Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:59:38 (2349)

2001-12-03 18:59:38# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. 1. þm. Norðurl. e. mjög vel, að reyna sífellt að fara með umræðuna úr þeim farvegi sem hún hefur verið í og koma henni í annan farveg, því að hann hefur ekki riðið feitum hesti frá þessari umræðu.

En aðeins um þetta, virðulegi forseti. Þeir þingmenn sem hér hafa talað hafa allir talað um embætti umboðsmanns Alþingis, hafa allir talað um skýrsluna, hafa allir hælt þessu embætti og talið að það væri mjög mikilvægt að það héldi störfum sínum áfram. Hins vegar hafa menn einnig bent á það hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram við þingið. Menn hafa dregið þær ályktanir af því að það kunni að verða erfitt fyrir umboðsmann að sinna starfi sínu áfram ef sá úrskurður sem hæstv. forseti felldi fyrr í dag verður meginregla eða stoð í því þegar framkvæmdarvaldið vill ekki láta umboðsmann Alþingis hafa upplýsingar. Af þessu höfum við miklar áhyggjur, virðulegi forseti, og því er mjög eðlilegt, ég tek undir með forseta eins og hann hefur sinnt stjórn fundarins í dag, að umræðan hafi farið fram með þeim hætti sem hún gerði í dag. Ég mótmæli harðlega fullyrðingum hv. 1. þm. Norðurl. e.