Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:16:45 (2280)

2001-12-03 15:16:45# 127. lþ. 41.94 fundur 191#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Þannig er mál með vexti að í frv. til fjáraukalaga er farið fram á aukafjárveitingu að fjárhæð 300 millj. kr. á liðnum 01-190, 1.15 Ýmis verkefni, útboðs- og einkavæðingarverkefni. Margítrekað hefur verið óskað eftir upplýsingum frá forsrn. varðandi það í hvað þessar 300 millj. eigi að fara. Því miður hafa svör verið lengi á leiðinni og verið ófullnægjandi þegar þau hafa komið. Lokatilraun til þess að fá almennileg svör frá ráðuneytinu var gerð 29. nóv. sl., um leið og meiri hluti fjárln. afgreiddi frv. til fjáraukalaga út úr nefndinni.

Svar forsrn. barst síðan 30. nóv. en þar kemur m.a. fram að ráðuneytið hafni því að gefa þær upplýsingar sem um er beðið með vísun í m.a. upplýsingalög og segir síðan, með leyfi forseta, í svari ráðuneytisins:

,,Þar eð sambærileg þagnarskylda hvílir ekki á þingmönnum eða þingnefndum, telur ráðuneytið því ekki fært að veita nánari upplýsingar um það hvernig framangreind fjárhæð skiptist milli einstakra viðsemjenda.``

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rifja upp og vitna í lög, m.a. um þingsköp Alþingis frá 1999, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði.``

Í 28. gr. laganna er m.a. fjallað um erindi sem berast þingnefndum og á grundvelli þeirrar lagagreinar setti forsætisnefnd reglur hinn 5. desember 1994 og tóku þær gildi 1. janúar 1995. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þingnefnd getur ákveðið, að ósk sendanda erindis eða að eigin frumkvæði, að farið skuli með erindi að öllu leyti eða að hluta sem trúnaðarmál.``

Herra forseti. Þess vegna er ljóst að svar forsrn. stenst ekki þau lög sem hér hefur verið vitnað til. Þess vegna er óskað eftir liðsinni hæstv. forseta svo tryggja megi að hv. þingmenn í fjárln. fái umbeðnar upplýsingar áður en 3. umr. um frv. til fjáraukalaga fer fram, þ.e. fyrir morgundaginn.