Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:02:56 (1958)

2001-11-27 16:02:56# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Merkilegasti hluti ræðu hv. þm. fólst í byrjuninni. Þar tók hann í einu og öllu undir öll þau atriði sem Samfylkingin og stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt varðandi stjórn efnahagsmála hér á landi. Að því loknu klykkti hv. þm. út með því að segja: Hér leggst því allt á eitt, fyrir vikið stefnir í meira óefni en þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir.

Herra forseti. Ég dreg þetta í efa. Samfylkingin benti á að þá lá fyrir, samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar að hagvöxur á næsta ári yrði minni, verðbólga á næsta ári yrði meiri og það lá fyrir samkvæmt mati peningastofnana að gengið yrði mun lægra. Þannig lá þetta allt saman fyrir, herra forseti.

Hv. þm. talaði sjálfur um að viðskiptahallinn væri allt of mikill og verðbólgan hefði farið upp. Nú langar mig til að spyrja hv. þm.: Hvað telur hann að hafi valdið því að verðbólgan fór upp og að gengið fór niður, hrundi eins og raun bar vitni? Hvað olli þessum mikla viðskiptahalla?