Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:26:18 (1197)

2001-11-05 18:26:18# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var dálítið að brýna okkur stjórnarliða til að fylgja sannfæringu okkar. Ég vil svara því þannig að ég hef ekki legið á liði mínu í því að standa á minni sannfæringu. Ég minni á að á sl. vori urðu allnokkur átök um þetta mál. Þá átti að ljúka málinu með tilteknum hætti sem ég gat ekki samþykkt. Ég lýsti yfir andstöðu við það og hélt þeirri andstöðu þrátt fyrir að aðrir féllust á málamiðlun í þeim efnum. Niðurstaðan varð sú, eins og menn þekkja, að málið var ekki lagt fram og mér var legið á hálsi opinberlega fyrir að ég hefði stöðvað málið með því að fylgja sannfæringu minni.

Nú höfum við annað mál í þingsölum sem er allnokkuð frábrugðið hinu fyrra og ég vil segja illskárra. Ég vil ekki segja málið gott og ég hef ekki lýst yfir stuðningi við það. Ég hef hins vegar sagt opinberlega að ég ætlaði ekki að ganga svo langt að styðja frumvarp stjórnarandstöðumanna í sambærilegu máli af því að ég starfa innan stjórnarliðsins og ætla að beita mér innan raða þess til að ná fram þeim breytingum sem unnt er á málum sem eru til umfjöllunar.

Ég tel að á þessu máli þurfi að gera breytingar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ég geri mér vonir um að það takist að mjaka því til betri vegar frá því sem nú er þó að það hafi heldur skánað frá því sem var á sl. vori.