Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:54:24 (2317)

2001-12-03 16:54:24# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að það hefði verið ágætt ef hæstv. forseti hefði setið hér í salnum á meðan ég flutti mál mitt. Þess vegna kemur þessi spurning fram. En niðurstaða hæstv. forseta í dag er sú að alþingismönnum komi lítið sem ekkert við hvernig framkvæmdarvaldið ráðstafar þeim fjármunum sem það hefur fengið til ráðstöfunar með heimild Alþingis.

Það vantar ekki, virðulegi forseti, þegar framkvæmdarvaldið kemur hingað inn og óskar eftir heimildum, að þá eru þetta mikilvæg verk. Það vantar ekki, virðulegi forseti. En þegar spurt er hvað þeir gerðu við peningana, þegar spurt er hverjum þeir seldu löndin, þegar spurt er hverja þeir réðu til vinnu, þá er ekkert um svör, ekki nokkur skapaður hlutur.

Hæstv. forseti úrskurðar það síðan hér úr forsetastóli að alþingismönnum komi þetta ekkert við. Og til að bæta gráu ofan á svart þá fer hann einhverja þá lengstu leið sem ég hef nokkurn tímann heyrt í þá veru, ef ég skildi hann rétt --- og lái mér hver sem vill vegna þess að ég held að ekki nokkur maður hafi skilið hæstv. forseta almennilega --- en það var einhvern veginn á þá leið að af því að ekki væri þagnarskylda í fjárln., en það væri þagnarskylda í utanrmn., þá væri það þannig að þinginu kæmi þetta ekki við.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að dagurinn í dag var svartur dagur í sögu þingsins.