Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:14:20 (2312)

2001-12-03 16:14:20# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að segja að í það heila tekið ríki almenn ánægja með hvernig til hefur tekist í uppbyggingu og eflingu starfsemi umboðsmanns Alþingis. Það er enginn vafi á því að það var eitt af stóru skrefunum fram á við í stjórnsýslu okkar og réttarfari að slíkt embætti óháðs umboðsmanns borgaranna kæmi til sögunnar og þangað gætu þeir leitað án þess að hafa af því umtalsverðan kostnað eða fyrirhöfn að fá mál sín skoðuð. Af sömu ástæðu var talið skynsamlegast að þetta embætti starfaði sem sjálfstætt og óháð embætti í skjóli Alþingis. Svipuð niðurstaða varð svo nokkrum árum síðar með embætti Ríkisendurskoðunar og hefur jafnvel komið til tals að fleiri þættir, að einhverju leyti sambærilegir eða hliðstæðir, ættu jafnvel betur heima á sama stað, að þeir störfuðu sem sjálfstæðar óháðar stofnanir en í skjóli Alþingis þannig að Alþingi væri þeim skjöldur gagnvart framkvæmdarvaldinu eða öðrum sem kynnu að vilja seilast til einhverra áhrifa um málefni þessara stofnana. Með því að fjárveitingar renni beint frá Alþingi til svona stofnana er líka t.d. tryggt að framkvæmdarvaldið hafi þar ekki hönd í bagga o.s.frv.

[16:15]

Ég tel að þessar skýrslur sem við höfum nú fengið og það form sem hér er orðið á skýrslunum sé sömuleiðis gott og til bóta. Þær voru orðnar ansi þykkar, ef ég man rétt, síðustu skýrslurnar þar sem úrskurðir voru allir teknar saman á einn stað. En hér er þetta með handhægum hætti dregið saman og síðan mönnum vísað í frumgögnin sjálf ef á þarf að halda.

Herra forseti. Það er auðvitað þannig að með starfrækslu þessara embætta er verið að reyna að bæta stjórnsýslu í landinu og tryggja réttaröryggi borgaranna. Það er engin tilviljun að þessar stofnanir eru settar í skjól Alþingis. Það er vegna þess að á Alþingi sjálfu er ein æðsta skylda manna að sinna þessu eftirlits- og upplýsingahlutverki. Það er þekkt úr lögum, stjórnarskipunarlögum, og úr hefðum þjóðþinga um víða veröld að eitt ríkasta hlutverk þeirra er að vera vettvangur upplýsingagjafar og aðhalds að stjórnsýslunni og þingmenn leika stórt hlutverk í því sambandi. Þess vegna er það þannig að alls staðar þar sem þingræði er þroskað er með einhverjum hætti búið um rétt þingmanna til þess að krefja upplýsinga um opinber mál. Hann er gjarnan varinn í stjórnarskrá og allt sem lýtur að hefðum og starfsemi þjóðþinga er auðvitað eitt talandi dæmi um þetta. Er þar nærtækt að vitna t.d. til rannsóknarnefnda sem alsiða er að setja á fót í þjóðþingunum í kringum okkur þó þá hefð skorti að vísu nokkuð hér.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef sívaxandi áhyggjur af þeirri tilhneigingu sem gætir hjá framkvæmdarvaldinu að skerða þennan rétt þingmanna. Þess sér stað í margvíslegum greinum. Ráðherrar neita að að svara fyrir málaflokka sína ef þeim býður svo við í utandagskrárumræðum. Svör við fyrirspurnum þingmanna sem oft eru settar fram til þess að krefja upplýsinga um mikilvæg opinber málefni eða málefni úr stjórnsýslunni, oft hliðstæð þeim sem umboðsmaður Alþingis fær til umfjöllunar, eru iðulega í skötulíki. Ráðuneyti bera fyrir sig lagarefjar og eru með útúrsnúninga gagnvart því að svara til um opinber málefni, jafnvel ráðstöfun opinberra fjármuna.

Í þessu sambandi, herra forseti, gerðist mjög alvarlegur atburður áðan og hefur verið á dagskrá síðustu daga í gegnum bréfaskriftir milli fjárln. Alþingis og forsrn. Sá fáheyrði atburður gerist að embættismaður í forsrn. synjar fjárln. um upplýsingar um ráðstöfun tiltekinna opinberra fjármuna og verð ég að segja alveg eins og er að langt er um liðið síðan ég hef séð samskipti hins virðulega Alþingis og framkvæmdarvalds á hliðstæðum nótum. Synjunin er ekki byggð á formlegu undirrituðu bréfi sem ráðherra ber ábyrgð á heldur er það í faxsendingu frá einum embættismanni í forsrn. Það er bara sagt sisvona að fjárln. komi þetta ekki við. Sundurliðun og ráðstöfun á 300 millj. kr. kemur fjárln. Alþingis ekki við. Hvert er þróunin að bera okkur, herra forseti, ef búast má við þessu á fleiri sviðum? (Gripið fram í: Hvað þá ...) Ég er ansi hræddur um að ef réttur Alþingis að þessu leyti verði veiktur þá verði lítið úr stofnunum af tagi umboðsmanns eða Ríkisendurskoðun því að þær njóta m.a. góðs af því og eiga að vera í þessu skjóli Alþingis og starfa þar vel varðar m.a. af hinni ótvíræðu stöðu Alþingis til þess að veita framkvæmdarvaldinu eftirlit og aðhald og sjá um sinn hluta þess máls. Allt á þetta að mynda eina heild, herra forseti, hinn lögvarði og stjórnarskrárvarði réttur þingsins og þingmanna, þær eftirlitsstofnanir sem Alþingi á grundvelli laga setur á laggirnar og sá stuðningur við rétt borgaranna sem fólginn er t.d. í hlutverki umboðsmanns Alþingis, umboðsmanns barna, Ríkisendurskoðunar og fleiri slíkra aðila.

Herra forseti. Ég tel þessa synjun fjmrn., þessa embættismanns í fjmrn., svo fráleita að engu tali tekur. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að sjálfur forseti Alþingis gengi fyrirvaralaust í lið með þessum embættismanni framkvæmdarvaldsins og felldi hér einhvern þann fráleitasta úrskurð áðan sem ég hef lengi heyrt, að þessi hundalógík Stjórnarráðsins væri öllsömul pottþéttur ,,jús`` og notaði til þess að mínu mati, herra forseti, þannig röksemdafærslu að hún var algjörlega fráleit.

Herra forseti. Í fyrsta lagi var það ekki tilgangur með upplýsingalögum að snúa þeim yfir í óupplýsingalög, en það gerist nú aftur og aftur að upplýsingalöggjöfinni sem var sett til þess að tryggja rétt manna og aðgang þeirra að upplýsingum til að lögfesta hina opnu stjórnsýslu er snúið við og hún er notuð sem andstæða sjálfrar sín til þess að loka af upplýsingar og bera við alls konar fáránlegum hlutum um að einhverjir gætu átt einhverra viðskiptahagsmuna að gæta í því efni. Hver neyðir þessa menn til viðskipta við hið opinbera? Eru einhverjir að neyða einhverja til þess að þiggja fé frá ríkinu í sambandi við einkavæðingu? Mér er ekki kunnugt um það. Hafa þar átt sér stað þvingunaraðgerðir? Og þessir menn geta veskú tekið það á sig eins og hverjar aðrar kvaðir ef þeir taka sér verkefni sem hið opinbera greiðir að upplýsingar um það liggi fyrir. Ég veit ekki síðan hvenær ríkið fór að stunda viðskiptaleynd af þessu tagi að það jaðrar við að vera eins og ónefndar hreyfingar úti í heimi sem allar eru með öll sín fjármál neðan jarðar. Hvað þolir ekki dagsins ljós í þessum efnum, herra forseti?

Hæstv. forseti notaði trúnaðarskylduákvæði utanrmn. til þess að gagnálykta með algjörlega óréttmætum hætti og sú gagnályktun stangast á við starfsreglur Alþingis sem það hefur sjálft sett, þ.e. að gagnálykta út frá því að lengi hefur verið í lögum sérstök trúnaðarskylda á utanrmn. af eðlilegum ástæðum vegna þeirra þjóðarhagsmuna og trúnaðarupplýsinga sem þar eru oft á ferð, að gagnálykta að þar með geti enginn trúnaður ríkt um neinar aðrar upplýsingar sem þingmenn annars staðar fá í hendur. Þetta er einhver mesti þvættingur sem ég hef nokkurn tímann heyrt og hann fellur um sjálfan sig vegna þess að í 28. gr. laga um þingsköp Alþingis er talað um að Alþingi skuli setja nánari reglur um meðferð erinda og umsagna og annarra upplýsinga sem nefndum berast, og í þeim starfsreglum er m.a. kveðið á um að ef aðstæður séu slíkar skuli fara í trúnaði með upplýsingar sem þingmenn eða þingnefndir fá. Væri þetta sett inn í þessar starfsreglur ef það væri réttmæt túlkun laga sem hæstv. forseti fór með, að af því að það er pósitíft trúnaðarskylduákvæði í utanrmn. þá hljóti allt annað að vera galopið? Nei. Það fellur auðvitað algjörlega um sjálft sig, enda hefur aldrei hvarflað að mönnum að þingmenn gætu ekki í öðrum þingnefndum og í öðrum tilvikum tekið við viðkvæmum upplýsingum og þar á meðal trúnaðarupplýsingum, enda er fyrir því áratuga löng hefð. Og þeir sem hafa hér einhverja þingreynslu hafa auðvitað oft lent í því, eins og sá sem hér talar, að taka við viðkvæmum trúnaðarupplýsingum í fjölmörgum nefndum þingsins. Það eru sennilega ekki margir nú starfandi þingmenn sem hafa setið í öllu fleiri nefndum en sá sem hér talar og ég fullyrði að það hefur gerst aftur og aftur að þessar nefndir hafa fengið viðkvæmar trúnaðarupplýsingar, ýmist tengdar einstaklingum eða fyrirtækjum, og hafa ekki misfarið með þann trúnað. Það hafa verið björgunaraðgerðir vegna bágstaddra fyrirtækja, viðkvæm mál einstaklinga og fjölskyldna, mál sem varða réttarfarsleg málefni og þar fram eftir götunum þannig að auðvitað er þetta algjör þvæla, herra forseti.

Það alvarlega er ef verið er að vega aftur og aftur að þessum rétti Alþingis til upplýsinga og til þess að sinna hlutverki sínu. Það gætir alveg ótrúlegrar tilhneigingar til þess hjá núverandi handhöfum framkvæmdarvaldsins að gefa Alþingi langt nef í þessum efnum og skammta því upplýsingar eftir því sem þeim sýnist.

Einhver farsakenndasti atburður sem hefur orðið á Alþingi lengi var þegar hæstv. landbrh. kom bólginn af rökum embættismanna sinna um að hann mætti ekki veita upplýsingar um sölu ríkisjarða. En svo kom í ljós að þessar sömu upplýsingar höfðu að vísu verið birtar með ríkisreikningum ár eftir ár og aumlegri stöðu hef ég varla séð einn ráðherra koma sér í heldur en þessa. En það er ekki eins og menn láti svona lagað sér að kenningu verða heldur er haldið áfram. Ég fullyrði að þessi tilhneiging er háskaleg. Hún er á skjön við alla þróun í stjórnsýslu sem menn hafa verið að reyna að telja sér trú um að væri hér í gangi, þ.e. að við værum að taka skref í átt til opnari, lýðræðislegri og upplýstari stjórnunarhátta. Til þess settum við stjórnsýslulög. Til þess settum við upplýsingalög. Til þess höfum við embætti umboðsmanns Alþingis. Til þess höfum við Ríkisendurskoðun en ekki til hins gagnstæða.

Ömurlegastur er þó hlutur hæstv. forseta sem verður á það glapræði, greinilega algjörlega að vanhugsuðu máli eða þá þvílíku þekkingarleysi að því verður ekki trúað að maður sem kominn er í það embætti sé svo illa á vegi staddur, að fella þann arfavitlausa úrskurð sem auðvitað var enginn úrskurður sem forseti gerði í þessum efnum. Forseti hafði ekki verið beðinn um neinn úrskurð. Það sem forseti gerði var að hann hljóp til varnar framkvæmdarvaldinu. Hann hljóp til varnar húsbónda sínum, hæstv. forsrh., og það skal aldrei bregðast þegar mikið liggur við að þá gleymir hv. þm. Halldór Blöndal, hæstv. forseti, því í hvaða embætti hann er og hleypur til varnar húsbónda sínum og arfakóngi og herra, hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni. Þessu kynntumst við hér heldur nöturlega í öryrkjamálinu í fyrra þegar hæstv. forseti þingsins lagðist í bréfaskriftir til Hæstaréttar til þess að draga út úr Hæstarétti túlkun á dómum sem er náttúrlega fáheyrt og hefði hvergi getað gerst í þroskuðu þingræðis- og lýðræðisríki þar sem menn taka aðskilnað valdþáttanna hátíðlega. En það er ekki eins og hæstv. forseti hafi lært mikið af þessu.

Herra forseti. Ég tel þetta allt saman grafalvarlega atburði og að sá starfi sem menn telja sig hafa verið að vinna á undanförnum árum, að bæta og opna stjórnsýsluna með margvíslegum ráðum, sé til lítils ef svo er grafið undan mikilvægasta þættinum af þessu öllu saman sem er auðvitað staða Alþingis. Ætli það sé ekki nóg hvernig komið er fram við Alþingi með ýmsum hætti þessa dagana þegar t.d. fjárlaganefndarmenn sitja við útvarpið til að heyra fréttir af því utan úr bæ hvað sé að gerast í meðförum Alþingis á fjárlagafrv. Nær væri að virðulegur forseti þingsins reyndi að standa sig í stykkinu og halda uppi einhverjum málsvörnum fyrir stofnunina heldur en leka niður eins og hann hefur gert og skríða til varnar framkvæmdarvaldinu og gleyma skyldum sínum sem forseti Alþingis og brjóstvörn þess að sjálfstætt og sterkt Alþingi sé hluti af og einn af hornsteinum stjórnskipunar landsins en ekki einhver ómerkileg tuska fyrir fótum framkvæmdarvaldsins. Það er lítið lið í forseta af þessu tagi, verð ég að segja, og mikið lifandis ósköp er ég feginn að ég skyldi ekki hafa greitt honum atkvæði mitt í haust. (Gripið fram í: Þá vitum við það.) Já það er sko ekkert leyndarmál.