Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 229  —  204. mál.
Frumvarp til lagaum atvinnuréttindi útlendinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


Gildissvið.


    Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi, þó með þeim undantekningum sem koma fram í III. kafla laganna.
    Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum.

2. gr.


Tilgangur.


    Lögin gefa heimild til að veita atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
    Lögunum er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni og kveða á um rétt útlendinga til atvinnu hér á landi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.

3. gr.


Orðskýringar.


    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Atvinnuleyfi: Leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til að starfa hér á landi eða atvinnurekanda til að ráða útlending í starf.
     2.      Tímabundið atvinnuleyfi: Tímabundið leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.
     3.      Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna: Tímabundið leyfi veitt útlendingi vegna sérhæfðra verkefna.
     4.      Óbundið atvinnuleyfi: Ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.
     5.      Atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar: Atvinnuleyfi erlendra námsmanna í íslenskum skólum eða vegna samninga um vistráðningu á heimili.
     6.      Atvinnurekandi: Einstaklingur eða fyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
     7.      Búsetuleyfi: Leyfi sem gefið er út með varanlega dvöl í huga samkvæmt lögum um útlendinga.
     8.      Útlendingur: Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.

4. gr.


Framkvæmd laganna.


    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.
    Vinnumálastofnun fer í umboði ráðherra með framkvæmd laganna.

II. KAFLI


Atvinnuleyfi.


5. gr.


Almennt.


    Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
    Leyfi samkvæmt lögum þessum er heimilt að binda skilyrðum öðrum en þeim er koma fram í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynleg vegna mikilvægra almannahagsmuna.
    Vinnumálastofnun skal gefa út atvinnuleyfi samkvæmt nánari ákvæðum sem sett skulu í reglugerð.

6. gr.


    Óheimilt er að veita útlendingi atvinnuleyfi sem dvelst hér á landi án dvalarleyfis eða sem hefur verið gert að fara af landi brott samkvæmt lögum um útlendinga. Sé þessu skilyrði ekki fullnægt og útlendingurinn dvelst í landinu á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis samkvæmt lögum um útlendinga má veita honum tímabundið atvinnuleyfi að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr.
    Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis.
    Útlendingi er óheimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum þessum.

7. gr.


Tímabundið atvinnuleyfi.


    Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
     a.      Að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu. Áður en atvinnuleyfi er veitt ber atvinnurekanda að hafa leitað til svæðisvinnumiðlunar eftir vinnuafli, nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati Vinnumálastofnunar.
     b.      Að fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands. Umsögn skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnuleyfi. Þó er heimilt í sérstökum tilvikum að víkja frá þessu skilyrði þegar ekki er til að dreifa stéttarfélagi eða landssambandi í hlutaðeigandi starfsgrein.
     c.      Að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
     d.      Að atvinnurekandi sjúkratryggi erlendan starfsmann þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga.
     e.      Að atvinnurekandi ábyrgist greiðslu á heimflutningi starfsmanns að starfstíma loknum ef starfsmaður verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa og ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á. Í ráðningarsamningi komi fram til hvaða lands heimflutningur nær.
     f.      Að lagt hafi verið fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
    Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna nánustu aðstandenda útlendings sem fengið hefur búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi. Skilyrði er að áður hafi verið veitt dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Við veitingu leyfis samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að víkja frá skilyrðum a- og e-liðar 1. mgr.
    Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna útlendings, sem sótt hefur um hæli, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina, svo og vegna útlendings, sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísun kemur til framkvæmda, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Skilyrði er að áður hafi útlendingi verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Við veitingu leyfis samkvæmt þessari málsgrein er heimilt að víkja frá skilyrðum a-, b- og e-liðar 1. mgr.
    Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um tímabundin atvinnuleyfi.

8. gr.


    Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, einnig ef skilyrði skv. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. eru fyrir hendi.
    Atvinnuleyfi sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að framlengja það um allt að tvö ár í senn, enda séu uppfyllt skilyrði sem fram koma í a–c-liðum 1. mgr. 7. gr.
    Hafi ríki gert samning við Ísland um atvinnuréttindi er heimilt að veita útlendingi frá því ríki atvinnuleyfi til lengri tíma en greinir í 2. mgr. Hið sama gildir ef ríki er aðili að alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem Ísland hefur fullgilt.

9. gr.


Íslenskukennsla og samfélagsfræðsla.


    Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.

10. gr.


Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna.


    Heimilt er við sérstakar aðstæður að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi, að uppfylltum skilyrðum c–f-liðar 1. mgr. 7. gr.
    Þjónustusamningur við fyrirtæki hér á landi skal liggja fyrir. Í samningnum skal m.a. koma fram að skilyrði viðskiptanna sé að starfsmaður hins erlenda fyrirtækis annist þjónustuna.
    Leyfi samkvæmt þessari grein skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings.
    Atvinnuleyfi veitt samkvæmt þessari grein skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur til landsins.

11. gr.


Óbundið atvinnuleyfi.


    Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
     a.      að hann hafi átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár,
     b.      að hann hafi öðlast búsetuleyfi á Íslandi samkvæmt lögum um útlendinga,
     c.      að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr.
    Víkja má frá skilyrðum 1. mgr. ef um er að ræða erlendan maka Íslendings sem undanþeginn er kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt síðari málslið a-liðar 14. gr. við skilnað eða andlát maka. Þegar um skilnað er að ræða þarf hjúskapur eða sambúð að hafa varað í a.m.k. tvö ár og erlendur maki Íslendings þarf að eiga og hafa átt samfellt lögheimili hér á landi í a.m.k. tvö ár. Einnig má víkja frá skilyrðum 1. mgr. ef um er að ræða maka útlendings með óbundið atvinnuleyfi hér á landi eða uppkomin börn hans.
    Með maka er átt við fólk í hjúskap og í skráðri sambúð hér á landi og hafi hjúskapur eða skráð sambúð varað í a.m.k. tvö ár, sbr. 2. mgr.
    Víkja má frá skilyrði c-liðar ef um er að ræða útlending sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið því.
    Heimilt er að veita útlendingi, sem hefur fengið landvist hér á landi sem flóttamaður, atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein.
    Leyfi samkvæmt þessari grein gildir meðan útlendingur hefur fasta búsetu hérlendis.

12. gr.


Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.


    Heimilt er að veita útlendingi, sem stundar fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu sem hluta af námi, með námi eða í námsleyfum, enda sé námsframvinda eðlileg.
    Skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt þessari grein er framvísun innritunarvottorðs hlutaðeigandi skóla. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að framlengja atvinnuleyfi vegna námsdvalar gegn innritunarvottorði og vottorði um námsframvindu.
    Skilyrði þess að atvinnuleyfi sé veitt á grundvelli þessarar greinar er að útlendingur hafi lagt fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
    Í reglugerð skal kveðið nánar um atvinnuleyfi vegna námsdvalar, þ.m.t. hámarksvinnustundafjölda.

13. gr.


Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.


    Heimilt er að veita leyfi til að ráða útlending á aldrinum 18–26 ára í vist á íslenskt heimili.
    Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur milli aðila þar sem fram kemur m.a. gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími, réttur til að stunda nám og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar. Fæði og húsnæði skal vera ókeypis.
    Skilyrði þess að atvinnuleyfi sé veitt á grundvelli þessarar greinar er að útlendingur hafi lagt fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
    Óheimilt er að veita leyfi til ráðningar sama einstaklings skv. 1. mgr. til lengri tíma en eins árs.
    Vinnumálastofnun skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Á eyðublaðið skal prenta upplýsingar um ábyrgð þess sem ræður til sín útlending í vist, m.a. í sambandi við sjúkra- og slysatryggingar og önnur hlunnindi.
    Vinnumálastofnun skal ákveða upphæð vasapeninga sem greiða skal útlendingi sem ráðinn hefur verið í vist skv. 1. mgr.
    Vinnumálastofnun er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki alla milligöngu og eftirlit með ráðningum skv. 1. mgr.
    Nánar skal kveða á um skilyrði þessa ákvæðis í reglugerð.

III. KAFLI


Undanþáguákvæði.


14. gr.


    Eftirtaldir eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi:
     a.      Útlendingar sem falla undir reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Sama gildir um erlendan maka íslensks ríkisborgara og börn hans að 18 ára aldri.
     b.      Útlendingar sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt.
     c.      Útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.

15. gr.


    Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
     a.      Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
     b.      Listamenn, að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. Undanþága samkvæmt þessum lið tekur ekki til dansara sem koma fram á næturklúbbum, sbr. i-lið 9. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, sbr. lög nr. 66/2000.
     c.      Íþróttaþjálfarar.
     d.      Fulltrúar í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis.
     e.      Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki, enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
     f.      Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
     g.      Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.
    Ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI


Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.


16. gr.


Afturköllun.


    Vinnumálastofnun er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi ef útlendingur eða atvinnurekandi hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

17. gr.


Viðurlög.


    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Dæma má lögaðila jafnt sem einstaklinga til greiðslu sekta vegna brota á lögum þessum. Um refsiábyrgð lögaðila fer samkvæmt II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta opinberri meðferð.

18. gr.


Heimflutningur.


    Hafi einhver hlutast til um að útlendingur, sem hefur verið synjað um atvinnuleyfi eða hefur ekki sótt um atvinnuleyfi, flytjist til landsins til að taka hann í þjónustu sína ber honum að sjá um heimflutning hans innan þess tíma sem Vinnumálastofnun tiltekur, ríkissjóði að kostnaðarlausu.

V. KAFLI


Samráð Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.


19. gr.


Samráðsnefnd.


    Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun skulu koma á fót sérstakri samráðsnefnd vegna framkvæmdar laga þessara.
    Samráðsnefndin skal skipuð fjórum mönnum og skipar hvor stofnunin tvo menn í nefndina. Skipunartími nefndarinnar er tvö ár. Samráðsnefndin velur formann úr hópi nefndarmanna. Skal formaður annast boðun funda og stjórn þeirra.

20. gr.


    Vinnumálastofnun skal tilkynna allar atvinnuleyfisveitingar og synjanir til Útlendingastofnunar.
    Útlendingastofnun skal í samráði við Vinnumálastofnun gefa út skírteini þar sem m.a. komi fram upplýsingar um dvalarleyfi og réttindi útlendingsins til að stunda vinnu á Íslandi. Þar skulu einnig vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinið. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess.

VI. KAFLI


Málsmeðferð.


21. gr.


Almennar reglur um málsmeðferð.


    Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum þessum.

22. gr.


Málshraði.


    Vinnumálastofnun skal taka ákvörðun um hvort orðið er við umsókn um atvinnuleyfi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsókn berst.
    Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýst um ástæðu tafanna og hvenær ákvörðunar er að vænta.

23. gr.


Leiðbeiningarskylda.


    Í máli er varðar synjun eða afturköllun atvinnuleyfis skal stjórnvald leiðbeina útlendingi um kæruheimild skv. 24. gr. laganna.

24. gr.


Kæruheimild.


    Ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfis má kæra til félagsmálaráðuneytis.
    Nú vill umsækjandi nýta sér kæruheimild og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslukæru.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði og gildistaka.


25. gr.


Samstarfsnefnd.


    Félagsmálaráðherra skal skipa samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Samstarfsnefndin skal kölluð saman:
     a.      vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa,
     b.      þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga.

26. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 133/1994, um atvinnuréttindi útlendinga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í lok árs 1999. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og dómsmálaráðuneyti. Nefndinni var falið að endurskoða núgildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögunum.
    Í frumvarpinu er að finna reglur um rétt útlendinga hér á landi til atvinnu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frumvarpinu er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni.
    Frá gildistöku núgildandi laga hafa orðið miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði. Eftirspurn eftir erlendu vinnuafli hefur stóraukist síðustu ár og má rekja það til mikillar þenslu á vinnumarkaði. Þá hefur orðið sú breyting að þeir útlendingar sem hingað koma til vinnu dvelja hér lengur en áður var og reynir því oftar á rétt fjölskyldu þeirra til dvalar og atvinnu í landinu.
    Í störfum nefndarinnar hefur sérstaklega verið litið til framkvæmdar núgildandi laga m.a. með tilkomu Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana þar sem félagsmálaráðherra hefur falið Vinnumálastofnun að hafa með höndum veitingu atvinnuleyfa. Með frumvarpinu er m.a. verið að festa þessa framkvæmd í sessi.
    Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa féllu núgildandi lög í mörgu tilliti illa að aðstæðum í íslensku samfélagi. Í frumvarpinu hefur einnig verið tekið tillit til þeirrar almennu þróunar sem orðið hefur á löggjöf á sviði stjórnsýsluréttar, mannréttinda og í alþjóðlegu samstarfi.
    Endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur tekið nokkurt mið af frumvarpi til laga um útlendinga. Það á m.a. við um hugtakanotkun. Leitast hefur verið við að hafa samræmi á þessu sviði eins og unnt er. Dvalarleyfi og atvinnuleyfi eru nátengd, þannig að nauðsynlegt var að taka tillit til framangreinds frumvarps. Þá er í frumvarpinu kveðið á um samstarf Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar. Eins er að finna ákvæði um útgáfu skírteinis vegna dvalar og atvinnuleyfis sem Útlendingastofnun skuli annast útgáfu á, enda er það til samræmis við núgildandi vinnulag þar sem slík útgáfa er í höndum útlendingaeftirlits samkvæmt samkomulagi Vinnumálastofnunar og útlendingaeftirlits.
    Ákvæði um brottvísun í núgildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga er fellt út, enda er um brottvísun fjallað í 20. gr. frumvarps til laga um útlendinga, en forsenda dvalarleyfis vegna atvinnu er m.a. vissan um að atvinnuleyfi fáist.

II. Helstu nýmæli frumvarpsins.


    Kaflaskipan frumvarpsins er með nokkuð öðrum hætti en í núgildandi lögum. Frumvarpið skiptist í eftirfarandi kafla:
     I.      Almenn ákvæði.
     II.      Atvinnuleyfi.
     III.      Undanþáguákvæði.
     IV.      Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.
     V.      Samráð Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.
     VI.      Málsmeðferð.
     VII.      Ýmis ákvæði og gildistaka.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna.
     2.      Heimilt er að víkja frá skilyrði um umsögn stéttarfélags þegar ekki er til að dreifa stéttarfélagi eða landssambandi í hlutaðeigandi starfsgrein.
     3.      Atvinnurekandi skal samkvæmt frumvarpinu sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn þar til hann nýtur verndar samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga.
     4.      Atvinnurekandi skal undir sérstökum kringumstæðum ábyrgjast greiðslu vegna heimflutnings starfsmanns.
     5.      Framkvæmd vegna útgáfu heilbrigðisvottorða verði breytt þannig að tekin verða gild erlend vottorð ef þau eru fullnægjandi samkvæmt reglugerð á grundvelli laganna og sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
     6.      Í frumvarpinu er heimildarákvæði um að veita nánustu aðstandendum útlendings tímabundið atvinnuleyfi, enda hafi hann fengið búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi.
     7.      Í frumvarpinu er heimildarákvæði um að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna útlendings, sem sótt hefur um hæli, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina, svo og vegna útlendings, sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísunin kemur til framkvæmda.
     8.      Með frumvarpinu er, ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til starfa hér á landi.
     9.      Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu.
     10.      Í frumvarpinu er heimild til að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða skilnað útlendings sem hefur verið giftur Íslendingi í a.m.k. tvö ár, enda hafi viðkomandi átt samfellt lögheimili á landinu í a.m.k. tvö ár.
     11.      Í frumvarpinu er heimilt að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða andlát íslensks maka útlendings.
     12.      Frumvarpið kveður einnig á um að víkja megi frá því skilyrði við veitingu óbundins atvinnuleyfis að þegar liggi fyrir tímabundið atvinnuleyfi, ef um er að ræða útlending sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið námi.
     13.      Í frumvarpinu eru skilyrði afturköllunar atvinnuleyfis tilgreind.
     14.      Í frumvarpinu er kveðið á um samráðsnefnd Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.
     15.      Í frumvarpinu er nýr kafli um málsmeðferð þar sem koma fram helstu meginreglur um málsmeðferðina og kæruheimild.
     16.      Lagt er til að skipuð verði samstarfsnefnd sem taki á almennum álitamálum varðandi útgáfu atvinnuleyfa og fjalli um beiðnir sem berast til Vinnumálastofnunar vegna atvinnuleyfa fyrir hópa.
     17.      Í a-lið 11. gr. er lagt til að útlendingur þurfi að hafa átt lögheimili og dvalið samfellt hér á landi í þrjú ár til að fá óbundið atvinnuleyfi.
     18.      Skilgreining á hugtakinu maki er í 11. gr. frumvarpsins.
     19.      Heimilt er að víkja frá skilyrðum fyrir veitingu óbundins atvinnuleyfis ef um er að ræða maka útlendings sem er með óbundið atvinnuleyfi hér á landi eða uppkomin börn hans.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er fjallað um gildissvið laganna. Ákvæðum laganna er ætlað að gilda um heimild útlendinga til að stunda atvinnu hér á landi. Í 1. mgr. kemur fram að ákvæðunum er ætlað að gilda um útlendinga, en útlendingur telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952.
    Með 2. mgr. er lögð áhersla á að íslenskir ríkisborgarar geti einnig borið skyldur samkvæmt lögunum. Þar eru einkum hafðir í huga íslenskir atvinnurekendur sem sækja um atvinnuleyfi fyrir útlending.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er tilgangi laganna lýst. Í 1. mgr. segir að í lögunum sé heimild til að veita útlendingum atvinnuleyfi hér á landi. Stjórnvöldum er nauðsyn að hafa stjórn á og eftirlit með þeim útlendingum sem stunda atvinnu hér á landi. Skal þetta gert í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni. Stefna stjórnvalda kemur m.a. fram í þeim reglum sem settar verða á grundvelli laganna. Stefnan getur til dæmis varðað takmarkanir með hliðsjón af vinnuaflsþörf í landinu á hverjum tíma.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögunum ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem falla undir þau. Þannig eru í VI. kafla reglur um málsmeðferð sem meðal annars kveða á um leiðbeiningarskyldu, kæruheimild o.fl.

Um 3. gr.


    Greinin er samhljóða 2. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að fellt verði úr lögunum atvinnuleyfi til bráðabirgða, sbr. 2. og 12. gr. laganna, og atvinnurekstrarleyfi, sbr. 2. og 9. gr. laganna. Þá er nýtt ákvæði um atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna.
    Ákvæði um atvinnuleyfi til bráðabirgða var einnig í fyrri lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982. Það var sérstaklega hugsað til að koma til móts við atvinnurekendur sem þurftu af sérstökum ástæðum og með litlum fyrirvara að ráða til sín hópa útlendinga. Lítið sem ekkert hefur reynt á þetta ákvæði. Þegar hingað hafa komið hópar útlendinga sem þurft hafa atvinnuleyfi hefur reynst mögulegt að afgreiða erindið með útgáfu tímabundins atvinnuleyfis á nafn hvers og eins.
    Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi eða atvinnuréttarleyfi eins og það var kallað kom inn í lög með lögum nr. 26/1982. Ákvæðið var fellt úr lögum með lögum nr. 69/1993 vegna notkunarleysis. Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi voru svo tekin upp í núgildandi lög, en ástæður þess voru tvíþættar. Talið var óeðlilegt að útlendingur sem hygðist stofna til rekstrar hér á landi ætti greiðari aðgang að atvinnulífi og vinnumarkaði en þeir sem réðu sig til almennra starfa. Enn fremur var það talið nauðsynlegt til að auðvelda eftirlitsaðilum, fyrst og fremst útlendingaeftirlitinu, að rækja lögbundið eftirlitsstarf. Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um atvinnurekstrarleyfi verði lögð niður á nýjan leik. Ástæður eru fyrst og fremst notkunarleysi sem fyrr, lítið hefur reynt á ákvæði þetta og hefur það jafnframt valdið nokkrum vanda í framkvæmd þar sem lítið er um viðmiðunarreglur sem hins vegar er að finna þegar kemur að útgáfu atvinnuleyfa. Þannig veita atvinnurekstrarleyfi í þeirri mynd sem þau eru í dag enga frekari möguleika á eftirliti umfram það sem útgáfa atvinnu- og dvalarleyfa gerir. Enn fremur má segja að þau rök sem haldið var fram þegar ákvæðið var tekið upp í lög um greiðari aðgang erlendra aðila sem hyggjast stunda sjálfstæðan atvinnurekstur eigi ekki við. Með því að ólíkar reglur gildi um sjálfstæðan atvinnurekstur og almenna launþega má miklu frekar segja að um mismunun sé að ræða. Eðlilegra er að fella niður sérstakt ákvæði um atvinnurekstrarleyfi þannig að ákvæði um atvinnuleyfi, auk reglna um dvalarleyfi, gildi með sama hætti um sjálfstæða atvinnurekendur og almenna launþega. Þannig mundi hlutafélag eða einkahlutafélag sem stofnað er af erlendum aðila búsettum hér á landi, að uppfylltum skilyrðum laga, sækja um atvinnuleyfi fyrir hönd hins erlenda starfsmanns með sama hætti og innlendir atvinnurekendur gera. Enn fremur er rétt að hafa í huga að í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög er að finna reglur um rétt erlendra aðila til stofnunar hlutafélaga hér á landi, en með þeim kröfum má segja að felist ákveðið eftirlit með stofnun slíks atvinnurekstrar. Niðurfelling atvinnurekstrarleyfa á auk þess ekki að hafa áhrif á útlendingaeftirlit þar sem erlendur aðili sem hyggst stofna til sjálfstæðs rekstrar verður eftir sem áður að uppfylla skilyrði laga um dvalarleyfi ásamt skilyrðum laga um atvinnuleyfi.
    Með örfáum undantekningum gera innlend lög á sviði fjárfestinga- og atvinnurekstrar ráð fyrir því að erlendur aðili sem hefur fasta búsetu hérlendis skuli njóta sömu réttinda og innlendur aðili með fasta búsetu. Einnig er rétt að benda á að þróun tvíhliða og fjölþjóðlegra samninga á þessu sviði gengur í sömu átt. Hafa Íslendingar m.a. verið talsmenn þessa á alþjóðavettvangi. Það er í samræmi við þessar áherslur að erlendum aðilum verði veitt landskjararéttindi (e. national treatment) eins og afnám sérstaks atvinnurekstrarleyfis væri.
    Um atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna er fjallað í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Í greininni er tekið fram hverjir skuli annast framkvæmd laganna. Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur nánari reglur um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. verður framkvæmd laganna að öðru leyti í höndum Vinnumálastofnunar.

Um 5. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru óbreytt frá 6. gr. núgildandi laga. Ákvæði 3. mgr. greinarinnar er nýmæli en með því er Vinnumálastofnun gert að gefa út atvinnuleyfi samkvæmt nánari ákvæðum þar um í reglugerð. Er þessi tilhögun í samræmi við framkvæmd á útgáfu atvinnuleyfa eins og hún er nú.

Um 6. gr.


    Ákvæði 3. mgr. greinarinnar er breytt frá núgildandi lögum til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að fella úr lögum sérstakt ákvæði um atvinnurekstrarleyfi, sbr. athugasemd við 3. gr. frumvarpsins. Einnig eru viðbætur við 1. mgr. þar sem mögulegt er að fá tímabundið atvinnuleyfi ef bráðabirgðadvalaraleyfi liggur fyrir samkvæmt lögum um útlendinga. Aðrar málsgreinar þessarar greinar eru óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum. Ákvæði 2. mgr. er samhljóða ákvæði 5. gr. núgildandi laga og 3. mgr. er fyrri málsliður 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga.

Um 7. gr.


    Greinin fjallar um skilyrði þess að veita megi tímabundið atvinnuleyfi.
    Fyrri málsliður a-liðar 1. mgr. er óbreyttur frá núgildandi lögum. Við greinina bætist hins vegar nýr málsliður þess efnis að atvinnurekandi skuli hafa leitað til svæðisvinnumiðlunar eftir vinnuafli, nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati Vinnumálastofnunar. Ákvæðið kemur í stað 4. mgr. 7. gr. núgildandi laga, en með lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997, var svæðisvinnumiðlunum m.a. falið að annast skráningu atvinnulausra, miðla upplýsingum um atvinnuástand og atvinnuleysi og atvinnuhorfur.
    Tveir fyrstu málsliðir b-liðar eru óbreyttir en við stafliðinn bætist málsliður sem heimilar í sérstökum tilvikum að vikið sé frá skilyrðinu. Ber að túlka þá heimild þröngt, enda þykir mikilvægt að fengin sé slík umsögn sem um ræðir í greininni. Þau tilvik sem gætu fallið undir undanþáguna hér eru m.a. leyfi vegna íþróttamanna, þjálfara og stjórnenda.
    Ákvæði c-liðar er óbreytt frá fyrri málslið c-liðar 7. gr. núgildandi laga. Seinni málsliður þeirrar greinar er felldur niður en inn kemur nýr liður, e-liður, þar sem kveðið er á um ábyrgð atvinnurekanda á greiðslu heimflutnings erlends starfsmanns. Ákvæðið er lögfesting á núverandi framkvæmd laganna og felur í sér að atvinnurekandi sem fær leyfi til að ráða erlendan starfsmann til landsins beri ábyrgð á því að hann komist til heimalands síns þegar ráðningarsambandi lýkur. Vilji starfsmaður hins vegar ráða sig til annars atvinnurekanda þegar ráðningarsambandi lýkur en áfram á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis þá getur upphaflegur atvinnurekandi samið við nýja atvinnurekandann um að ábyrgjast þennan heimflutning.
    Í d-lið er nýmæli þess efnis að atvinnurekandi skuli sjúkratryggja erlendan starfsmann þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga. Er ákvæðinu fyrst og fremst ætlað að tryggja rétt starfsmannsins meðan biðtími bótaréttar samkvæmt ákvæðum almannatrygginga varir.
    Þá er í f-lið skilyrði að lagt hafi verið fram heilbrigðisvottorð. Er gert ráð fyrir að heimilt verði að leggja fram vottorð frá heimalandi, enda verði sett reglugerð með stoð í lögunum og með stoð í sóttvarnalögum hvaða kröfur eru gerðar til heilbrigðisvottorðs með tilliti til almenns heilbrigðis og sóttvarna við komu til landsins.
    2. mgr. greinarinnar er nýmæli. Ákvæðið heimilar að vikið sé frá almennum vinnumarkaðssjónarmiðum í a-lið þegar um er að ræða nánustu aðstandendur útlendings sem fengið hefur búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi. Er þar vísað til skilgreininga frumvarps til laga um útlendinga á því hverjir geti talist til aðstandenda. Skilyrði er að dvalarleyfi hafi verið veitt samkvæmt ákvæðum þeirra laga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Er einnig heimilt að víkja frá skilyrði um ábyrgð atvinnurekanda á heimflutningi við veitingu atvinnuleyfis samkvæmt þessari grein.
    3. mgr. greinarinnar er nýmæli. Samkvæmt henni er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna útlendings, sem sótt hefur um hæli, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina, svo og vegna útlendings, sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísun kemur til framkvæmda, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Er atvinnuleyfið veitt á grundvelli bráðabirgðadvalarleyfis samkvæmt lögum um útlendinga. Markmiðið með þessu ákvæði er að gefa útlendingum við þessar aðstæður tækifæri til að vinna fyrir sér svo að þeir þurfi ekki að þiggja framfærslu sína frá ríkinu. Með vaxandi fjölda hælisleitenda hér á landi er talið nauðsynlegt að unnt sé að veita einstaklingum tímabundið atvinnuleyfi þegar fengist hefur bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Málsmeðferð í málum hælisleitenda getur tekið allt að 20 mánuði og er óviðunandi að einstaklingar séu á framfæri ríkisins þann tíma. Því er talið nauðsynlegt að þessi möguleiki sé fyrir hendi.

Um 8. gr.


    Ákvæði 1. mgr. greinarinnar er nú í lokamálslið 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Þar er um að ræða ófrávíkjanlega meginreglu um að atvinnuleyfi skuli liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Er hér gerð sú tillaga að heimilað verði að víkja frá þeirri meginreglu, til samræmis við 13. gr. frumvarps til laga um útlendinga, ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi. Er gert ráð fyrir þröngri túlkun ákvæðisins, en með ríkum sanngirnisástæðum er m.a. átt við þá aðstöðu að útlendingur fái veitingu hælis hér á landi eða honum veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í slíkum tilfellum mæla sanngirnisástæður með því að útlendingurinn fái að starfa á Íslandi ef vinnumarkaðssjónarmið koma ekki í veg fyrir það. Einnig er gert ráð fyrir að víkja megi frá meginreglunni ef bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga liggur fyrir.
    Ákvæði 2. mgr. greinarinnar er hliðstætt ákvæði 2. mgr. 7. gr. núgildandi laga og 3. mgr. er samhljóða 5. mgr. 7. gr. núgildandi laga. Er þar til dæmis átt við félagsmálasáttmála Evrópu sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 22. janúar 1976.

Um 9. gr.


    Greinin er nýmæli og samkvæmt henni er atvinnurekendum og stéttarfélagi gert að veita starfsmanni, sem fengið hefur tímabundið atvinnuleyfi, upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, um samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða. Afar mikilvægt er að útlendingar sem hér búa eigi þess kost að læra íslensku og fá kynningu á samfélaginu, réttindum sínum og skyldum. Það er æ algengara að útlendingar ílengist hér, fái framlengt atvinnuleyfi og jafnvel óbundið atvinnuleyfi. Af þessum sökum er sífellt mikilvægara að útlendingar sem hingað koma í atvinnuskyni fái kennslu í íslensku og fræðslu um samfélagið. Greinin kveður þó ekki á um að halda skuli slík námskeið heldur að útlendingur fái upplýsingar um það sem í boði er. Mikilvægt er að útlendingnum sé kunnugt um það svo fljótt sem auðið er eftir að hann hefur komið til landsins og fengið atvinnuleyfi. Því er í frumvarpinu lagt til að upplýsingaskyldan varði útlendingana strax og þeir fá tímabundið leyfi til að starfa hér á landi.

Um 10. gr.


    Greinin er nýmæli og er henni ætlað að taka til þeirra sérstöku aðstæðna þegar fyrirtæki sem ekki hefur starfsstöð hér á landi hefur gert þjónustusamning við innlent fyrirtæki og skilyrði viðskiptanna er að starfsmaður seljanda annist ákveðna þjónustu í tengslum við viðskiptin. Ástæða þótti til að hafa ákvæði sem þetta í frumvarpinu þar sem íslensk fyrirtæki hafa í auknum mæli sóst eftir kaupum á þjónustu sérfræðinga og sérhæfðra starfsmanna erlendis frá í tengslum við nýja tækni eða nýjan búnað.
    Almenn skilyrði c–f-liðar 7. gr. gilda við veitingu atvinnuleyfa samkvæmt þessari grein og telst hið erlenda fyrirtæki atvinnurekandi.
    Í 3. mgr. greinarinnar segir að atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna skuli að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings. Þótti ástæða til að setja slíkt ákvæði í greinina til að koma í veg fyrir að með henni væri opnuð jafngreið eða jafnvel greiðari leið til atvinnuleyfis hér á landi en fæst með tímabundnu atvinnuleyfi skv. 7. gr.
    Ákvæði 4. mgr. greinarinnar er til samræmis við skilyrði í 8. gr. frumvarpsins vegna tímabundins atvinnuleyfis.

Um 11. gr.


    Ákvæði greinarinnar fjallar um óbundið atvinnuleyfi. Sambærilegt ákvæði er í 8. gr. núgildandi laga. Kom það ákvæði í stað þess sem kallað var sjálfstætt atvinnuleyfi í eldri löggjöf og var þar um verulega breytingu að ræða. Með því ákvæði var viðurkennt að útlendingur sem dvalið hefði hérlendis í þrjú ár hefði fest rætur á Íslandi og gæti því sótt um persónubundið atvinnuleyfi sem er óháð skilyrðinu um þörf atvinnuveganna fyrir vinnuafl. Er 1. mgr. ákvæðisins að efni til nánast óbreytt frá fyrra ákvæði, þ.e. að skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að útlendingur hafi átt lögheimili á Íslandi í samfellt þrjú ár og áður hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi. Nýmæli er að gert er að skilyrði að útlendingur hafi dvalið samfellt í landinu. Til samræmis við ákvæði frumvarps til laga um útlendinga er skilyrði að útlendingur hafi öðlast búsetuleyfi í stað ótímabundins dvalarleyfis í núgildandi lögum. Þar er ekki um efnislega breytingu að ræða heldur hugtakanotkun til samræmis við frumvarp til laga um útlendinga.
    Það nýmæli kemur fram í 2. mgr. greinarinnar að heimilt er að víkja frá skilyrði um að áður hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi ef um er ræða erlendan maka Íslendings sem undanþeginn hefur verið kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt síðari málslið a-liðar 14. gr. vegna skilnaðar en skilyrði er að hjúskapur hafi varað í tvö ár. Er þar brugðist við því tilviki að forsenda brestur fyrir dvalarleyfi með rétti til atvinnuþátttöku sem útlendingur öðlast á grundvelli hjúskapar. Á sama hátt er heimilt að veita eftirlifandi maka Íslendings óbundið leyfi en þar er ekki sett skilyrði um lengd hjúskapar.
    Í 3. mgr. er skilgreining á hugtakinu maki.
    Ákvæði 4. mgr. er einnig nýmæli. Þar er á sama hátt og í 2. mgr. heimilað að víkja frá skilyrði um að áður hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða útlending sem hefur lokið þriggja ára námi hérlendis. Var talið óeðlilegt að í slíkum tilfellum þyrfti útlendingur sem hyggst starfa hér á landi að loknu námi að vera bundinn af umsókn atvinnurekanda um tímabundið atvinnuleyfi, enda væri hann með vilja sínum til að dvelja hér áfram að loknu námi að lýsa yfir áhuga sínum á að festa hér rætur, líkt og þeir sem hér hafa dvalið á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis í þrjú ár og sækja um óbundið atvinnuleyfi að því loknu. Einnig er nýmæli að hugtakið maki er skilgreint í ákvæðinu og að maki útlendings sem hefur óbundið atvinnuleyfi hér á landi eða uppkomin börn hans séu undanskilin skilyrðum ákvæðisins varðandi óbundið atvinnuleyfi.

Um 12. gr.


    Í greininni er fjallað um atvinnuleyfi vegna námsdvalar, sbr. 10. gr. núgildandi laga, og er ákvæðið í megindráttum sambærilegt við ákvæði í núgildandi lögum. Þó er nú sett inn skilyrði um að námsframvinda sé eðlileg og hámarksgildistími leyfis styttur úr ári í sex mánuði. Er þar um að ræða þrengri skilyrði en eru í núgildandi lögum, en við framkvæmd þess ákvæðis hefur komið í ljós að skilgreiningar eru of rúmar. Það hefur m.a. leitt til þess að útlendingar hafa jafnvel átt greiðari leið inn á íslenskan vinnumarkað á grundvelli atvinnuleyfis vegna námsdvalar en á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis. Þá er fellt niður skilyrði um umsögn stéttarfélags þegar um er að ræða starf sem er hluti af námi. Skilyrði fyrir framlengingu á atvinnuleyfi námsmanns er að lagt verði fram vottorð um námsframvindu en slíkt skilyrði er ekki að finna í núgildandi lögum.
    Ákvæði 3. mgr. er sambærilegt f-lið 7. gr. frumvarpsins. Er gert ráð fyrir að heimilt verði að leggja fram vottorð frá heimalandi, enda verði sett reglugerð, með stoð í lögunum og með stoð í sóttvarnalögum, um hvaða kröfur eru gerðar til heilbrigðisvottorðs með tilliti til almenns heilbrigðis og sóttvarna við komu til landsins.
    Gert er ráð fyrir að í reglugerð sé kveðið nánar á um atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein, þ.m.t. um hámarksvinnustundafjölda.

Um 13. gr.


    Greinin fjallar um vistráðningu sem í daglegu tali er nefnd „au pair-ráðning“. Greinin byggist á samningi Evrópuráðsins um „au pair-ráðningar“ þar sem slík ráðning er skilgreind sem „tímabundin móttaka fjölskyldna, í skiptum fyrir ákveðna þjónustu, á ungum, erlendum einstaklingum, sem koma til þess að auka tungumálakunnáttu sína og jafnvel faglega þekkingu, jafnframt því að víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn með því að öðlast meiri þekkingu á landi því sem þeir koma til“. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er því um að ræða eins konar menningarskiptasamning sem hvorki fellur undir skilgreiningar um námsmenn né almenna starfsmenn. Er því ekki gert ráð fyrir að sá sem fær vistráðningu geti farið til starfa á almennum vinnumarkaði á gildistíma vistráðningarleyfis.
    Fjallað er um vistráðningar í 12. gr. í núgildandi lögum og eru í þessu frumvarpi gerðar nokkrar breytingar á þeirri grein. Aldursmörkum er breytt úr 17–30 ára í 18–26 ára. Neðri aldursmörkum er breytt til samræmis við lögræðisaldur og til samræmis við þá reynslu sem komin er á ákvæðið í núgildandi lögum er efri aldursmörkum breytt í 26 ár.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt greininni. Nýmæli er að sérstakt ákvæði skal vera í ráðningarsamningi um sjúkra- og slysatryggingar. Í núgildandi lögum er aftur á móti aðeins kveðið á um að gert skuli ráð fyrir slíkum upplýsingum í eyðublaði.
    Ákvæði 3. mgr. er sambærilegt f-lið 7. gr. frumvarpsins. Er gert ráð fyrir að heimilt verði að leggja fram vottorð frá heimalandi, enda verði sett reglugerð, með stoð í lögunum og með stoð í sóttvarnalögum, um hvaða kröfur eru gerðar til heilbrigðisvottorðs með tilliti til almenns heilbrigðis og sóttvarna við komu til landsins. Að öðru leyti eru skilyrði óbreytt frá 1. mgr. 12. gr. núgildandi laga.
    Ákvæði 4. mgr. er óbreytt frá 4. mgr. 11. gr. núgildandi laga.
    Í stað félagsmálaráðuneytis skal Vinnumálastofnun nú gefa út nauðsynleg eyðublöð og ákveða upphæð vasapeninga.
    Í 7. mgr. er nýmæli þess efnis að Vinnumálastofnun er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki alla milligöngu og eftirlit með ráðningum. Í Evrópuráðssamningnum er ákvæði þess efnis að stjórnvöld skuli tilnefna opinbera aðila, eða einkaaðila, til að sjá um málefni er varða vistráðningu. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að félagsmálaráðuneytinu sé heimilt að veita stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum heimild til að hafa milligöngu um vistráðningar. Það ákvæði kemur hins vegar ekki í veg fyrir að einstaklingar sem ekki hafa sérstakt leyfi ráðuneytisins til milligöngu og eftirlits geti verið milligönguaðilar um slíkar ráðningar. Er hér því gert ráð fyrir að einungis umsóknir sem eru tilkomnar fyrir atbeina þess fyrirtækis eða stofnunar sem Vinnumálastofnun hefur falið að hafa milligöngu og eftirlit með ráðningum hljóti afgreiðslu.

Um 14. gr.


    Ákvæði a-liðar er efnislega samhljóða a-lið 13. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að undanþágan taki einnig til barna maka íslensks ríkisborgara, enda séu þau yngri en 18 ára. Með börnum er átt við, auk eigin barna, kjörbörn og fósturbörn. Ástæða þótti til að víkka ákvæðið með þessum hætti því að ella væri boðið upp á hugsanlega hættu á sundrun fjölskyldunnar.
    Ákvæði greinarinnar er að öðru leyti óbreytt frá 13. gr. núgildandi laga.

Um 15. gr.


    Greinin er nær óbreytt frá 14. gr. núgildandi laga.

Um 16. gr.


    Greinin fjallar um afturköllun atvinnuleyfa. Um er að ræða nánari skilgreiningu á heimild Vinnumálastofnunar til afturköllunar atvinnuleyfa eins og hún er nú skv. 16. gr. núgildandi laga. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að afturkalla atvinnuleyfi ef útlendingur eða atvinnurekandi hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ef ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis eða það leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Meta verður hverju sinni hvort heimild þessi skuli nýtt og er ákvörðunin kæranleg til félagsmálaráðuneytis. Ákvæði þetta er til samræmis við ákvæði í frumvarpi til laga um útlendinga um afturköllun dvalarleyfa. Er hér um svo náskyld leyfi að ræða að eðlilegt er talið að sömu reglur gildi hvað varðar afturköllun.

Um 17. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu má refsa fyrir brot gegn lögunum með sektum nema þyngri refsing liggi við brotinu samkvæmt öðrum lögum. Einnig er kveðið á um að refsa megi lögaðilum vegna brota á lögum þessum. Er þar um nýmæli að ræða. Getur bæði verið um að ræða að íslenskir og/eða erlendir ríkisborgarar gerist brotlegir við lögin.

Um 18. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 15. gr. núgildandi laga að því undanskildu að Vinnumálastofnun er í stað ráðherra falið að ákvarða tímafrest á heimflutningi útlendings.

Um 19. gr.


    Greinin er nýmæli. Samkvæmt henni skal Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun, sem svo er nefnd í frumvarpi til laga um útlendinga, setja á laggirnar samráðsnefnd sem fjalli um samstarf þessara stofnana. Slík samvinna er afar mikilvæg svo að afgreiðsla mála sé samræmd, en Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfi samkvæmt frumvarpi um útlendinga og Vinnumálastofnun atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Það leiðir af hlutarins eðli að þessi starfsemi er nátengd og því verður að telja mikilvægt að stofnanirnar hafi skipulagt samstarf um þessi mál og að fulltrúar frá þeim hafi reglulegt samráð. Þeirri samráðsnefnd sem gert er ráð fyrir að koma á laggirnar samkvæmt greininni er ætlað að móta verklag við veitingu dvalar- og atvinnuleyfa auk þess að fjalla um einstök álitamál sem upp geta komið við framkvæmd laganna og varða starfsemi þessara stofnana.

Um 20. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 19. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að þar er ekki fjallað sérstaklega um það vinnulag sem verið hefur við útgáfu skírteinanna, en útgáfan hefur verið í höndum útlendingaeftirlits. Með greininni er það vinnulag fest í sessi. Þá er lagt til að felld verði út sú krafa að útlendingur skuli hafa skírteinið tiltækt og framvísa því ef löggæslumaður óskar þess. Þótti þessi breyting vera í takt við breytt viðhorf til útlendinga, að þeim skyldi ekki mismunað á grundvelli uppruna síns.

Um 21. gr.


    Greinin er nýmæli og felur í sér almenna tilvísun til þess að við meðferð mála samkvæmt lögunum skuli fara eftir stjórnsýslulögum, nema annað leiði af öðrum ákvæðum laganna. Mál samkvæmt lögunum falla undir stjórnsýslu ríkisins og gilda því stjórnsýslulögin um þau. Ákvæðið er fyrst og fremst í frumvarpinu í upplýsingaskyni.

Um 22. gr.


    Greinin er nýmæli. Um meðferð máls vegna umsóknar um atvinnuleyfi gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Hér er um að ræða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna og telst ákvörðunin því vera stjórnsýsluákvörðun. Markmiðið með þeim reglum er varða undirbúning og rannsókn máls er að tryggja að nægilega vandaður og skýr grundvöllur verði lagður að máli áður en ákvörðun er tekin í því. Oftast hafa aðilar ekki síður brýna hagsmuni af því að mál fái hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Hér er um að ræða opinbert leyfi sem mikilvægt er vegna hagsmuna umsækjanda að verði leyst úr svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Um 23. gr.


    Greinin er nýmæli. Í henni er kveðið á um sérstaka leiðbeiningarskyldu stjórnvalda varðandi höfnun á að veita atvinnuleyfi eða við afturköllun atvinnuleyfis. Að öðru leyti gilda ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga.

Um 24. gr.


    Greinin er nýmæli. Í henni er kveðið á um kæruheimild til æðra stjórnvalds, þ.e. að kæra megi ákvörðun Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðuneytis. Í núgildandi lögum er ekki fjallað sérstaklega um kæruheimildina. Lagt er til að kærufrestur verði fjórar vikur, þar sem almennur kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga þykir of langur, þ.e. þrír mánuðir. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga.

Um 25. gr.


    Í greininni er lagt til að skipuð verði samstarfsnefnd Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar. Skal hver um sig tilnefna einn fulltrúa í nefndina og einn til vara. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar og einn nefndarmann til vara.
    Greinin kemur að hluta til í stað 20. gr. núgildandi laga en þar er kveðið á um að árlega skuli leitað álits helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks. Hlutverk nefndarinnar verði víðtækt og varði almenn álitamál í tengslum við útgáfu atvinnuleyfa og einnig skal nefndin kölluð saman þegar beiðnir berast Vinnumálastofnun um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga.

Um 26. gr.


    Greinin kveður á um gildistöku laganna og brottfall núgildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um atvinnuréttindi útlendinga.

    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, og er því ætlað að leysa þau af hólmi. Í frumvarpinu er að finna reglur um rétt útlendinga til atvinnu hér á landi en margt hefur breyst á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum er varðar atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt frumvarpinu fer félagsmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til en felur Vinnumálastofnun að öðru leyti framkvæmd laganna. Meðal nýmæla í frumvarpinu eru skýrari málsmeðferðarreglur og ákvæði um málskotsrétt umsækjenda. Þá er kveðið á um aukið samráð Vinnumálastofnunar og Útlendingastofu með skipan samráðsnefndar þessara tveggja stofnana og aukið samráð þeirra við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins með skipan samstarfsnefndar. Ekki verður séð að frumvarpið hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Hins vegar kunna útgjöld Vinnumálastofnunar að aukast eitthvað en útgjöld aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytis ættu að dragast saman að sama skapi. Frumvarpið var flutt á síðasta þingi og á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem hafa ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.