Fjárlög 2002

Þriðjudaginn 27. nóvember 2001, kl. 21:10:46 (2016)

2001-11-27 21:10:46# 127. lþ. 36.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 127. lþ.

[21:10]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. útskýrði þetta á þann veg að á meðan verið sé að leita lausna og útbúa útboðsgögn sé greitt 30 millj. kr. framlag til þess aðila, Flugfélags Íslands, sem nú annast flugþjónustu til Hafnar í Hornafirði.

Það sem ég velti bara fyrir mér, og verið getur að ég sé að misskilja eitthvað, er að mér fannst og finnst að verið sé að mismuna því að einhverjir aðilar hefðu kannski viljað bjóða í og kannski getað veitt þessa þjónustu fyrir lægri upphæð á meðan verið var að vinna útboðið. Það getur vel verið að þetta sé allt eðilegt. En um er að ræða frá síðasta ári og núna 42 millj. sem eru greiddar til þess að annast þessa þjónustu. Mér er alveg ljóst að það verður að veita þjónustuna og það getur vel verið að það sé eimitt þannig að ekki sé hægt að gera þetta á annan máta.

En ég hrökk svolítið við vegna þess að ég taldi að þær 12 millj. sem voru veittar í fjáraukalögum væru það sem til þyrfti. En svo kemur við 2. umr. fjárlaga tillaga um 30 millj. til viðbótar. Það var ástæðan, virðulegi forseti, fyrir því að ég innti svara við þessu frá hæstv. samgrh.