Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 16:18:14 (1970)

2001-11-27 16:18:14# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við búum við þrískiptingu valds, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þar er löggjafarvaldið sýnu valdamest, enda kosið af þjóðinni. Það setur lög sem dómstólar fara eftir, semur og setur lög. Það veitir fé til framkvæmdarvaldsins og hefur eftirlit með framkvæmdum og ráðstöfun framkvæmdarvaldsins á þessu fé.

Herra forseti. Ég ætla að nefna eina framkvæmd sem er dæmigerð fyrir fjölda annarra framkvæmda sem við höfum hlustað á formann fjárln. lýsa í eins og hálfs tíma ræðu. Hið háa Alþingi, merkasta stoð hins þrískipta valds, ætlar að ala upp og skóla hund í Vestmannaeyjum. Sá skal læra að leita eftir kókaíni og öðrum eiturlyfjum og kostar uppeldið 2 milljónir. Fyrir utan það að þessi framkvæmd löggjafarvaldsins er fráleit þá leiðir hún til eftirfarandi spurningar til hv. framsögumanns:

Hver ber ábyrgð á því ef uppeldi hins háa Alþingis á hvutta mistekst og hann finnur bara kaffi en ekki kókaín, þ.e. ef útkoman verður röng? Ekki getur hæstv. dómsmrn. borið ábyrgð á því, því Alþingi ákvað þetta. Hvernig getur Alþingi haft eftirlit með framkvæmdinni þegar það ákvað þetta sjálft?