Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:26:12 (1167)

2001-11-05 15:26:12# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), LB (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni áðan að sá sem hér stendur og fleiri hafi vísvitandi farið með rangt mál og þeir hafi vitað af því. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að aumari afsökun hef ég vart heyrt þegar hæstv. ráðherrar komast í vandræði á hinu háa Alþingi að útskýra hvað valdi því að þeir svari ekki spurningum, að þeir skuli snúa sig út úr því með þessum hætti. Og þeir bera fyrir sig mannréttindaákvæði. Að bera fyrir sig mannréttindaákvæði þegar kemur að því að kaupa eða selja jarðir, ég hef sjaldan eða aldrei heyrt nokkurn teygja sig jafnlangt í að reyna að slá ryki í augu þingheims. Ég spyr hæstv. ráðherra og hlýt að spyrja hann sem svo: Hvar fór sá sem hér stendur með rangt mál í ræðu sinni áðan? Það er ekki hægt að kasta slíku fram án þess að rökstyðja það á einhvern hátt. Ég geri því skýra kröfu til þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi í ræðustól og útskýri og segi nákvæmlega til um það hvar sá sem hér stendur og fleiri fóru með rangt mál í umræðunni. Það er ekki hægt að kasta slíku fram með þessum hætti.