Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:06:27 (2321)

2001-12-03 17:06:27# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SÓ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Stefanía Óskarsdóttir:

Herra forseti. Upphaflega voru lög um umboðsmann Alþingis sett 1987 en þau voru síðan endursamþykkt með breytingum 1997, þá í takt við breytta tíma geri ég ráð fyrir, svo sem setningu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga sem hvor tveggja eru merkilegir lagabálkar sem settir voru í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar.

Hér kom fram fyrr, í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, að umboðsmaður Alþingis og störf hans ættu mjög undir högg að sækja í skjóli ráðríkis forsrh. Það er málflutningur sem á ekki heima hér í sölum Alþingis að mínu mati.

Hér liggur frammi mjög góð skýrsla um störf umboðsmanns Alþingis árið 2000. Það kemur fram að fjölmörg mál hafa verið afgreidd. Þeir sem eiga rétt á þjónustu, ef við getum kallað það svo, skrifstofu umboðsmanns Alþingis eru hverjir þeir sem telja að þeir hafi verið beittir rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fæst við stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga, eða af hálfu einkaaðila sem að lögum hefur fengið vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þetta segir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um störf umboðsmanns Alþingis.

Í skýrslunni kemur fram, eins og hér hefur verið nefnt, að samtals voru 253 mál tekin til afgreiðslu árið 2000. Af þeim voru 83 mál þar sem fallið var frá kvörtun eða kvörtun gaf ekki tilefni til frekari meðferðar að lokinni frumathugun, en önnur mál voru afgreidd. Þess vegna skilaði umboðsmaður áliti í 60 málum. Fram komu ábendingar um að leggja réttarágreining fyrir dómi í fimm tilvikum. 35 mál voru felld niður að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds, eins og fram kemur í skýrslu umboðsmanns sem hér er til umræðu. En einnig voru nokkur mál sem fóru í annan farveg vegna þess að þau féllu utan starfssviðs umboðsmanns.

Það segir í 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann Alþingis frá 1997, með leyfi forseta, að starfssvið umboðsmanns nái ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Umboðsmanni er því óheimilt að hafa afskipti af störfum Alþingis og stjórnsýslu í þágu þingsins, sem háð er eftirliti þingforseta. Í þessu felst einnig að umboðsmanni er óheimilt að hafa afskipti af störfum Ríkisendurskoðunar og störfum nefnda sem Alþingi kýs og skila eiga Alþingi skýrslu til umfjöllunar.

Ég vek athygli á þessu í framhaldi af þeirri umræðu sem verið hefur hér undir þessum lið, en nokkrir þingmenn hafa látið í ljós óánægju sína með túlkun forseta Alþingis á bréfi frá forsrn. eða starfsmanni þar. Ég ætla ekki að gera það að neinu umtalsefni en vek athygli á því að hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis. Við erum ekki að ræða eftirlitshlutverk Alþingis sem slíks, þó svo umboðsmaður Alþingis starfi í þágu Alþingis, enda er það Alþingi sem kýs umboðsmann Alþingis.

Hið stóra réttlætismál, ef við getum sagt sem svo, og hlutverk umboðsmanns er að með stofnun þessa embættis gefst þegnunum betra tækifæri til að koma umkvörtunum á framfæri með ódýrari og skjótvirkari hætti en með því að geta einungis leitað til dómstóla. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt hlutverk og fagna því að umboðsmaður hefur þau ár sem hann hefur starfað sent frá sér vönduð álit sem hafa verið mjög mikil réttarbót.

Ég vara við því, sem stundum hefur borið á þegar stjórnvöld hafa fengið á sig álit sem þeim líkar ekki af einhverjum orsökum, að dregið sé úr trausti og trúverðugleika slíkra álita. Ég tel að slíkur málflutningur stjórnvalda grafi óbeint undan virðingu fólks fyrir lögum. Það á ekki að tala um lög eins og þau séu einungis einhvers konar vegaskilti sem skipti ekki máli. Þegar menn segja lagatúlkanir og lögfræðiálit bara vera enn eina skoðunina, þá held ég að fólk sé komið á villigötur, sérstaklega þeir sem starfa í umboði Alþingis þar sem lög landsins eru sett.

Forsendur réttarríkisins eru að til staðar séu skýrar reglur sem settar eru með lýðræðislegum hætti. Og það verður að vera til staðar virðing fyrir reglum. Allir þeir sem starfa í umboði Alþingis og stjórnvalda verða að viðurkenna og haga störfum sínum þannig að þessari virðingu sé viðhaldið. Í þessu felst einnig að það verður að vera eðlileg eftirfylgni sem tryggi að eftir þessum reglum sé farið. Jafnframt er það mjög mikilvæg forsenda réttarríkisins að því sé stöðugt haldið til haga að allir eru jafnir fyrir lögum. Nauðsynlegt er að almenningur sem og stjórnvöld átti sig á því að forsenda lýðræðisins er sú að allir séu jafnir fyrir lögunum.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera mikið lengra mál úr þessu. Ég verð þó að draga í efa að það sé rétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði hér fyrr þegar hann varpaði því fram fyrir þingheim, þ.e. að frá því að Davíð Oddsson hefði tekið við starfi forsrh. hefði stjórnsýslan farið á verri veg og að umboðsmaður Alþingis ætti mjög örðugt með að starfa. Hann gaf jafnframt í skyn að umboðsmaður Alþingis ætti örðugt með að fá svör hjá stjórnvöldum og þar með væri umboðsmanni torveldað að sinna starfi sínu.

Í skýrslu umboðsmanns kemur ekki fram ein einasta vísbending um að svo sé, að umboðsmanni hafi verið neitað um upplýsingar, enda hefur hann tæki til þess að ganga á eftir upplýsingum. Mér virðist tal hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vinna í sömu átt og þær efasemdarraddir sem stundum heyrast frá stjórnvöldum, þar sem gert er lítið úr störfum og áliti umboðsmanns Alþingis. Mér finnst að slíkt tal vinni fremur að því að grafa undan trausti á störfum umboðsmanns, þingsins og lögum almennt.