Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 14:09:36 (1957)

2001-11-27 14:09:36# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég legg fram til 2. umr. fjárlagafrv. sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi á fyrstu þingdögum og er það gert eftir ítarlega umfjöllun í fjárln. og eftir afgreiðslu nefndarinnar.

Skemmst er frá því að segja að undanfarnir mánuðir hafa verið viðburðaríkir á sviði efnahagsmála. Hryðjuverkaárásin í Bandaríkjunum 11. september og eftirmálar hennar hafa þar auðvitað verið í aðalhlutverki. Þessir voveiflegu atburðir hafa leitt til þess að ástand og horfur í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi hafa versnað til muna. Fyrir 11. september var almennt búist við því að botni hagsveiflunnar í heiminum yrði náð á seinni hluta þessa árs en nú er því spáð að uppsveifla hefjist ekki fyrr en upp úr miðju næsta ári. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa hér heima, m.a. í ferðaþjónustu. Við þetta bætist óhagfelld þróun efnahagsmála innan lands. Þannig hefur verðbólga reynst meiri en áætlað var og gengi krónunnar hefur haldið áfram að síga. Þetta stefnir kjarasamningum í tvísýnu þegar launaliður þeirra kemur til endurskoðunar í byrjun næsta árs. Þá er ótalinn uppsafnaður vandi vegna mikils viðskiptahalla undanfarin ár. Hér leggst því allt á eitt og fyrir vikið stefnir í meira mótlæti í efnahagsmálum á næsta ári en séð var fyrir þegar gengið var frá fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun undir lok september.

Umskiptin í alþjóðamálum birtast skýrt í muninum á hagvaxtarspá OECD í maí síðastliðnum og endurskoðaðri spá Þjóðhagsstofnunar fyrir skömmu. Í maí var spáð 1,9% hagvexti í aðildarríkjunum á seinni hluta þessa árs og 3,0% hagvexti á fyrri hluta næsta árs. Til samanburðar gerir stofnunin nú ráð fyrir 0,4% samdrætti á seinni hluta þessa árs og einungis 0,7% vexti á fyrri hluta næsta árs. Í framhaldi er hins vegar reiknað með því að hagvöxtur nái sér á strik og verði um 3% á ári frá og með seinni hluta ársins 2002. Þetta er sá jafnaðarvöxtur sem gert er ráð fyrir í aðildarríkjum OECD til lengri tíma. Til marks um dýpt efnahagslægðarinnar má geta þess að núlíðandi árshelmingur yrði fyrsti árshelmingur samdráttar í aðildarríkjum OECD frá árinu 1982, ef spáin gengur eftir.

Innlend efnahagsþróun hefur einnig verið óhagstæð. Gengi krónunnar hefur til að mynda veikst verulega frá því sem miðað var við í fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun. Þannig byggðist þjóðhagsáætlun á gengisvísitölunni 140 stig, þ.e. genginu sem var þegar áætlunin var skrifuð, og fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir styrkingu krónunnar. Nú er gengisvísitalan hins vegar 150 stig sem felur í sér að gengi krónunnar hefur fallið sem næst 7% frá því í september. Þessi gengislækkun kann auðvitað að ganga til baka ef vel er á málum haldið, en engu að síður veldur hún þrýstingi á verðlag á næstu mánuðum og skapar því hættu á óróa á vinnumarkaði. Í forsendum fjárlagafrumvarps var gengið út frá að verðbólga yrði 5% milli áranna 2001 og 2002 og nálægt 3% innan ársins 2002. Þetta er um einu prósentustigi minni verðbólga en í nýlegri spá Seðlabankans og fjármálastofnanir virðast jafnvel reikna með enn meiri verðbólgu samanber nýlega spá Íslandsbanka. Því er ljóst að endurskoða þarf verðlags- og gengisforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Einnig veikir grunn frumvarpsins að viðbúið er að umsvif og eftirspurn í hagkerfinu verði minni en reiknað var með í september. Í þjóðhagsáætlun er reiknað með að landsframleiðslan minnkaði um 0,3% milli áranna 2001 og 2002 en hins vegar byggði fjárlagafrumvarpið á 1% hagvexti. Framvindan að undanförnu bendir til að hugsanlega verði samdrátturinn meiri en Þjóðhagsstofnun áætlaði. Kemur þar hvort tveggja til óhagstæð þróun á alþjóðavettvangi og vísbendingar um að e.t.v. verði samdráttur einkaneyslu meiri en áður var talið. Þótt nýjar spár um þetta efni liggi ekki fyrir virðist skynsamlegt að búa sig undir að samdrátturinn í efnahagslífinu verði nokkru meiri en fyrri áætlanir byggðu á.

[14:15]

Við þetta bætist uppsafnaður vandi sem á rætur að rekja til þess að þjóðarútgjöld hafa aukist mun hraðar en þjóðartekjur á undanförnum árum. Þetta hefur leitt til mikils viðskiptahalla sem náði hámarki í fyrra en hallinn nam þá 67 milljörðum króna eða sem svarar til 10% af landsframleiðslu. Það liggur í hlutarins eðli að svo mikill halli gat ekki staðist til langframa. Gengislækkun krónunnar og samdráttur í útgjöldum einkaaðila veldur því að útlit er fyrir verulega minnkun hallans í ár. Þannig er spáð að hallinn verði 7,9% á þessu ári og fari áfram minnkandi á næsta ári, eða niður í 5,9% af landsframleiðslu. Að baki liggur minni einkaneysla og verulegur samdráttur í fjárfestingu atvinnulífsins. Þetta er nauðsynleg og óhjákvæmileg aðlögun þjóðarútgjalda að þjóðartekjum. Með betra samræmi milli þjóðarútgjalda og þjóðartekna, eða með öðrum orðum minni viðskiptahalla, er lagður traustur grunnur að nýju hagvaxtarskeiði í þjóðarbúskapnum.

Í þessu ljósi er brýnt að stjórnvöld leggist á sveif með öðrum aðilum í hagkerfinu og leggi sitt af mörkum til lækkunar þjóðarútgjalda. Fjárlaganefnd stefnir að því að ná þeim árangri sem að var stefnt þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og að skila fjárlögum með nálægt 3,5 milljarða króna afgangi af rekstri, þ.e. þegar sala ríkiseigna hefur verið dregin frá. Fjárlaganefndin mun því vinna að endurskoðun útgjalda og tekna eins og reyndar er venja til milli 2. og 3. umr. og leggja fram tillögur við 3. umr. sem ná þeim markmiðum sem að var stefnt í fjárlagagerðinni.

Með þeim hætti er sýndur sá vilji Alþingis og ríkisvalds að bregðast við þeim breyttu forsendum sem nú eru í efnahagsmálum og leggja þannig sitt af mörkum til þess að efnahagsbatinn nái að skila sér sem fyrst.

Ég geri mér grein fyrir að þetta felur í sér erfiðar og umdeildar ákvarðanir. Slíkur sparnaður tekst ekki nema tekið sé á fjölmörgum liðum sem studdir eru sterkum rökum og góðum ásetningi. Engu að síður verður að gera kröfu til þess að ríkið lagi til í eigin ranni á sama tíma og krafa er gerð til þess að einkaaðilar dragi stórlega úr útgjöldum sínum. Það er sanngirnismál að ríkissjóður taki þátt í niðursveiflunni, sé fyrirmynd og deili því verkefni með heimilum og fyrirtækjum landsins og að þjóðarbúið í heild hafi þannig meira til skiptanna þegar fram í sækir þótt nú sé úr minna að spila.

Ekki er tímabært að rekja hér í einstökum atriðum hugsanlegar sparnaðarhugmyndir. Það verkefni bíður fjárlaganefndar á næstu dögum og munum við þá fara rækilega yfir þá kosti sem koma til álita. Ég vonast til að góð samvinna takist við stjórnarandstöðuna um að vinna að þessu veigamikla verkefni. Við útfærslu sparnaðaraðgerðanna þarf að hafa að leiðarljósi að þær bitni ekki á þeim sem minnst hafa borið úr býtum í góðærinu undanfarin ár. Hagsveiflan er öllum erfið en þó ekki síst þeim sem búa við lökust kjör. Ég legg mikla áherslu á að verja velferðarkerfið og tel reyndar að það eigi að vera forgangsverkefni þegar rofar til að nýju að gera úrbætur á því sviði. Of mörgum er þrengri stakkur skorinn en ásættanlegt er í þjóðfélaginu, sem þó er í fremstu röð í efnahagsmálum í heiminum.

Þótt þunglega horfi í efnahagsmálum í bili er engin ástæða til að fyllast bölmóði. Það er einfaldlega nauðsynlegt að laga þjóðarbúið að lægri útgjöldum og búa þannig í haginn fyrir næsta hagvaxtarskeið. Þetta verkefni sem nauðsynlegt er að horfast í augu við bíður okkar nú á næstu dögum. Flest bendir til að þegar líður á næsta ár fari að rofa til í þjóðarbúskapnum og horfur fyrir árið 2003 eru um margt hagfelldar. Því til stuðnings má meðal annars nefna að miklar líkur eru á því að á næsta ári verði teknar ákvarðanir um fjárfestingu í aukinni álframleiðslu. Þá hefur ríkisstjórnin kynnt áform sín um skattalækkanir sem lúta að því að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Þessar ráðstafanir munu án efa stuðla að aukinni framleiðslu og sóknarhug í atvinnulífinu. Lækkun gengis krónunnar hefur áhrif í sömu átt. Því má telja líklegt að niðursveiflan nú verði skammvinn og efnahagslífið nái sér á ný á strik á árinu 2003.

Í þessu sambandi má nefna að Þjóðhagsstofnun spáir því að hagvöxtur á árunum 2003--2006 verði að meðaltali tæplega 2,5% á ári, þótt ekki verði af umræddum stórframkvæmdum í áliðnaði. En ef af þeim verður gæti árlegur vöxtur landsframleiðslunnar orðið 0,5--1% meiri en ella. Í því felst að árlegur hagvöxtur yrði svipaður eða ívið meiri en reiknað er með að jafnaði í nálægum löndum. Þetta er mjög mikilvægt því að hagvöxtur hér á landi þarf að vera sambærilegur við það sem annars staðar gerist til að lífskjör á Íslandi verði áfram með því besta sem þekkist í heiminum. Slíkur vöxtur veitir einnig svigrúm til að viðhalda og bæta velferðarkerfið.

Þessar hagfelldu horfur þegar til næstu ára er litið breyta þó ekki því að okkar bíða mikilvæg verkefni sem menn standa frammi fyrir um þessar mundir. Enginn vafi er á nauðsyn þess að lækka útgjaldastig þjóðarinnar miðað við núverandi ástand og horfur í efnahagsmálum. Þar verður ríkið að koma að málum eins og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Brýnustu verkefnin eru annars vegar að koma á viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd og hins vegar að tryggja hjöðnun verðbólgunnar niður á svipað stig og í samkeppnislöndunum. Þessum markmiðum verðum við að ná til að renna traustum stoðum undir nýtt framfaraskeið í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að fjárlagagerðinni.

Óhætt er að fullyrða að með setningu laga um fjárreiður ríkisins, sem tóku gildi í ársbyrjun 1997, hafi orðið verulegar umbætur í fjármálastjórn ríkisins. Lögin áttu sér langan aðdraganda enda um mikilvægt málefni að ræða sem kallaði á vandaðan undirbúning. Nú þegar nær fimm ára reynsla er komin á framkvæmd laganna er ekki úr vegi að staldra við og huga að því hvernig til hefur tekist.

Eitt mikilvægasta skrefið var stigið með því að breyta framsetningu fjárlaga yfir til hins svokallaða rekstrargrunns þannig að í fjárlögum ársins væru tilgreindar allar fjárskuldbindingar sem stofnað er til á árinu óháð því hvenær þær koma til greiðslu. Tilgangur breyttrar framsetningar var enn fremur að gera fjárlög samanburðarhæf við ríkisreikning.

Hins vegar má spyrja þeirrar spurningar hvort að fullu hafi náðst það markmið laganna að auka festu og aga í fjárreiðum ríkisins. Áður en fjárreiðulögin voru sett bar mjög á gagnrýni á hinar svokölluðu aukafjárveitingar. Þær voru ákveðnar af ríkisstjórninni án formlegs atbeina Alþingis en komu til kasta þingsins í fjáraukalögum, oft mörgum árum eftir að til útgjaldanna var stofnað.

Í fjárreiðulögunum voru lögfestar þær undantekningar sem eðlilegt þykir að séu á hinu annars fortakslausa banni stjórnarskrárinnar við að stofna til útgjalda án undangenginnar heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum. Bæði í 33. og 34. gr. fjárreiðulaganna er að finna heimildir til greiðslna úr ríkissjóði án þess að heimildir þurfi að vera til staðar í fjárlögum. Þannig er í 33. gr. kveðið á um að ef ófyrirséð atvik valdi því að greiða þurfi úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum sé fjármálaráðherra, að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra, heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Í 34. gr. kemur fram að séu gerðir kjarasamningar sem kveða á um frekari launaútgjöld ríkisins en fjárlög gerðu ráð fyrir skuli svo fljótt sem kostur er leita heimilda Alþingis til slíkra útgjalda með frumvarpi til fjáraukalaga, en haga launagreiðslum þó í samræmi við hina nýju kjarasamninga.

En hversu algengt skyldi það vera að ákvæðum 33. gr. sé beitt? Þegar litið er yfir beiðnir til útgjalda samkvæmt fjáraukalagafrumvörpum sem lögð hafa verið fram á þinginu frá setningu fjárreiðulaganna, er óhætt að segja að þá þegar hafi verið stofnað til mikils hluta þeirra útgjalda sem þar er óskað eftir og lögfesting þingsins á frumvörpunum þar af leiðandi nánast formsatriði. Hversu stór hluti þessara útgjaldatilefna var í raun ,,ófyrirséður`` og þess eðlis að hann ,,þyldi ekki bið``? Samkvæmt ákvæðum fjárreiðulaganna falla önnur útgjöld en þau nefnilega ekki undir undantekningarákvæði í 33. gr.

Varðandi 34. gr., um meiri launagreiðslur vegna nýrra kjarasamninga, er athyglisvert að fjármálaráðherra skrifar ekki undir samninga með fyrirvara um samþykki Alþingis og má því með vissum hætti draga í efa að þingið geti í raun annað en samþykkt óbreytt frumvarp til fjáraukalaga sem lagt er fram vegna þeirra.

Fjárveitingavald Alþingis er hugtak sem oft er notað þegar rætt er um stöðu þingsins í okkar stjórnskipan og virðist full sátt um það á meðal allra þingmanna að það vald sé ekki framselt til ríkisstjórnar frekar en nauðsynlegt er. Ástæða er til að gefa því gaum hvort fjárreiðulögin hafi í raun og veru náð að festa fjárstjórnarvald Alþingis í sessi með þeim hætti sem ætlunin var þegar lögin voru sett.

Eins og ég hef lagt áherslu á, virðulegi forseti, ber Alþingi ábyrgð á fjárlögum og getur ekki skotið sér á bak við ríkisstjórn eða aðra aðila hvað þá ábyrgð varðar. Það er því enn mikilvægara en ella að Alþingi hafi sem allra frjálsastar hendur við gerð fjárlaga og kemur það berlega í ljós nú þegar grípa þarf til aðaldsaðgerða vegna breyttra aðstæðna í efnahagslífinu.

Staðreyndin er hins vegar sú að verulega hefur kreppt að svigrúmi Alþingis við fjárlagagerðina vegna margvíslegra verksamninga sem framkvæmdarvaldið hefur gert. Verksamningar þessir eru bæði um framkvæmdir ýmiss konar, svo sem byggingar, og um þjónustu sem ríkisvaldið er að að kaupa af ýmsum aðilum. Nú þegar grípa þarf til þess að draga úr framkvæmdum og útgjöldum ríkisins kemur fjárlaganefnd að orðnum hlut og bindandi verksamningum sem afar erfitt er fyrir alla aðila að taka upp. Hér er oft um að ræða verkefni sem nema hundruðum milljónum króna og verkin eru hafin löngu áður en Alþingi kemur að fjárlagaheimildinni. Dæmi um þetta má glögglega finna í núverandi fjárlagafrumvarpi. Má segja að fjárlagavald Alþingis sé með nokkrum hætti takmarkað af þessum ástæðum.

Röð þessara ákvarðana þarf að sjálfsögðu að vera önnur, þ.e. að fyrst sé aflað fjárveitinga til svo stórra verksamninga og síðan gengið frá samningum og ráðist í framkvæmdir.

Ég vil þá víkja að öðrum þætti er varðar skuldbindingar á ríkisútgjöldum, enda þótt slíkar skuldbindingar séu ekki bundnar í lögum heldur með samkomulagi og viljayfirlýsingum sem ríkisvaldið gefur varðandi einstök verkefni.

Samningar þessir eru iðulega gerðir um verkefni til þess að koma á fastri skipan og áætlun um framkvæmdahraða og væntanlegar fjárveitingar viðkomandi verkefnis enda geta þau náð yfir mörg fjárlagaár. Yfirleitt standa að verkefnunum ýmsir aðilar í þjóðfélaginu sem vilja ekki síður en ríkisvaldið hafa áætlun um framgang þeirra verkefna sem unnið er að. Þetta fyrirkomulag er til mikillar fyrirmyndar enda vita þá bæði ríkisvald og samstarfsaðili þess að hverju er gengið og allir viðkomandi aðilar geta gert ráðstafanir í samræmi við væntanlegar framkvæmdir og fjárveitingar.

Því er hins vegar ekki að leyna að oft reynist ekki til nægjanlegt fé innan þess ramma sem hverju ráðuneyti er afmarkaður og reynist því ógerlegt að standa við þær miklu væntingar sem skapaðar hafa verið hjá samstarfsaðila ríkisvaldsins. Slíkir samstarfsaðilar hafa oftlega ráðist í fjárfestingar og annan undirbúning vegna þess að þeir töldu sig hafa öruggt loforð fyrir fjárveitingum.

Allmargir þessara aðila hafa leitað á fund fjárlaganefndar á síðustu vikum og óskað eftir úrlausnum hennar þegar þeir telja að ríkisvaldið hafi ekki staðið við samkomulag um fjárframlög sem þeir áttu von á og ætlað var til margra og þarfra verkefna. Þessi verkefni eru á ýmsum sviðum og nægir að nefna menningarmál af ýmsu tagi, málefni fatlaðra og skógrækt svo nokkuð sé nefnt. Því miður hefur fjárlaganefnd ekki það svigrúm sem þarf til þess að bæta upp nema að litlu leyti það sem vantar á að staðið sé við það samkomulag sem gert hefur verið.

Á þessu sviði er hægt að ná meiri festu með því að hverjum samningi og hverri viljayfirlýsingu sé ætlað svigrúm innan fjárlaganna og þess ráðuneytis sem samkomulagið gerir.

[14:30]

Virðulegi forseti. Í þessum kafla ræðu minnar sem fjallar um fjárlagagerðina og bættar fjárreiður vil ég að lokum koma að enn einu atriðinu sem varðar fjárlagafrv.

Breytingartillögur við frumvarpið koma úr tveimur áttum, annars vegar frá ríkisstjórninni, hinn stærri hluti, og hins vegar frá fjárlaganefndinni sjálfri og er sá hluti nú rúmar 400 milljónir af þeim rúmu 2 milljörðum sem breytingarnar ná til.

Í þeim hluta breytingartillagnanna sem kemur frá fjárlaganefndinni hefur nefndin reynt að veita sem flestum framfaramálum lið. En fjárlaganefnd gerir sér grein fyrir að þar er hvergi nóg að gert. Á undanförnum árum hefur nefndin lagt áherslu á nokkur meginsvið og tvímælalaust náð þar árangri til margra góðra verka. Meðal þessara sviða má nefna símenntun og fjarkennslu svo og skógræktarverkefni víða um land. Loks má nefna margvísleg menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Enginn vafi er á að fjárveitingar til þessara málaflokka hafa orðið hvatning og lyftistöng fyrir félög, byggðir og sveitarfélög víða um land. Það hefur verið ánægjulegt að fá vitnisburð um þetta í fjölmörgum heimsóknum til nefndarinnar á síðustu vikum. Einn þessara þátta, þ.e. skógræktarverkefnin, bíður frekari afgreiðslu nefndarinnar til 3. umr.

Virðulegi forseti. Um leið og við teljum okkur hafa náð árangri á þessu sviði hljótum við að horfa til þess að samfélag þjóðarinnar hefur breyst. Verkefni á sviði mannúðarmála, líknarmála, samhjálpar og mannréttinda krefjast meiri athygli og fjárstuðnings. Þá eru enn ótalin þau ógnvekjandi vímuefnamál sem að þjóðinni steðja. Þessi viðfangsefni hafa ekki síst aukist með vaxandi þéttbýli og borgarmyndun og með fjölda þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Þann hóp fylla einstaklingar sem koma úr ólíkum áttum, sumir vegna fátæktar eða auðnuleysis en aðrir vegna fötlunar, öldrunar og sjúkleika. Enda þótt velferðarkerfinu sé ætlað að hlynna að þessu fólki skortir oft fé og sveigjanleika innan kerfisins til að bregðast hratt og vel við brýnum verkefnum.

Ég tel að fjárlaganefnd eigi á næstu árum að huga betur að þessum viðfangsefnum og leggja áherslu á þau. Með því móti kæmi Alþingi til móts við það gríðarlega mikla og fórnfúsa sjálfboðaliðastarf og fjárframlög einstaklinga, félaga, klúbba og fyrirtækja sem alls staðar sér merki í íslensku þjóðfélagi. Þessi mikla virkni og hjálparlund er til marks um gildismat stórs hluta þjóðarinnar og viðhorfin til þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Fjárlaganefnd Alþingis á að endurspegla þetta gildismat þjóðarinnar í fjárlagatillögum sínum.

Virðulegi forseti. Ég vík þá að breytingartillögum sem hér eru lagðar fram og geri grein fyrir þeim í alllöngu máli en kem síðan að niðurlagskafla ræðu minnar.

Gerðar eru tillögur um breytingar á framlögum til ýmissa ráðuneyta og mun ég rekja tillögurnar frá einu ráðuneyti til annars og geta breytinganna með þeim skýringum sem fram eru lagðar í þingskjali.

Þá er fyrst til að taka að tillögur eru gerðar um breytingu hvað varðar forsrn.

Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 276 millj. kr.

Ýmis verkefni. Vesturfarasetrið á Hofsósi. Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til að styrkja frekar starfsemi setursins.

Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði 7 millj. kr. tímabundið framlag með það að markmiði að auka öryggi rafrænna upplýsinga sem ráðuneytin búa yfir. Fjárveitingin yrði til viðbótar 5 millj. kr. framlagi á lið 01-996 Íslenska upplýsingasamfélagið sem ætlað er til að efla öryggi upplýsinga hjá Stjórnarráðinu.

Fasteignir Stjórnarráðsins. Lagt er til að 250 millj. kr. fjárveiting til framkvæmda við húsbyggingar fyrir ráðuneyti verði flutt til forsætisráðuneytis af lið 09-981 Ýmsar fasteignir hjá fjármálaráðuneyti, enda fer forsætisráðuneytið með mál sem varða ráðstöfun skrifstofuhúsa fyrir ráðuneytin í heild samkvæmt auglýsingu um Stjórnarráð Íslands.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Nýframkvæmdir. Gerð er tillaga um 12 millj. kr. tímabundið framlag til að koma upp nauðsynlegum búnaði til sýningahalds í fræðslumiðstöðinni á Hakinu þannig að unnt verði að opna gestastofuna á árinu 2002. Með bréfi forsætisráðuneytisins í janúar sl. var heimilað að halda áfram framkvæmdum við fræðslumiðstöðina en þeim hafði verið frestað um eitt ár. Byggingu hússins á að ljúka á þessu ári og verður það þá fullfrágengið með snyrtingum og gestastofu. Tillagan féll niður fyrir misgáning við frágang fjárlagafrumvarpsins.

Þá er gerð tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til að koma upp snyrtiaðstöðu í tengslum við þjónustumiðstöðina á Leirunum. Núverandi aðstaða er óviðunandi auk þess sem engar snyrtingar eru opnar á Þingvöllum þegar þjónustumiðstöðin er lokuð á veturna. Fyrirhugað er að reisa aðstöðuna í tveimur áföngum og að sótt verði um 2,5 millj. kr. fjárveitingu til seinni áfanga á árinu 2003. Tillagan féll niður fyrir misgáning við frágang fjárlagafrumvarpsins.

Ég vík þá að menntamálaráðuneytinu. Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 706,6 millj. kr. Þar eru nokkrar tillögur varðandi Háskóla Íslands. Lagt er til að útgjöld til viðhalds verði lækkuð í samræmi við endurskoðaða framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands. Í áætluninni er gert ráð fyrir að skólinn fái 60 millj. kr. af lið 02-269-5.21 Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Lagt er til að fjárveiting til framkvæmda hækki um 313 millj. kr. frá fjárlagafrumvarpi og nemi 518 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun skólans um framkvæmdir og tækjakaup. Auknar framkvæmdir verða fjármagnaðar með lántöku Happdrættis Háskóla Íslands.

Örnefnastofnun Íslands. Gerð er tillaga um tímabundna 1 millj. kr. fjárveitingu til út gáfu mynda með örnefnamerkingum í samvinnu Örnefnastofnunar og IWW ehf.

Listaháskóli Íslands. Lögð er til 30 millj. kr. hækkun á framlagi vegna fyrirhugaðs samnings við skólann til viðbótar 30 millj. kr. hækkun sem áætlað er fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Við gerð frumvarpsins var ákveðið að áætla ekki fyrir hlutdeild Reykjavíkurborgar í myndlistarnámi á sama hátt og í fjárlögum fyrri ára, en Listaháskólinn tók við kennslunni af Myndlista- og handíðaskólanum haustið 1999. Hefur Reykjavíkurborg gert ágreining um greiðsluþátttöku frá þeim tíma, en hún var áætluð 51 millj. kr. á ári. Tillagan felur í sér að ríkissjóður auki framlag sitt til skólans enda takist ekki samningar um að Reykjavíkurborg leggi skólanum til fé.

Þá er lagt til að framsetningu fjárlagaliðarins verði breytt til samræmis við framsetningu fjárreiðna annarra einkaskóla sem fá greiðslur úr ríkissjóði. Samkvæmt því lækka útgjöld um 12,7 millj. kr. þar sem jafnháar sértekjur falla niður.

Á liðnum Háskóla- og vísindastofnanir eru gerðar tillögur vegna viðhalds og stofnkostnaðar. Lagt er til að færðar verði 30 millj. kr. af viðfangsefni fyrir stofnkostnað á fjárlagaliðnum yfir á viðfangsefni fyrir viðhald í samræmi við sundurliðun fjárveitinga í greinargerð fjárlagafrumvarps.

Gerð er tillaga um Reykjavíkurakademíuna. Gerð er tillaga um að veita Reykjavíkurakademíunni 7 millj. kr. tímabundna fjárveitingu.

Framhaldsskólar, stofnkostnaður. Lögð er til 8 millj. kr. hækkun liðar en sundurliðun hans er sýnd í sérstökum yfirlitum III með breytingartillögum meiri hlutans.

Símenntun og fjarkennsla. Lögð er til alls 12 millj. kr. hækkun á liðnum til rekstrar símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni. Þar er framlag til hverrar stöðvar hækkar um 1,5 millj. kr. og færist á eftirtalin viðfangsefni: Símenntunarstöð á Vesturlandi, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Farskóli Norðurlands vestra, Símenntunarstöð Eyjafjarðar, Fræðslumiðstöð Þingeyinga, Fræðslunet Austurlands, Fræðslunet Suðurlands og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Loks vík ég hér að Lánasjóði íslenskra námsmanna. Lagt er til að framlag hækki um 133 millj. kr. og skýrist það af tvennu. Annars vegar er um að ræða 91 millj. kr. hækkun í samræmi við endurskoðaða áætlun um útlán sjóðsins sem gerir ráð fyrir að lánþegum í námi erlendis fjölgi um 3% milli ára í stað 2% eins og fjárlagafrumvarpið byggist á og að lánþegum í námi innan lands fjölgi um 10% en ekki um 2% samkvæmt frumvarpinu. Hins vegar eru 42 millj. kr. vegna áætlaðra gengisbreytinga.

Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til safnsins vegna fjarvinnsluverkefna. Skráningarverkefni hafa síðustu tvö ár verið unnin í fjarvinnslu fyrir safnið á Húsavík og Hvammstanga. Góð reynsla er af þessu fyrirkomulagi og hafa fleiri fyrirtæki sýnt áhuga á að taka að sér fjarvinnslu.

[14:45]

Byggða- og minjasöfn. Gerðar eru tillögur um sex tímabundnar fjárveitingar til byggða- og minjasafna og nema þær 29 millj. kr. Í fyrsta lagi er lögð til tímabundin 8 millj. kr. fjárveiting til að halda áfram rannsóknum og kynningu á Gásakaupstað. Verkefnið hófst árið 2001 og er á vegum Minjasafnsins og Þjóðminjasafns Íslands. Það felur í sér fornleifarannsókn, sagnfræðirannsókn, náttúrufarsrannsókn og kynningu. Í öðru lagi er lögð til 7 millj. kr. tímabundin fjárveiting til endurbyggingar Norska hússins í Stykkishólmi en næsta ár verða 170 ár liðin frá byggingu þess. Í þriðja lagi er lagt til 7 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi uppbyggingar Vatneyrarbúðar á Patreksfirði. Í fjórða lagi er gerð tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til undirbúnings safnahúss í Garðinum en þar er gert ráð fyrir að verði m.a. sérhæft sjóminjasafn. Í fimmta lagi er lögð til 2 millj. kr. tímabundin fjárveiting til bátasafns í Stykkishólmi. Loks er í sjötta lagi gerð tillaga um að veita 2 millj. kr. tímabundið framlag til að standa undir kostnaði við frágang umhverfis Glaumbæjar í Skagafirði.

Lagt er til að 7 millj. kr. tímabundið framlag verði veitt til að standa straum af byggingarkostnaði Samgöngusafns Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum.

Gerð er tillaga um 4 millj. kr. tímabundið fjárframlag til áframhaldandi viðhalds og endurbyggingar á Kútter Sigurfara sem er eini kútterinn úr þilskipastóli 19. aldar sem varðveittur er á Íslandi.

Söfn, ýmis framlög. Lagt er til að framlög til safna á þessum lið hækki alls um 76 millj. kr.

Ég les þá upp þau atriði sem undir þann lið falla:

Listasafn ASÍ. Lagt er til að framlag til safnsins verði hækkað um 1 millj. kr. til að styrkja frekar rekstur þess.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Lagt er til að framlag til safnsins hækki um 1 millj. kr. til að styrkja frekar starf þess.

Galdrasýning á Ströndum. Lögð er til 7 millj. kr. tímabundin fjárveiting til uppbyggingar Galdrasýningar á Ströndum.

Sögusetrið á Hvolsvelli fær 7 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til frekari uppbyggingar safnsins.

Hvalamiðstöð á Húsavík. Lögð er til tímabundin 7 millj. kr. fjárveiting til að halda áfram uppbyggingu á húsnæði miðstöðvarinnar.

Endurbygging vélbátsins Blátinds, Vestmannaeyjum. Lögð er til 4 millj. kr. tímabundin fjárveiting til að greiða skuldir af endurbyggingu vélbátsins Blátinds í Vestmannaeyjum. Henni lauk í júní sl. og var báturinn þá afhentur menningarmálanefnd Vestmannaeyja til varðveislu og sýningar.

Sögusafnið í Reykjavík. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi stuðnings við uppbyggingu þess. Eftir stuðning Orkuveitu Reykjavíkur og fjárlaganefndar hefur Nýsköpunarsjóður ákveðið að styrkja það og er gert ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um safnið. Fyrirhugað er að safnið verði opnað næsta sumar.

Endurbygging á Brydebúð. Lögð er til 3 millj. kr. tímabundin fjárveiting til uppbyggingar hússins sem unnið hefur verið að. Þessi bygging, af því að ég heyri spurt úti í sal, er í Vík í Mýrdal.

Sjóminjasafn Íslands fær 1 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til frekari viðgerða á flutninga- og uppskipunarbátnum Friðþjófi sem er um 100 ára gamall.

Endurbygging Tryggvaskála á Selfossi. Lögð er til 4 millj. kr. tímabundin fjárveiting til framkvæmda og endurbyggingar Tryggvaskála.

Síldarminjasafnið á Siglufirði. Lagt er til að safninu verði veittur 7 millj. kr. tímabundinn styrkur til að byggja bátaskemmu og setja þar upp sýningu á bátum og bryggjum síldarhafnarinnar.

Safnahús í Neðstakaupstað á Ísafirði. Lögð er til tímabundin 6 millj. kr. fjárveiting til byggingar safnahúss í Neðstakaupstað.

Þá koma hér fjárveitingar til tveggja báta á Ísafirði. Það er annars vegar eikarbáturinn Sædís. Lagt er til að veitt verði 3,5 millj. kr. tímabundið framlag til að gera við eikarbátinn en hann var smíðaður á Ísafirði árið 1938. Einnig er lagt til að 3,5 millj. kr. verði veittar til viðgerðar á vélbátnum Gesti en hann er líklega elsti vélbátur sem nú er til í landinu.

Safnahús í Búðardal. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til stuðnings uppbyggingar safnahúss í Búðardal en þar stendur til að endurbyggja gamla kaupfélagshúsið.

Kjarvalsstofa á Borgarfirði eystra. Lagt er til að 4 millj. kr. tímabundið framlag komi þar til uppbyggingar svokallaðrar Kjarvalsstofu á Borgarfirði eystra. Viðfangsefni hennar verða þrjú, þ.e. ævi og list Jóhannesar Kjarvals listmálara, byggðasaga Borgarfjarðar, Víkna og Loðmundarfjarðar og loks þjóðtrú, þjóðsögur, álfar og huldufólk í Borgarfirði.

Saltfisksetur Íslands í Grindavík. Lögð er til 3 millj. kr. tímabundin fjárveiting til undirbúnings Saltfiskseturs Íslands í Grindavík.

Þá er lokið lestri á þessum þáttum.

Vík ég þá að liðnum Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.

Kaupvangur á Vopnafirði. Þar er lagt til 7 millj. kr. tímabundið framlag til að ljúka 1. áfanga innanhússviðgerða í Kaupvangi.

Duushúsin í Reykjanesbæ. Þar er gerð tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag vegna endurbóta á Duushúsunum.

Húsafriðunarsjóður. Hann er meðal þeirra atriða sem ætlað er framlag. Lögð er til 17 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Húsafriðunarsjóðs sem skiptist á sex tiltekin verkefni og er fjárveitingin tímabundin til þeirra allra. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 7 millj. kr. fjárveitingu til viðgerða á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði sem mun verða nýtt sem safnahús. Þar verður bæjar- og héraðsbókasafn, listasafn og héraðsskjalasafn. Þá er gerð tillaga um 4 millj. kr. fjárveitingu til endurbóta á Syðstabæjarhúsinu í Hrísey. Í þriðja lagi er lögð til 2 millj. kr. fjárveiting til endurbóta á Pakkhúsinu í Borgarbyggð. Í fjórða lagi er lögð til 2 millj. kr. fjárveiting til endurbyggingar gamla kaupfélagshússins á Breiðdalsvík. Þá er í fimmta lagi 1 millj. kr. framlag til að endurhlaða Hraunsrétt í Aðaldal sem upprunalega var hlaðin á árunum 1836--1838 og er með stærstu réttum á landinu og mjög sérstök. Loks er í sjötta lagi lögð til 1 millj. kr. fjárveiting til að ljúka viðgerðum á gömlum beituskúr á Grenivík sem minnir á gamla tíð og gamla atvinnuhætti.

Undir liðnum Ýmis fræðistörf er lögð til 3 millj. kr. hækkun á framlagi til Hins íslenska bókmenntafélags sem nemur þá 4 millj. kr. eins og í fjárlögum þessa árs.

Æskulýðsmál. Þar er fyrst að telja Ungmennafélag Íslands. Lagt er til að fjárveitingar til þess hækki um 25 millj. kr. til að efla starf hreyfingarinnar. Til stendur m.a. að koma upp þjónustumiðstöðvum víðs vegar um landið.

Bandalag íslenskra skáta. Þar er lagt til að rekstrarstyrkur til bandalagsins verði hækkaður um 3 millj. kr. tímabundið fyrir landsmót skáta 2002 sem haldið verður í Útilífsmiðstöð skáta að Hömrum við Akureyri.

Tillaga er gerð um tímabundna hækkun á framlagi til Landssambands KFUM og KFUK sem nemur 4 millj. kr. svo að KFUM og KFUK í Reykjavík geti víkkað út starfsemi sína.

Lögð er til 4,9 millj. kr. hækkun safnliðarins Æskulýðsmál og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum sem merkt eru sem III með breytingartillögum meiri hlutans.

Ég vík þá að liðnum Ýmis íþróttamál og les upp þá þætti sem meiri hluti fjárln. gerir tillögu um.

Þar er fyrst að telja Íþróttasamband fatlaðra. Lagt er til að fjárveiting til sambandsins hækki um 4 millj. kr. vegna stöðugt aukins umfangs starfsemi þess.

Gerð er tillaga um 0,8 millj. kr. hækkun á framlagi til Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri til eflingar starfsemi miðstöðvarinnar.

Gerð er tillaga um að framlag til Skáksambands Íslands hækki tímabundið um 2 millj. kr. Starfsemi sambandsins eykst stöðugt en helstu verkefni þess eru: skólaskák, kvennaskák, þátttaka í mótum erlendis, þátttaka í heimsmeistaramótum, Evrópumótum og ólympíumótum og efling skákiðkunar á landsbyggðinni.

Þá er gerð tillaga um Landsmót ungmennafélaga í Stykkishólmi. Lögð er til 5 millj. kr. tímabundin hækkun á liðnum til stuðnings við undirbúning unglingalandsmóts UMFÍ árið 2002 í Stykkishólmi.

Frjálsíþróttavöllur á Ísafirði. Lagt er til að Ísafjarðarbæ verði veitt 10 millj. kr. tímabundið framlag til mannvirkjagerðar fyrir landsmót UMFÍ 2004.

Gaddstaðir, reiðskemma. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag til undirbúnings á uppbyggingu aðstöðu fyrir hestamenn á Gaddstaðaflötum.

Skíðamannvirki í Skarðsdal, Siglufirði. Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til byggingar skíðamannvirkja í Skarðsdal.

Loks er liðurinn Ýmis framlög. Lagt er til að safnliðurinn hækki um 17,9 millj. kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum sem merkt eru sem III með breytingartillögum meiri hlutans.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. sem snúa að menntmrn. og vík næst að utanrrn.

Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 135,9 millj. kr.

Undir liðnum Ráðstefnur er gert ráð fyrir um 60 millj. kr. tímabundnu framlagi til viðbótar við framlagið sem þegar hefur verið sótt um, vegna vorfundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins, NATO, og samstarfsríkja þess. Fundurinn verður haldinn á Íslandi vorið 2002 en slíkur fundur var síðast haldinn á Íslandi árið 1987. Samkvæmt þeim kostnaðaráætlunum sem liggja fyrir nú verður kostnaður ráðuneytisins vegna fundarins um 260 millj. kr. Er þá ekki talinn með kostnaður við löggæslu sem færist hjá dómsmálaráðuneytinu.

Þá er gerð tillaga um 2 millj. kr. hækkun fjárveitinga til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli. Gerð er tillaga um 69,1 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár vegna aukins eftirlits í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl. Á þessu stigi er ekkert sem bendir til þess að slakað verði á þeim kröfum sem gerðar hafa verið um öryggisráðstafanir á millilandaflugvöllum. Gert er ráð fyrir að ráðnir verði tveir til þrír menn sem verði á vakt allan sólarhringinn og nauðsynlegum viðbótarkostnaði vegna þeirra og þeirrar þjálfunar sem þar á við.

Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Gerð er tillaga um 24,8 millj. kr. tímabundið framlag vegna aukins kostnaðar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að auknum útgjöldum verði mætt með breytingu á viðskiptahreyfingu á stofnuninni. Kostnaðurinn felst aðallega í hertri löggæslu, aukinni vopna- og farangursleit, ásamt sprengjuleit í flugvélum.

[15:00]

Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þróunaraðstoð. Undir sérstökum lið þar sem lagt er til að hækkun á framlagi til þróunarmála, sem í frumvarpinu var áætluð 50 millj. kr., er sú upphæð lækkuð um 20 millj. kr., það er að hækkun umfram gengisbreytingar verði 30 millj. kr. í stað 50 millj. kr. Á móti hefur verið lagt til að framlag árið 2001 hækki um 100 millj. kr. í frumvarpi til fjáraukalaga.

Þá vík ég að landbúnaðarráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði lækkuð um 0,5 millj. kr.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Lögð er til 6 millj. kr. hækkun liðarins og er fjárveitingin ætluð verkefninu Nytjaland.

Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Lögð er til 12 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til skólans svo að unnt sé að ráða fleiri sérfræðinga til starfa en umsvif skólans hafa aukist í samræmi við þau lög sem skólinn starfar eftir og ný námskrá var samþykkt árið 2000 sem gerir ráð fyrir lengingu námsins á öllum brautum.

Landgræðsla ríkisins. Farið er fram á að 49 millj. kr. tímabundnar sértekjur sem voru færðar vegna átaks um landgræðslu og skógrækt verði felldar niður. Átakinu er lokið og lækka tekjur og gjöld um sömu fjárhæð þannig að framlög úr ríkissjóði til landgræðslu verða óbreytt. Þá er jafnframt farið fram á 33 millj. kr. millifærslu af rekstrarlið yfir á stofnkostnað vegna lagningar hitaveitu. Fyrirhugað er að verkið taki þrjú ár og kosti um 90 millj. kr.

Tæki og búnaður. Framangreind millifærsla af rekstrarlið hækkar stofnkostnaðarliðinn um 33 millj. kr.

Skógrækt ríkisins. Rannsóknastöðin Mógilsá. Lögð er til 15 millj. kr. tímabundin hækkun á liðnum og er fjárveitingin ætluð til rannsókna á kolefnisbindingu vegna nýskógræktar og kolefnislosun vegna skógareyðingar.

Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Beinar greiðslur til bænda. Lagt er til að framlag vegna beingreiðslna hækki um 10 millj. kr. í samræmi við nýlega ákvörðun um hækkun á grundvallarverði mjólkur. Nýtt verð er 76,02 kr. á lítra en beingreiðsluframlag ríkissjóðs miðast við 47,1% af grundvallarverði.

Lífeyrissjóður bænda. Lögð er til 0,4 millj. kr. hækkun til Lífeyrissjóðs bænda í samræmi við verðlagshækkun mjólkur, en framlag ríkissjóðs til lífeyrissjóðsins miðast við 4% mótframlag.

Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu. Uppkaup á greiðslumarki. Lögð er til 57 millj. kr. lækkun framlaga til uppkaupa á greiðslumarki sauðfjár. Gert hafði verið ráð fyrir kaupum á 10.000 ærgildum, en tilboð bárust aðeins í um 8.000 ærgildi.

Þá er hér undir lok lestursins um landbúnaðarráðuneytið vikið að Bændasamtökum Íslands. Leiðbeiningastarfsemi, landsþjónusta er þar fyrst nefnd. Lögð er til 5,2 millj. kr. hækkun í samræmi við ákvæði um endurskoðun á launaliðum samnings við Bændasamtökin um leiðbeiningarþjónustu.

Leiðbeiningastarfsemi, héraðsþjónusta. Lögð er til 3,4 millj. kr. hækkun í samræmi við ákvæði um endurskoðun á launaliðum samnings við Bændasamtökin um héraðsráðunauta.

Liður 1.96 Búfjárrækt. Lögð er til 58 millj. kr. millifærsla af stofnkostnaði búfjárræktar yfir á rekstrarliði þar sem megnið af kostnaðinum á viðfanginu eru laun. Jafnframt er hér lögð til 4,5 millj. kr. hækkun í samræmi við ákvæði um endurskoðun á launaliðum samnings við Bændasamtökin um leiðbeiningar við búfjárrækt.

Liður 6.95 Búfjárrækt. Þessi liður lækkar um 58 millj. kr. í samræmi við framangreinda milli færslu af stofnkostnaðarlið búfjárræktar yfir á rekstur.

Ég vík þá að sjávarútvegsráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 11 millj. kr.

Ýmis verkefni. Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til hafrannsóknaskipsins Drafnar sem nýtt er sem skólaskip.

Ýmislegt. Gerð er tillaga um að veita sérstakan tímabundinn 6 millj. kr. styrk til verkefnis með það að markmiði að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, að afla og miðla upplýsingum um þorskeldi og að móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu. Verkefnið er samstarfsverkefni sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækja.

Hafrannsóknastofnunin. Gerð er tillaga um að 15,5 millj. kr. verði millifærðar af stofnkostnaðarviðfangsefnum Hafrannsóknastofnunarinnar á rekstrarlið vegna leiðréttingar á framsetningu frumvarpsins. Þannig hækkar viðfangsefnið 1.01 Almenn starfsemi um 15,5 millj. kr. Viðfangsefnið 1.30 Rannsóknaskip lækkar um 6 millj. kr., 5.31 Viðhald rannsóknaskipa lækkar um 7 millj. kr., 6.31 Tæki og búnaður í skip lækkar um 1,4 millj. kr. og loks lækkar 6.90 Tæki og búnaður deilda og útibúa um 1,1 millj. kr.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 80,5 millj. kr.

Yfirstjórn. Gerð er tillaga um að millifærð verði til aðalskrifstofu 8,2 millj. kr. fjárheimild af fjárlagaliðnum 06-397 Schengen-samstarf til að standa undir launakostnaði og öðrum starfskostnaði starfsmanns vegna Schengen-samstarfsins. Undanfarin ár hefur sérstakur starfsmaður unnið að undirbúningi að þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Þessum undirbúningsþætti er að mestu lokið og hverfur starfsmaðurinn til sinna fyrri starfa en ýmis verkefni vegna samstarfsins færast til aðalskrifstofu ráðuneytisins.

Ríkislögreglustjóri. Lagt er til að veitt verði 4,4 millj. kr. viðbótarfjárveiting til embættis ríkislögreglustjóra vegna aukins ferðakostnaðar en mjög hefur færst í vöxt að lögreglumenn fylgi útlendingum sem vísað er frá Íslandi til erlendra landa. Slíkum ferðum fylgir jafnframt talsverður dvalarkostnaður.

Jafnframt er lagt til að millifærð verði 1,8 millj. kr. fjárheimild til embættis ríkislögreglustjóra af fjárlagaliðnum 06-397 Schengen-samstarf til að standa undir auknum ferðakostnaði. Með því að Ísland er orðið virkur þátttakandi í Schengen-samstarfinu hefur embætti ríkislögreglustjóra verið falið að sinna þátttöku í nokkrum sérhæfðum vinnunefndum, svo sem vinnunefnd er fjallar um starfsemi SIRENE-skrifstofanna, fölsuð skilríki, fíkniefni o.fl.

Ég vík nú að liðnum Ýmis löggæslu- og öryggismál. Lagt er til að veitt verði 50 millj. kr. tímabundið viðbótarframlag til aukinnar löggæslu í tengslum við fyrirhugaðan ráðherrafund NATO hér á landi í maí á næsta ári. Viðbótarkostnaður löggæsluembætta er einkum vegna aukavakta og yfirvinnu lögreglumanna við öryggisgæslu fundardagana, um 30 millj. kr., undirbúnings, þjálfunar, ferða og uppihalds, um 10 millj. kr., og nokkurra búnaðarkaupa, um 10 millj. kr. Auk lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu er fyrirhugað að lögreglumenn frá embættum víðs vegar á landinu komi að gæslunni ráðstefnudagana 13.--15. maí. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið hafi yfirumsjón með undirbúningi og skipulagningu þessa viðbúnaðar hjá ríkislögreglustjóra og öðrum embættum.

Einnig er gerð tillaga um 12 millj. kr. framlag til vopnaleitar vegna millilandaflugs frá innanlandsflugvöllum en eftirlit þetta er afleiðing hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og aukinnar spennu á alþjóðavettvangi í kjölfar þeirra. Á þessu stigi er áætlað að eftirlitið muni kosta um 12 millj. kr. á ársgrundvelli. Ekki liggur endanlega fyrir hvernig fjárhæðin skiptist milli embætta en ljóst er að stærsti hlutinn mun renna til lögreglunnar í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að fjárheimildin verði færð til viðkomandi embætta þegar nánari upplýsingar liggja fyrir.

Landhelgisgæsla Íslands. Lagt er til að framlag til Landhelgisgæslu Íslands verði hækkað um 6,8 millj. kr. vegna aukins kostnaðar við vátryggingar flugfara á grundvelli útboðs um tryggingarnar. Ekki hefur hins vegar verið tekin endanleg afstaða til tilboða enda er útboðinu nýlokið og er hér því um áætlaða fjárhæð að ræða.

Schengen-samstarf. Lagt er til að millifærðar verði 10 millj. kr. af liðnum, samanber framangreindar skýringar, annars vegar á lið 06-101 um 8,2 millj. kr. millifærslu til aðalskrifstofu og hins vegar á lið 06-303 um 1,8 millj. kr. millifærslu til embættis ríkislögreglustjóra.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum. Löggæsla. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. tímabundið framlag vegna reynsluverkefnis í skipulögðum fíkniefnaleitum.

Þjóðkirkjan. Biskup Íslands. Lagt er til að veitt verði 5,3 millj. kr. fjárveiting til að standa straum af kostnaði við að fjölga prestsembættum um eitt á grundvelli lagaákvæða um að fjölga beri embættum í hvert sinn sem meðlimum þjóðkirkjunnar fjölgar um 5.000. Á grundvelli núverandi talna yfir fjölda í þjóðkirkjunni og reynslu undanfarinna ára þykir næsta víst að fjöldi meðlima muni hafa náð því marki í lok þessa árs. Tölur til staðfestingar frá Hagstofu Íslands munu hins vegar ekki liggja fyrir í tæka tíð fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga næsta árs. Fjárhæðin tekur mið af nánari útfærslu í samningi ríkis og kirkju frá 1998 og er ætlað að standa undir launum, embættiskostnaði, námsleyfum o.fl.

[15:15]

Félagsmálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði lækkuð um 27,2 millj. kr.

Ýmis verkefni. Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Lagt er til að hækkað verði framlag til nefndar um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum um 0,5 millj. kr.

Ýmislegt. Tillaga er gerð um 2 millj. kr. millifærslu á framlagi af liðnum til verkefnisins ,,Upplýsingamiðlun í allra þágu: aðlögun tölva að þörfum fatlaðra`` undir liðnum 996-6.51 Íslenska upplýsingasamfélagið en mótframlag þetta féll niður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002.

Barnaverndarstofa. Heimili fyrir börn og unglinga. Lögð er til 13 millj. kr. hækkun liðarins og er fjárveitingin ætluð til að greiða fyrir nýjum þjónustusamningi við meðferðarheimilið Árbót.

Málefni fatlaðra. Ýmis verkefni. Lagt er til að liðurinn hækki tímabundið um 2 millj. kr. og er fjárveitingin ætluð foreldrum tveggja alvarlega veikra barna til að gera þeim unnt að annast þau.

Málefni fatlaðra, Reykjavík. Almennur rekstur. Farið er fram á 16,8 millj. kr. fjárveitingu til greiðslu á húsaleigu sambýla í eigu Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar og skrifstofuaðstöðu fyrir svæðisskrifstofuna. Félagsmálaráðuneytið hefur í vaxandi mæli leitað eftir húsnæði til leigu fyrir sambýli í stað þess að byggja eða kaupa húsnæði.

Málefni fatlaðra, Vesturlandi. Dagvist og verndaðir vinnustaðir. Gerð er tillaga um 2,5 millj. kr. tímabundna hækkun á liðnum og er fjárveitingin ætluð Fjöliðjunni á Vesturlandi.

Málefni fatlaðra, Norðurlandi vestra. Samningur við Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Lögð er til 7,5 millj. kr. hækkun á launalið vegna úrskurðar Félagsdóms nr. 9/2001 um viðurkenningu þess að Byggðasamlagi um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra hafi borið að greiða starfsmönnum sem þess óskuðu laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana.

Málefni fatlaðra, Austurlandi. Almennur rekstur. Lögð er til 7,5 millj. kr. hækkun á launalið vegna úrsagnar starfsmanna úr Verkalýðsfélagi Fljótsdalshéraðs og inngöngu í Starfsmannafélag ríkisstofnana.

Styrktarfélag vangefinna. Gerð er tillaga um 20 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Styrktarfélags vangefinna vegna aðkallandi viðhalds á húseignum félagsins. Í tengslum við samning sem gerður var við félagið fyrr á árinu var gerð úttekt á viðhaldsþörf á húseignum þess. Niðurstaða þeirrar úttektar var að um 70 millj. kr. þurfi til endurbóta og viðhalds á húseignum Styrktarfélags vangefinna. Gert er ráð fyrir jafnhárri viðbótarfjárveitingu í breytingartillögu við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2001.

Framkvæmdasjóður fatlaðra. Gerð er tillaga um viðbótarfjárheimild í Framkvæmdasjóð fatlaðra að fjárhæð 70 millj. kr. Á sjóðnum hvíla skuldbindingar vegna framkvæmda og samninga og fyrirséð er að halli verður á starfsemi hans í lok ársins.

Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO. Gerð er tillaga um 3 millj. kr. viðbótarfjárveitingu vegna hækkunar árgjalds félagsmálaráðuneytisins til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO.

Atvinnuleysistryggingasjóður. Framlög og styrkir. Tímabundið framlag sem veitt var til Atvinnuleysistryggingasjóðs í kjölfar samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins í mars 2000 er lækkað um 51 millj. kr. Samkomulagið var gert í þeim tilgangi að treysta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði og gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný verkefni. Samhliða þessu samkomulagi gerðu forvígismenn atvinnurekenda og félagsmálaráðherra samkomulag um 104 millj. kr. framlag úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2001, 53 millj. kr. árið 2002 og 43 millj. kr. árið 2003 eða alls 200 millj. kr. Framlagið lækkar því um 51 millj. kr. milli áranna 2001 og 2002.

Fæðingarorlofssjóður. Lagt er til að fjárveiting verði lækkuð um 150 millj. kr. vegna endurskoðunar í ljósi þróunar á árinu.

Íslenska upplýsingasamfélagið. Gerð er tillaga um tvær millifærslur til verkefnisins ,,Upplýsingamiðlun í allra þágu: aðlögun tölva að þörfum fatlaðra`` á þessum lið sem þannig hækkar um 4 millj. kr. Er þar annars vegar um 2 millj. kr. millifærslu af liðnum 999-1.60 að ræða og hins vegar 2 millj. kr. af liðnum 190-1.90 en mótframlag þetta féll niður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Félagasamtök, styrkir. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. viðbótarfjárveitingu vegna styrks til Vímulausrar æsku til reksturs Foreldrahúss. Í maí 1999 var undirritaður þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytis og Vímulausrar æsku um tilraunaverkefni til tveggja ára vegna reksturs Foreldrahúss. Samningurinn rann úr gildi í lok maí sl. Það er mat ráðuneytisins að mikilvægt verði að styrkja þessa starfsemi áfram á einn eða annan hátt.

Geysir, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Lögð er til 4 millj. kr. hækkun á framlagi til Klúbbsins Geysis vegna aukinna umsvifa.

Félagið Geðhjálp. Lögð er til 5 millj. kr. fjárveiting til Geðhjálpar. Fjárveitingunni er ætlað að styrkja félagið í að auka þjónustu við fólk með geðraskanir og aðstandendur þess.

Krossgötur, endurhæfingarheimili. Gerð er tillaga um hækkun fjárveitingar um 10 millj. kr. til að styrkja rekstur endurhæfingarheimilisins.

Byrgið, líknarfélag. Lagt er til að framlag til reksturs Byrgisins hækki um 10 millj. kr. Byrgið er líknarfélag sem rekur endurhæfingarsambýli í Rockville á Miðnesheiði.

Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna. Sem fyrr greinir er tillaga gerð um 2 millj. kr. millifærslu á framlagi af liðnum til verkefnisins ,,Upplýsingamiðlun í allra þágu: aðlög un tölva að þörfum fatlaðra`` undir liðnum 996-6.51 Íslenska upplýsingasamfélagið en mótframlag þetta féll niður í fjárlagafrumvarpinu.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 107,1 millj. kr.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Yfirstjórn. Á fjárlögum ársins 1998 var samþykkt 2,2 millj. kr. fjárveiting til aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins. Gert var ráð fyrir að fénu yrði varið til útgáfu- og kynningarstarfsemi í tengslum við ný lög um réttindi sjúklinga. Þegar því starfi var lokið var fjárveitingin nýtt til aukinnar túlkaþjónustu í samræmi við lögin um réttindi sjúklinga. Áformað er að flytja fjárveitinguna til stofnana og er þeim ætlað að standa straum af kostnaði við túlkaþjónustu sem þær panta.

Tryggingastofnun ríkisins. Farið er fram á 32,5 millj. kr. framlag til að endurgera stærsta tölvukerfi Tryggingastofnunar, þ.e. greiðslukerfi lífeyristrygginga. Miklar endurbætur þyrfti að gera á núverandi greiðslukerfi, Tryggva, á næstu árum og þykir sýnt að hagkvæmara er að smíða nýtt kerfi. Að mati sérfræðinga er heildarkostnaður við endurgerð kerfisins metinn til 260,5 millj. kr. með þarfagreiningu og útboði á kerfisgerð, en það er sú leið sem mælt er með að verði farin. Í áætluðum heildarkostnaði við endurgerð kerfisins er rekstrarkostnaður við núverandi greiðslukerfi næstu tvö árin, 2002 og 2003, að fjárhæð 32 millj. kr. hvort ár, en litið er svo á að sú fjárveiting sé innifalin í rekstrarframlagi Tryggingastofnunar nú. Gert er ráð fyrir að 116,5 millj. kr. falli til á næsta ári, 81 millj. kr. á árinu 2003 og 21 millj. kr. á árunum 2004--2006. Ráðuneytið hefur í hyggju að ráðstafa 26 millj. kr. í ár og á næsta ári af sérstakri fjárveitingu ráðuneytisins, Tryggingastofnun leggur til 32 millj. kr. í samræmi við það sem áður sagði og standa þá eftir 32,5 millj. kr. á næsta ári, 81 millj. kr. árið 2003, þar af er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun leggi til 32 millj. kr. og því sé nauðsynlegt viðbótarframlag að fjárhæð 49 millj. kr. og 21 millj. kr. árin 2004--2006.

Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. 1.15 Umönnunarbætur. Lögð er til 15 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

1.31 Endurhæfingarlífeyrir. Lögð er til 10 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

1.35 Barnalífeyrir vegna menntunar. Lagt er til að lækka framlag um 5 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

1.41 Heimilisuppbót. Lögð er til 30 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld Tryggingastofnunar á árinu 2001.

1.51 Uppbætur. Lögð er til 30 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

1.55 Bifreiðakaupastyrkir. Farið er fram á 40 millj. kr. hækkun á framlagi til bifreiðakaupa í samræmi við endurskoðaða áætlun um útgjöld árið 2001. Gengisbreytingar hafa áhrif á þennan lið, en ein af úthlutunarreglum stofnunarinnar kveður á um heimild hennar til þess að styrkja sem samsvarar 50% eða 60% af kaupverði bifreiðar og enginn hámarksfjöldi styrkja tilgreindur. Að öðru leyti eru reglur Tryggingastofnunar um úthlutun háðar ákveðnum fjölda styrkja miðað við tiltekna fjárhæð í hverjum flokki.

Lífeyristryggingar. Tekjutrygging ellilífeyrisþega. Lögð er til 160 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Lögð er til 82 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

Tekjutryggingarauki. Lögð er til 28 millj. kr. lækkun á framlagi í samræmi endurskoðaða spá um útgjöld á árinu 2001.

Sjúkratryggingar. 1.11 Lækniskostnaður. Farið er fram á 100 millj. kr. hækkun á framlagi til lækniskostnaðar. Í samræmi við endurskoðaða spá um útgjöld sjúkratrygginga er gert ráð fyrir að lækniskostnaður verði 100 millj. kr. umfram fjárveitingar á þessu ári.

1.15 Lyf. Samtals er farið fram á 200 millj. kr. hækkun á framlagi til að mæta auknum útgjöldum vegna greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjum. Gert er ráð fyrir að 167 millj. kr. falli á sjúkratryggingar og 33 millj. kr. á Landspítala -- háskólasjúkrahús, en á árinu voru fluttar greiðslur til sjúkrahússins frá Tryggingastofnun til að greiða fyrir svokölluð S-merkt lyf, en Tryggingastofnun greiddi áður fyrir lyfin.

1.91 Annað. Á fjárlögum ársins 1998 var samþykkt 6,6 millj. kr. fjárveiting til sjúkratrygginga til að mæta kostnaði við túlkaþjónustu í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Tryggingastofnun gerði athugasemdir við áformaða fjárveitingu þar sem ekki er sérþekking hjá stofnuninni til að veita túlkunarþjónustu fyrir heyrnarlausa og nýbúa. Ráðuneytið hefur greitt fyrir þjónustuna undanfarin ár. Áformað er að flytja fjárveitinguna til stofnana og er þeim ætlað að standa straum af kostnaði við túlkaþjónustu sem þær nota.

[15:30]

Liður 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Lögð er til 8,8 millj. kr. hækkun á liðnum. Fjárveiting er annars vegar millifærð af 206-1.91 Annað, 6,6 millj. kr., og hins vegar af aðalskrifstofu ráðuneytisins, 101-1.01 Yfirstjórn, 2,2 millj. kr., í samræmi við skýringar þar um kostnað við túlkaþjónustu.

Landspítali -- háskólasjúkrahús er meðal þeirra þátta sem tillögur voru gerðar um. Farið er fram á að sértekjur lækki um 100 millj. kr. til samræmis við minni tekjur en jafnframt lækki rekstrargjöld um sömu fjárhæð. Vegna sameiningar Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala falla niður sértekjur og útgjöld af viðskiptum þeirra í milli þar sem um innri viðskipti deilda er að ræða.

Á liðnum 379 er liðurinn 1.01 Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Lagt er til að framlag verði lækkað um 21,6 millj. kr. til að mæta viðbótarkostnaði við leiðréttingu á framlögum til hjúkrunarheimila sem miðast við að umönnunarkostnaður taki mið af hjúkrunarþyngd.

Og loks liður 385 Framkvæmdasjóður aldraðra. Þar er liðurinn 1.01 Kostnaður skv. 3.--5. tölul. 12. gr. laga um málefni aldraðra og 6.01 Stofnkostnaður og endurbætur. Lagt er til að framlag til liðarins hækki um 88,9 millj. kr. Í þingbyrjun var lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir 88,9 millj. kr. hækkun framlags í sjóðinn og hefur það verið samþykkt sem lög og kemur hækkunin til framkvæmda á árinu 2002. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 var hins vegar gert ráð fyrir óbreyttu gjaldi í sjóðinn. Af fjárveitingunni fara 47 millj. kr. í viðfangsefnið 1.01 og jafnframt er gerð tillaga um breytt heiti, Rekstur stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Þá fara 41,9 millj. kr. á viðfangsefnið 6.01 Stofnkostnaður og endurbætur.

Liður 399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.

Ég vík þar fyrst að lið 1.42 Kostnaður samkvæmt lögum um farsóttir, sóttvarnir og ónæmi. Lagt er til að veitt verði 20 millj. kr. framlag til fjölþættra sýklavarna. Gert er ráð fyrir að gera þurfi m.a. nokkrar endurbætur á húsnæði Landspítala -- háskólasjúkrahúss, kaupa meira bóluefni, efla bráðameðferð og auka fræðslu meðal heilbrigðisstarfsmanna.

Liðurinn 1.53 Tóbaksvarnir. Farið er fram á 7,7 millj. kr. hækkun framlags til tóbaksvarna. Í samræmi við breytingu á lögum nr. 101/1996, um tóbaksvarnir, sem tók gildi 1. ágúst 2001 skal verja a.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna í stað 0,7% samkvæmt eldri ákvæðum.

Liður 1.58 er Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili. Lögð er til 5 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til þess að styrkja rekstur meðferðarheimilisins.

Ég vík þá að Hjúkrunarheimilum og daggjaldastofnunum.

Lagt er til að framlög til nokkurra hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana breytist til leiðréttingar á framlögum og til aðlögunar að nýju greiðslukerfi fyrir hjúkrunarheimili sem tekið verður í notkun í áföngum. Styrkja þarf rekstrargrunn einstakra heimila og hækka eða lækka framlög til annarra til að laga þau að framlagi þar sem umönnunarkostnaður tekur mið af hjúkrunarþyngd. Breytingar á framlögum til einstakra heimila eru eftirfarandi:

Hjúkrunarheimilið Skjól, 5 millj. kr.; Hjúkrunarheimilið Eir, 5 millj. kr.; Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum., 5 millj. kr. og Víðines, 21,6 millj. kr.

Síðan tel ég hér upp Daggjaldastofnanir:

Seljahlíð í Reykjavík, mínus eða samdráttur um 2,4 millj. kr.; Dalbær, Dalvík, 12,1 millj. kr.; Höfði, Akranesi 14,2 millj. kr.; Hraunbúðir, Vestmannaeyjum, 7,1 millj. kr.; Barmahlíð, Reykhólum, 13,3 millj. kr.; Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi, samdráttur um 0,9 millj. kr.; Fellaskjól, Grundarfirði, 13,9 millj. kr.; Dvalarheimili aldraðra, Stykkishólmi, 0,7 millj. kr.; Jaðar, Ólafsvík, samdráttur um 0,2 millj. kr.; sömuleiðis er minnkun hvað varðar Klausturhóla, Kirkjubæjarklaustri, 2,0 millj. kr. samdráttur. Hrafnista, Reykjavík, 63,9 millj. kr.; Hrafnista, Hafnarfirði, 35,3 millj. kr.; Grund, Reykjavík, 31,1 millj. kr.; Ás/Ásbyrgi, Hveragerði, 5,5 millj. kr.; Kumbaravogur, Stokkseyri, mínus 2,8 millj. kr.; Hlíðabær, Reykjavík 0,8 millj. kr.; Lindargata, Reykjavík, mínus 0,8 millj. kr.; MS-félag Íslands, Reykjavík, 3 millj. kr.; Uppsalir, Fáskrúðsfirði, samdráttur um 2,6 millj. kr.; Fríðuhús, Reykjavík, 3,6 millj. kr.

Þessari upptalningu á daggjaldastofnunum er þá lokið og ég vík að framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Lagt er til að sértekjur hækki um 47 millj. kr. Í þingbyrjun var lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir 88,9 millj. kr. hækkun framlags í sjóðinn og hefur það verið samþykkt sem lög og kemur hækkunin til framkvæmda á árinu 2002. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 var hins vegar gert ráð fyrir óbreyttu gjaldi í sjóðinn.

Í fjárlagafrumvarpi láðist að færa 62,5 millj. kr. innheimtar tekjur í Framkvæmdasjóð aldraðra til daggjaldastofnana í hærra daggjaldi og lagt er til að þau mistök verði leiðrétt.

Undir liðnum 1.98 Óskipt framlag til breytinga á daggjöldum er lagt til að framlög til viðfangsefnisins hækki um 8,2 millj. kr. til leiðréttingar á framlögum og til aðlögunar að nýju greiðslukerfi fyrir hjúkrunarheimili sem tekið verður í notkun í áföngum. Styrkja þarf rekstrargrunn einstakra heimila og hækka eða lækka framlög til annarra til að laga þau að framlagi þar sem umönnunarkostnaður tekur mið af hjúkrunarþyngd.

Undir liðnum Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið. Ekki er gerð tillaga um hækkun á liðnum en lögð áhersla á að rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri verði tryggður á þessum lið með a.m.k. 10 millj. kr.

Undir lið 499 eru tillögur um hjúkrunarheimili og þar undir lið 1.01 Almennur rekstur er lagt til að 106,5 millj. kr. framlag verði færðar af liðnum til að leiðrétta daggjaldataxta hjúkrunarheimila og til aðlögunar að nýju greiðslukerfi hjá hjúkrunarheimili sem tekið verður í notkun í áföngum. Styrkja þarf rekstrargrunn einstakra heimila og hækka eða lækka framlög til annarra til að laga þau að framlagi þar sem umönnunarkostnaður tekur mið af hjúkrunarþyngd.

St. Franciskusspítali, Stykkishólmi fær framlag samkvæmt þessum tillögum. Undir liðnum 1.11 Sjúkrasvið er gerð tillaga um 6 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til spítalans í Stykkishólmi svo að unnt verði að ráða tvo sjúkraþjálfara í fullt starf.

Fjármálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 729,1 millj. kr.

103 Ríkisbókhald. Innheimtuskilakerfi og Forsendukerfi innheimtugagna. Í frumvarpinu eru fjárveitingar vegna rekstrar og stofnkostnaðar fjármálatölvukerfa ríkisins fluttar af sameiginlegum lið til viðkomandi stofnana sem bera ábyrgð á umsjón með þeim. Fyrir misgáning var fjárveiting vegna innheimtuskilakerfa annars vegar og forsendukerfis innheimtugagna hins vegar færð til embættis tollstjórans í Reykjavík en hún átti að færast til Ríkisbókhalds. Gerð er tillaga um að leiðrétta þetta með því að færa 16,2 millj. kr. fjárveitingu á viðfangsefni 1.48 og 16 millj. kr. á viðfangsefni 1.49 og fella niður jafnháa fjárheimild á viðfangsefni 262-1.41 Innheimtuskilakerfi og 262-1.43 Forsendukerfi innheimtugagna á lið tollstjórans í Reykjavík.

Og enn um Tollstjóra í Reykjavík undir liðnum 262. Innheimtuskilakerfi og Forsendukerfi innheimtugagna. Í samræmi við framangreinda skýringu lækkar fjárveiting til innheimtuskilakerfis um 16,2 millj. kr. og fjárveiting til forsendukerfis innheimtugagna um 16 millj. kr.

Liður 381 Lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun. Í samræmi við endurskoðun á áætlun um breytingar á gjaldfærðum lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs árið 2002 er lagt til að fjárheimild eftirtalinna viðfangsefna lækki frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu um alls 624 millj. kr.:

1.01 Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, mínus 529 millj. kr.; 1.02 Lífeyrissjóður alþingismanna, mínus 13 millj. kr.; 1.03 Lífeyrissjóður ráðherra, mínus 2 millj. kr.; 1.04 Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, mínus 46 millj. kr.; 1.06 Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands, mínus 10 millj. kr., 1.07 Eftirlaun fyrrum bankastjóra Útvegsbanka Íslands, mínus 1 millj. kr.; 1.08 Eftirlaun hæstaréttardómara, mínus 4 millj. kr.; 1.09 Lífeyrissjóðir sveitarfélaga vegna samrekstrarstofnana, mínus 18 millj. kr. og 1.91 Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun, mínus 1 millj. kr.

Þá er vikið að vaxtabótum undir lið 821. Lagt er til að fjárheimild til greiðslu vaxtabóta hækki um 500 millj. kr. Við lokafrágang frumvarpsins voru framreikningar um þróun útgjaldanna á árinu 2002 ekki nægilega langt komnir á veg til að unnt væri að leggja til breytingar á fjárheimildum. Frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram hefur verið unnið frekar að þeirri áætlun og er nú talið að vaxtabætur á næsta ári verði í kringum 4.400 millj. kr.

Undir liðnum 981 Ýmsar fasteignir ríkissjóðs er liðurinn 1.05 Stjórnarráðsbyggingar. Lagt er til að fjárveiting til framkvæmda við húsbyggingar fyrir ráðuneyti verði flutt á nýjan fjárlagalið hjá forsætisráðuneyti, 01-203 Fasteignir Stjórnarráðsins, enda fer forsætisráðuneytið með mál sem varða ráðstöfun skrifstofuhúsa fyrir ráðuneytin í heild samkvæmt auglýsingu um Stjórnarráð Íslands. Lækkar því þessi liður um 250 millj. kr.

Þá eru allnokkrar tillögur undir lið 989 Launa- og verðlagsmál og kem ég fyrst að þætti 1.90 Launa- og verðlagsmálum. Lögð er til 1.036,9 millj. kr. hækkun á launa- og verðlagslið frumvarpsins sem byggist á endurmati í samræmi við endurskoðaða verðbólguspá Seðlabanka Íslands. Bankinn gerir nú ráð fyrir 6,6% hækkun milli áranna 2000 og 2001 og 5,9% hækkun milli áranna 2001 og 2002 í stað 6,4% og tæplega 5%, eins og reiknað var með í frumvarpinu miðað við fyrri spá. Þá hefur verið gerður nákvæmari útreikningur á áhrifum af breyttu gengi íslensku krónunnar. Breyttar forsendur um almennar verðlagshækkanir hafa í för með sér um 615 millj. kr. hækkun á almennum rekstrargjöldum stofnana og verkefna og um 420 millj. kr. hækkun á bótum almannatrygginga. Þessi hækkun á verðlagi frumvarpsins tekur til flestra viðfangsefna en til hagræðis er tillaga um heildarfjárheimildina flutt á þessum lið fremur en á einstökum viðfangsefnum.

Skipting fjárheimildarinnar á einstök viðfangsefni fjárlaga er sýnd í sérstökum yfirlitum sem merkt eru með I með breytingartillögum meiri hlutans.

Jafnframt er lagt til að fjárheimild liðarins hækki um 66,2 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að mæta auknum launakostnaði hjá stofnunum fatlaðra og Barnaverndarstofu í kjölfar hækkunar á vaktaálagi en þessi þáttur kjarasamninganna hafði ekki verið metinn sérstaklega í forsendum frumvarpsins. Skipting fjárheimildarinnar á einstakar stofnanir er sýnd í sérstökum yfirlitum II með breytingartillögum meiri hlutans.

[15:45]

Virðulegi forseti. Ég kem þá að samgönguráðuneytinu.

Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 44,8 millj. kr.

Yfirstjórn. Lagt er til að felldar verði niður 2 millj. kr. vegna úrskurðarnefndar í póst- og fjarskiptamálum. Nefndin hefur fengið eigið viðfangsefni í fjárlögum og fjárveiting vegna hennar færð á það viðfangsefni.

190 Ýmis verkefni. 1.29 Almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum. Gerð er tillaga um 2 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til uppbyggingar rústabjörgunaraðstöðu að Gufuskálum.

Gestastofur, söfn og markaðsstarf. Gerð er tillaga um að veita Samgönguminjasafninu Ystafelli í Ljósavatnshreppi 3 millj. kr. tímabundinn styrk til uppbyggingar safnsins.

Aldamótabærinn Seyðisfjörður, húsahótel. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til verkefnisins Aldamótabærinn Seyðisfjörður til endurbyggingar húsa sem síðan verða nýtt sem hótel.

1.90 Ýmislegt. Gerð er tillaga um að veita Björgunarfélagi Ísafjarðar tímabundinn 2 millj. kr. styrk til að bæta fjárhagsstöðu félagsins. Þá er lagt er til að Björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri verði veittur tímabundinn 1 millj. kr. styrkur til að koma nýju húsnæði sveitarinnar í nothæft ástand.

211 Vegagerðin. 1.13 Styrkir til innanlandsflugs. Farið er fram á að veitt verði 30 millj. kr. framlag til að styrkja innanlandsflug til Hafnar í Hornafirði. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2001 er samsvarandi tillaga um 12 millj. kr. styrk, en ætlunin er að gera bráðabirgðasamning í samvinnu samgönguráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Tryggingastofnunar um áætlunarflug og sjúkraflug. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að stefnt verði að því að bjóða flugleiðina út og er gert ráð fyrir að útboðsferlið taki u.þ.b. þrjá mánuði. Að því loknu, og á grundvelli tilboða, er áætlað að gera samning við flugrekanda um rekstur áætlunarflugs á flugleiðinni ásamt sjúkraflugi.

335 Siglingastofnun Íslands. Lendingabætur. Lagt er til að liðurinn hækki um 0,8 millj. kr. og er sundurliðun hans sýnd í sérstökum yfirlitum III með breytingartillögum meiri hlutans.

Ferðamálaráð. 1.11 Ferðamálasamtök landshluta. Lögð er til 3 millj. kr. hækkun á liðnum og er fjárveitingin ætluð upplýsingamiðstöð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Iðnaðarráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 4 millj. kr.

299 Iðja og iðnaður, framlög. 1.50 Nýsköpun og markaðsmál. Lögð er til 4 millj. kr. tímabundin hækkun á þessum lið í þeim tilgangi að styrkja starfsemi Fagráðs textíliðnaðarins við eflingu framleiðslu íslenskrar ullarvöru.

Hagstofa Íslands. Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði óbreytt.

Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa. 1.01 Yfirstjórn. Lagt er til að niður falli 7 millj. kr. mótframlag Hagstofunnar til verkefnis á vegum íslenska upplýsingasamfélagsins um gagnaöflun, hagskýrslugerð og miðlun upplýsinga um hagnýtingu upplýsingatækni. Verkefnið var fært til Hagstofunnar frá forsætisráðuneytinu og við það miðað að til þess yrðu veittar 8 millj. kr. Ekki stóð til að Hagstofan legði sérstakt mótframlag til verkefnisins.

1.50 Þjóðskráin. Lögð er til 1 millj. kr. lækkun á mótframlagi Hagstofunnar til verkefnis á vegum íslenska upplýsingasamfélagsins um rafræn samskipti og þjónustu til samræmis við lækkun á framlagi upplýsingasamfélagsins.

996-6.51 Íslenska upplýsingasamfélagið. Í samræmi við framangreindar breytingar á lið aðalskrifstofu lækkar þessi liður um 8 millj. kr.

Virðulegi forseti. Þá vík ég að því ráðuneyti sem enn er ótalið.

Umhverfisráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 110,3 millj. kr.

Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 2,3 millj. kr. fjárveitingu vegna hækkunar húsaleigu. Fyrri húsaleigusamningur um Vonarstræti 4, sem gerður var árið 1990, rennur út nú í lok árs 2001. Endurnýja þurfti því leigusamninginn við Reykjavíkurborg, eiganda húsnæðisins, og húsaleigan hækkaði. Stefnt er að því að aðalskrifstofa ráðuneytisins flytjist í nýtt húsnæði í lok árs 2004.

190 Ýmis verkefni. 1.10 Fastanefndir. Gerð er tillaga um að 6 millj. kr. fjárveiting vegna nefndar um sorpflokkun verði millifærð af viðfanginu 1.23 Ýmis umhverfisverkefni yfir á viðfangsefni 1.10 Fastanefndir.

1.12 Samvinnunefnd um miðhálendið. Lögð er til 6,5 millj. kr. fjárveiting til samvinnunefndar um miðhálendið og er um nýtt viðfangsefni að ræða. Umfang nefndarinnar er það mikið að rétt þykir að hún hafi sérstakt viðfangsefni í fjárlögum. 5 millj. kr. af fjárveitingunni eru millifærðar af viðfanginu 1.23 Ýmis umhverfisverkefni.

1.23 Ýmis umhverfisverkefni. Gerð er tillaga um breytingar sem lækka liðinn um 9 millj. kr. Annars vegar er gerð tillaga um 2 millj. kr. aukið framlag til Staðardagskrár, sem er sérstök umhverfisáætlun sveitarfélaga um úrbætur í umhverfismálum, og annarra verkefna. Hins vegar er tillaga um 11 millj. kr. millifærslu af liðnum á tvö framangreind viðfangsefni, 6 millj. kr. á 1.10 Fastanefndir og 5 millj. kr. á 1.12 Samvinnunefnd um miðhálendið.

1.51 Þjóðgarður Vatnajökuls, undirbúningur. Lagt er til að fjárveiting til undirbúnings að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs verði alls 3 millj. kr. Hluti fjárins, 2,8 millj. kr., er millifærður af viðfangi 1.57 Þjóðgarður á Snæfellsnesi, undirbúningur, yfir á þetta viðfang sem er nýtt. (Gripið fram í: Var ekki talað um að hækka hana?) Óskar hv. þm. eftir því að ég lesi tillögu meiri hlutans aftur? (Gripið fram í: Ræðuna alla aftur.)

1.54 Rannsóknastöð að Kvískerjum. Lagt er til að framlag til rannsóknastöðvar að Kvískerjum lækki um 4,6 millj. kr. Inneign hefur safnast á viðfanginu og ekki er talin þörf á frekara fjármagni til að ríkissjóður geti staðið við sínar upphaflegu skuldbindingar þegar að því kemur að ráðist verði í framkvæmdir.

Vernd Breiðafjarðar. Lagt er til að veitt verði 2 millj. kr. fjárveiting til framkvæmdar verndaráætlunar samkvæmt lögum nr. 54/1995. Fyrir liggur tillaga Breiðafjarðarnefndar um verndaráætlun sem nauðsynlegt er að ýta úr vör á næsta ári.

Þjóðgarður á Snæfellsnesi, undirbúningur. Lagt er til að 2,8 millj. kr. verði millifærðar af þessum lið á framangreint nýtt viðfang, 1.51 Þjóðgarður Vatnajökuls, undirbúningur.

Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál. Lögð er til 2,9 millj. kr. hækkun á framlagi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna aukins umfangs.

Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 4 millj. kr. framlag til að styrkja ýmis náttúruverndarsamtök.

Náttúruvernd ríkisins. 1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði og 6.01 Tæki og búnaður. Lagt er til að þær 10 millj. kr. sem ætlaðar eru til uppbyggingar og starfrækslu hins nýja þjóðgarðs á Snæfellsnesi verði færðar af stofnkostnaðarviðfanginu 6.01 Tæki og búnaður yfir á rekstrarviðfangið 1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði.

281 Styrkir til fráveitna sveitarfélaga. 6.51 Styrkir til fráveitna sveitarfélaga. Lagt er til að veitt verði 100 millj. kr. tímabundin fjárveiting til fráveituframkvæmda sveitarfélaga þannig að heildarfjárveiting til þeirra mála árið 2002 verði 220 millj. kr. Um er að ræða fjármuni sem koma til greiðslu ári eftir að framkvæmdir eiga sér stað. Í fjárlögum ársins 2001 er 120 millj. kr. varið til þessara mála, en þar af eru 20 millj. kr. vegna endurgreiðslu á 1/5 hluta skerðingar á fjárveitingu ársins 2000. Á vegum Reykjavíkurborgar er nú unnið að fráveituframkvæmdum fyrir ríflega 1 milljarð kr. auk framkvæmda annarra sveitarfélaga víðs vegar um land.

401 Náttúrufræðistofnun Íslands. 1.01 Yfirstjórn og 1.02 Setur í Reykjavík. Til að leiðrétta skekkju sem var í fjárlagagerð fyrir árið 2001 er lagt til að 28 millj. kr. tilfærsla milli launa og sértekna verði millifærð af viðfangi 1.01 Yfirstjórn yfir á viðfang 1.02 Setur í Reykjavík.

Að lokum eru hér örfá orð um síðustu breytingartillögurnar.

Lagt er til að fjárheimild til vaxtagjalda ríkissjóðs verði aukin um 100 millj. kr.

Í samræmi við endurskoðaða áætlun er gert ráð fyrir að gjaldfærð vaxtagjöld ríkissjóðs árið 2002 verði 100 millj. kr. hærri en áætlað var í frumvarpinu. Skýrist það einkum af breytingum á gengi krónunnar, en á móti hafa vextir á erlendum mörkuðum lækkað.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim tillögum sem hér eru lagðar fram og lesa má í þingskjali sem lagt var fram á Alþingi í gær.

Störf nefndarinnar við afgreiðslu frv. hafa verið hefðbundin. Nefndin hóf störf 20. sept. sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaganna sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárln. vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlfrv. sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 15. okt. sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nál. eins og fyrir er mælt í þingsköpum.

[16:00]

Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frv. hefur hún haldið 31 fund og átt viðtöl við fjölmarga aðila.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem um skiptingu fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 2.277,6 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2.

Eins og venja er bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frv., B-hluti og heimildir skv. 7. gr. Auk þess bíða 3. umr. ýmis viðfangsefni sem nefndin hefur enn til umfjöllunar, þar á meðal Borgarspítali og heilsugæslustöðvar.

Fjárln. hefur leitað til Ríkisendurskoðunar hvað varðar tillögur um styrki til einstaklinga og félagasamtaka. Þegar styrkir verða greiddir út er ráðgert að aðilar gangist undir að skila skýrslum sem greini frá því hvernig viðkomandi verkefni hafi reitt af og hvort þau markmið sem voru áformuð hafi náðst. Ráðgert er að samræma þessa skýrslugerð til að auka eftirlit með verkefnunum. Tillögur um þetta efni eru væntanlegar frá stofnuninni.

Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki og félögum minum í fjárln. fyrir gott samstarf. Minni hlutanum þakka ég. Sérstaklega vil ég geta þess að málflutningur þeirra og málefnaleg framsetning í umræðunni hefur verið góð og starfsandi góður í nefndinni.

Ég færi sérstakar þakkir þeim sem aðstoðað hafa nefndina í vinnu hennar.

Herra forseti. Ég hef lokið málið mínu.