Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 203  —  192. mál.
Tillaga til þingsályktunarum könnun á sjóðandi lághitasvæðum.

Flm.: Örlygur Hnefill Jónsson, Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir,


Kristján L. Möller, Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson,


Einar Már Sigurðarson, Karl V. Matthíasson.    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að beita sér fyrir samvinnu við sveitarfélög og Byggðastofnun um könnun á svæðum með sjóðandi lághita. Rannsóknirnar beinist að því að finna ný sjóðandi lághitasvæði en einnig skal bent á leiðir til að nýta betur orku þegar þekktra svæða í krafti nýrrar tækni.

Greinargerð.


    Sjóðandi lághitasvæði eru svæði þar sem finna má vatn sem er yfir suðumarki en undir 200°C. Stakar rannsóknir hafa verið gerðar í tengslum við boranir á mörgum lághitasvæðum en aldrei hefur verið kannað kerfisbundið hversu mikinn sjóðandi lághita mætti vinna utan þekktra lághitasvæða. Hingað til hafa slík svæði einkum verið virkjuð til hefðbundinnar upphitunar húsa og ylræktar. Ný hitaveitutækni gerir hins vegar kleift að framleiða raforku á slíkum svæðum. Þessi nýja tækni gjörbreytir því möguleikum Íslendinga á að nýta sjóðandi lághitasvæði og er tímabært að kanna möguleika hennar til þrautar.

Vannýtt auðlind.
    Besta dæmið um hvernig ný hitaveitutækni skapar alveg nýja möguleika til að nýta sjóðandi lághita er að finna í heimabæ fyrsta flutningsmanns, Húsavík. Fullyrða má að Orkuveita Húsavíkur hafi verið í fararbroddi við nýtingu sjóðandi lághitasvæða. Á hennar vegum eru nú framleidd tæp 2 MW af raforku úr sjóðandi lághita og annar það um 75% af raforkuþörf bæjarins. Lághitasvæðið sem orkan er unnin úr var áður einungis nýtt til hefðbundinnar hitunar. Þetta er gjörbreyting á orkuhögum Húsvíkinga og telja flutningsmenn unnt að endurtaka slíkt víða þar sem byggðarlög hafa aðgang að varmabirgðum af þessu tagi. Því má fullyrða að sjóðandi lághitasvæði séu verulega vannýtt auðlind.
    Flutningsmenn telja tímabært að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að leita markvisst að nýjum svæðum, bæði á yfirborði jarðar og í jörðu, sem skilgreina má sem sjóðandi lághitasvæði. Eins og horfur eru nú í atvinnulífi landsmanna er brýnt að ýta undir alla nýsköpun, ekki síst á sviði iðnaðar. Raforkuvinnsla á sjóðandi lághitasvæðum getur orðið veruleg lyftistöng undir sköpun nýrra verðmæta, skapað ný störf og þar með aukið fjölbreytni í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga. Þess vegna leggja flutningsmenn til að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir samstarfi við sveitarfélög, ekki aðeins um leit að nýjum svæðum með sjóðandi lághita heldur einnig til að kanna hvernig megi nýta nýja tækni til að afla meiri verðmæta á svæðum sem þegar eru þekkt. Ekki er að efa að slíku frumkvæði ríkisins yrði ákaflega vel tekið af sveitarfélögum þar sem vitað er um sjóðandi lághitasvæði eða þar sem jarðfræðilegar aðstæður benda til að þau megi finna.

Gríðarlegur varmaforði.
    Sjóðandi lághitasvæða er helst að vænta á jöðrum gosbeltanna, en einnig á nokkrum öðrum svæðum. Þau sem þekkt eru í dag eru flest á yfirborði jarðar, en þau geta einnig verið djúpt í jörðu. Rannsóknir á hitastigi ásamt borunum þarf því til að staðsetja þau og síðar nýta. Á síðasta orkuþingi kom fram í erindi dr. Sveinbjörns Björnssonar, yfirmanns auðlindadeildar Orkustofnunar, að varmaforði svæða af þessum toga er dreifður yfir næstum þriðjung landsins, eða 30 þúsund ferkílómetra samtals. Vegna þess hve víða hann finnst er hann álitinn miklu meiri en varmaforði háhitasvæðanna, sem Íslendingar hafa hingað til álitið eina af gullkistum framtíðarinnar. Dr. Sveinbjörn sagði að tæknilega vinnanlegur varmaforði sjóðandi lághitasvæða væri að líkindum tífalt meiri en forði háhitasvæðanna.

Álitleg svæði og nýtingarleiðir.
    Mjög álitleg svæði bíða rannsókna á Suðurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi. Á Suðurlandi ber einkum að nefna Selvog, Ölfus, Grímsnes, Biskupstungur og Hreppa. Á Norðurlandi er ákaflega vænleg svæði að finna við Öxarfjörð, Kelduhverfi, Aðaldal og Reykjadal, en á Vesturlandi er það hinn þekkti Reykholtsdalur sem helst má nefna, en einnig Hvítársíða og miðbik Snæfellsness.
    Sjóðandi lághiti hefur, eins og þegar er lýst, fyrst og fremst verið notaður til að hita upp hús og í ylrækt. Tækniþróun hefur hins vegar gjörbreytt nýtingarmöguleikunum þannig að hægt er að nota gufu sjóðandi lághitasvæða til raforkuframleiðslu, hitarafspennu, suðu, þurrkunar matvæla, vinnslu byggingarefna, eins og Húsvíkingar hafa beitt sér fyrir, auk lýsingar í gróðurhúsum. Í flestum tilvikum fæst svo mikil orka þegar sjóðandi lághiti er virkjaður að hún er langtum meiri en einstaklingar í rekstri þurfa á að halda. Dr. Sveinbjörn lauk erindi sínu á orkuþingi með eftirfarandi ábendingu: „Nýtingin verður því best ef samvinna tekst milli margra aðila eða henni er stýrt af fyrirtæki sem dreifir orkunni til margra kaupenda.“