Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 17:37:50 (1996)

2001-11-27 17:37:50# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom víða við í stuttri ræðu sinni og benti eðlilega á að fulltrúar minni hlutans í fjárln. hefðu ekki mikið rætt um þær tillögur sem hér liggja fyrir við 2. umr. um fjárlög. Ég tel að það hafi nú verið skýrt nægjanlega vegna þeirra einföldu ástæðna sem fram hafa komið í umræðum utan þings undanfarna daga um að í raun sé lítið mark takandi á þessum tillögum sem hér liggja fyrir.

Hins vegar var það athyglisvert sem hv. þm. sagði, að skelfilegt yrði ef samningar losnuðu. Ég vil taka undir þessi orð hv. þm. vegna þess að það yrði auðvitað það versta sem gerst gæti í því efnahagsástandi sem við búum nú við.

Herra forseti. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. að hvort hann sé ekki sammála okkur sem höfum lagt áherslu á að nú sé brýnt að menn reyni að horfa til þeirrar leiðar sem farin var fyrir þó nokkru síðan --- en þar kom hv. þm. nokkuð við sögu --- og nefnd hefur verið þjóðarsátt, hvort nú séu ekki runnir upp þeir tímar enn á ný að menn þurfi að draga sem flesta að borðinu til að leysa þann vanda sem aðsteðjandi er.