyrir ýmsum þökum í gjaldtöku o.s.frv. Ég held hins vegar að eðlilegt sé að samgn. taki ákvæðið um gjaldskrár til sérstakrar skoðunar. Mér finnst eðlilegt að nefndin skoði sérstaklega 10. gr. um gjaldmæla og það regluverk sem tengist því. Ég hvet hv. þingmenn til að fara rækilega yfir það atriði þannig að allt sé í góðu lagi.

Hv. þm. Kristján Möller og fleiri, m.a. hv. þm. Kristján Pálsson, veltu fyrir sér ákvæði 5. gr. um skilyrði fyrir atvinnuleyfi en atvinnuleyfishafi skal vera skráður eigandi bifreiðar eins og segir í greininni: Er skráður fyrsti umráðamaður með a.m.k. 35% eignarhlutdeild samkvæmt samningi við löggilt kaupleigufyrirtæki. Þetta hlutfall var hærra í upphaflega frv. sem var lagt fyrir á síðasta þingi en ráðuneytið er þeirrar skoðunar að heilmiklu máli skipti, vegna þess að við erum að úthluta hér þessum takmörkuðu leyfum, að settar séu kröfur um að aðilar eigi kláran eignarhluta í þessum atvinnutækjum, það skapi festu og stöðugleika í greininni og um leið sé lögð áhersla á að þessum aðilum takist að stunda atvinnustarfsemi sína með þeim hagnaði að þeir geti verið ásáttir með þann arð sem af þessu eigin fé kemur. Þetta er grundvallaratriði í rekstri atvinnufyrirtækja og ég tel að þetta eigi ekki að þurfa að valda neinum vandræðum. Engu að síður þarf að fara yfir þetta, og væri einmitt mjög fróðlegt að fá umsagnir um þetta atriði frá leigubílstjórafélögunum þannig að hv. þm. í samgn. geti styrkst í þeirri trú að kosturinn sé skynsamlegur. Þetta vildi ég segja um það mál.

Eins og hv. þm. þekkja eru hér takmörkunarsvæði, og fjöldi leyfa takmarkaður. Ég hef ekki verið tilbúinn til að raska þeirri ró með því að fella niður takmörkunarsvæðin enda komst ég að þessari niðurstöðu eftir að hafa farið mjög vandlega yfir þetta mál með ýmsum aðilum. Þrátt fyrir háværar kröfur um það í Sleipnisverkfallinu fyrrum held ég að ekki sé skynsamlegt að gera það.

Ég vil aðeins taka fram vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted, taka undir með henni, að það er mjög mikilvægt að settir séu gæðastaðlar og reynt að tryggja það sem ég veit að leigubílstjórar auðvitað vilja. Þeir vilja bjóða sína þjónustu sem besta. Við þurfum að gæta þess að ekki séu settar óeðlilegar kvaðir með tilheyrandi kostnaði en það er nauðsynlegt til þess einmitt að skapa leigubílstjórunum betri stöðu til þess að selja þjónustu sína. Það er bara partur af því.

Bækistöð Vegagerðarinnar í Reykjavík var nefnd af hv. þm. Katrínu Fjeldsted. Það er auðvitað svo að þjónustan er tiltölulega aðgengileg á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að Vegagerðin er með sína stærstu stöð hér. Engu að síður gerum við ráð fyrir því að t.d. á Akureyri sé eðlilegt að starfsstöð Vegagerðarinnar þar sinni þeirri þjónustu sem er á Akureyri.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted vakti enn fremur athygli á 11. gr. og af því tilefni og bara með vísun til þess sem segir í 11. gr. vil ég taka það alveg sérstaklega fram og vekja athygli hv. samgn. á að undirstrika það kannski í nefndaráliti sínu að ekki er verið að fela lögreglunni neitt annað hlutverk en sem fylgir almennri löggæslu. Við ætlumst ekki til þess að hún taki að sér sérstakt hlutverk þó að skilja mætti það svo í greinargerðinni með frv. Í greininni sjálfri er hvergi getið um hlutverk lögreglunnar sérstaklega en til þess að það sé enginn misskilningur vil ég undirstrika þetta alveg klárlega og hafa það þannig á hreinu.

Ég held að ég sé búinn að fara yfir þau atriði sem hv. þm. bentu á með ágætum og vil endurtaka þakkir fyrir undirtektir við frv.