Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:10:38 (2277)

2001-12-03 15:10:38# 127. lþ. 41.91 fundur 188#B alþjóðlegur dagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er full þörf á að vekja athygli á þeirri staðreynd að í dag er dagur fatlaðra, samkvæmt tilmælum Sameinuðu þjóðanna. Það hefði verið ástæða til að þess sæist stað í dagskrá Alþingis. Reyndar mætti gjarnan huga að því, herra forseti, að sú venja væri höfð, þegar um slíka sérstaka daga sem helgaðir eru tilteknum viðfangsefnum er að ræða að þá væri t.d. sett á dagskrá þingsins stutt umræða um þau mál. Það mætti gjarnan hefjast á því að ráðherra viðkomandi málaflokks gæfi þinginu stutta skýrslu um það helsta sem á döfinni væri á því sviði.

Grunnreglur Sameinuðu þjóðanna eru ákaflega mikilvægur grunnur í réttarbaráttu fatlaðra. Þar hafa Norðurlöndin verið í fararbroddi, herra forseti, við að móta þær reglur og fá þær staðfestar. Norðurlandabúi hefur verið sérstakur talsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra um árabil. Það er því miður svo, herra forseti, að það er ekki af miklu að státa hjá okkur Íslendingum á mörgum sviðum þessara mála. Þar er nærtækt að nefna húsnæðismálin og reyndar aðgengismálin.

Sá sem hér talar hefur átt sæti í norræna ráðinu um málefni fatlaðra um nokkurra ára bil. Ég tel mig því hafa ágætan samanburð eftir það starf á því hvar við Íslendingar stöndum og þó að vissulega sé ýmislegt vel gert hér, þá er ekki hægt að horfa fram hjá hinu, að það hallar stórkostlega á okkur að mínu mati, sérstaklega á þeim tveimur sviðum sem ég nefndi. Húsnæðismál eru í miklum ólestri hjá fötluðum upp til hópa og langir biðlistar. Við erum jafnframt mun skemmra á veg komin hvað það varðar að taka aðgengismálin föstum tökum og tryggja í víðasta skilningi aðgengi fatlaðra, bæði að húsnæði og öðru slíku í efnislegum skilningi, og líka aðgengi fatlaðra t.d. að námi og öðrum slíkum þáttum.

Það hefði, herra forseti, verið full þörf á því að taka umræður um almenna stöðu þessara mála hér í dag.