Ferill 622. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 975  —  622. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001, um breytingu á bókun 26 (um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á bókun 26 (um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999, um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á bókun 26 (um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar) við EES-samninginn, og til að fella inn í samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999, um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkuð frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3.     Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001, um breytingu á bókun 26 um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar og um að fella inn í EES-samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999, um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans.
1. Almennt.
    Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er bókun 26 við EES-samninginn, um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar, breytt á þann hátt að í bókunina er tekin upp tilvísun til reglugerðar ráðsins nr. 659/1999 (Council Regulation (EC) No 659/1999 of 22 March 1999 laying down detailed rules for the application of Article 93 of the EC Treaty).
    Markmiðið með breytingu bókunar 26 er að tryggja Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sambærilegar heimildir og framkvæmdastjórn ESB eru faldar með reglugerð ráðsins nr. 659/1999.
    Bókun 3 við samninginn milli EFTA-ríkja um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE) fjallar um störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Til að gæta samræmis við breytingu á bókun 26 við EES-samninginn hefur því einnig verið nauðsynlegt að breyta umræddri bókun 3 við ESE-samninginn með hliðsjón af reglugerð ráðsins nr. 659/1999.
    Þessar breyting eru í samræmi við upprunalegt orðalag bókunar 26 en það er svohljóðandi:
        Með samningi milli EFTA-ríkjanna skal eftirlitsstofnun EFTA falið sams konar valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB hefur, við undirritun samningsins, við beitingu samkeppnisreglna um ríkisaðstoð í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sem geri eftirlitsstofnun EFTA kleift að framkvæma þær meginreglur sem settar eru fram í e-lið 2. mgr. 1. gr., 49. og 61.–64. gr. samningsins. Eftirlitsstofnun EFTA skal einnig hafa slíkt vald við beitingu samkeppnisreglna um ríkisaðstoð varðandi framleiðsluvörur sem falla undir stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins eins og um getur í bókun 14.
    Með reglugerð ráðsins nr. 659/1999 er kveðið á um formreglur varðandi beitingu 88. gr. Rómarsáttmálans (áður 93. gr.). Samsvarandi grein í EES-samningnum er 62. gr. sem hljóðar svo:
        1. Fylgjast skal stöðugt með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr. Eftirtaldir aðilar skulu framkvæma slíkt eftirlit:
        a) framkvæmdastjórn EB, að því er varðar aðildarríki EB, í samræmi við reglurnar í 93. gr. stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu;
        b) eftirlitsstofnun EFTA, að því er varðar EFTA-ríkin, í samræmi við þær reglur sem settar eru í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA en mælt er fyrir um valdsvið hennar og störf í bókun 26.
        2. Með það fyrir augum að tryggja samræmt eftirlit á sviði ríkisaðstoðar á svæðinu sem samningur þessi tekur til skulu framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA hafa með sér samvinnu í samræmi við ákvæðin í bókun 27.

2. Efnisútdráttur úr reglugerð ráðsins nr. 659/1999.
    Reglugerðin kveður á um valdaheimildir framkvæmdastjórnarinnar á sviði ríkisaðstoðar. Með fyrrnefndum drögum að breytingu á bókun 3 ESE-samningsins fær ESA sambærilegar heimildir á þessu sviði. Segja má að flestar þessar heimildir hafi ESA haft áður, sbr. leiðbeiningar ESA um ríkisaðstoð. Það er þó nýtt að ESA fær heimild til þess að fara inn í fyrirtæki og gera vettvangskönnun (sjá 22. gr.) og reglan um endurgreiðslu er mun afdráttarlausari (sjá 14. gr.). Það þarf því að gera lagabreytingar og breyta ríkisstyrkjakaflanum í samkeppnislögum, nr. 8/1993, til samræmis við þessi atriði. Að öðru leyti er efni reglugerðarinnar í stuttu máli eftirfarandi:
    Í fyrsta kafla (1. gr.) reglugerðar ráðsins nr. 659/1999 (hér eftir nefnd „reglugerðin“) eru skilgreiningar á ríkisaðstoð.
    Í öðrum kafla er mælt fyrir um formreglur í tengslum við tilkynnta ríkisaðstoð (procedure regarding notified aid). Eru þær formreglur að mestu leyti í samræmi við formreglur þær sem fram koma í bókun 3 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og leiðbeiningarreglur ESA. Er í kaflanum nánar kveðið á um eftirfarandi atriði:
    2. gr.    Tilkynningu til framkvæmdastjórnarinnar vegna nýrrar ríkisaðstoðar (notification of new aid).
    3. gr.    Ákvæði um að bíða með að hrinda ákveðinni ríkisaðstoð í framkvæmd áður en hún hefur verið samþykkt (standstill clause).
    4. gr.    Forkönnun framkvæmdastjórnarinnar vegna tilkynningar um ríkisaðstoð (preliminary examination of the notification and decisions of the Commission).
    5. gr.    Beiðni um upplýsingar (request for information).
    6. gr.    Feril formlegrar rannsóknar (formal investigation procedure).
    7. gr.    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að loka formlegri rannsókn (decisions of the Commission to close the formal investigation procedure).
    8. gr.    Afturköllun tilkynningar (withdrawal of notification).
    9. gr.    Afturköllun framkvæmdastjórnarinnar vegna ákvörðunar (revocation of a decision).
    Í þriðja kafla reglugerðarinnar er mælt fyrir um formreglur í tengslum við ólögmæta ríkisaðstoð. Er þar nánar kveðið á um eftirfarandi atriði:
    10. gr.    Könnun, beiðni um upplýsingar og skipun um upplýsingar (examination, request for information and information injunction).
    11. gr.    Skipun um að fresta ríkisaðstoð eða endurheimta tímabundið veitta ríkisastoð (injunction to suspend or provisionally recover aid).
    12. gr.    Skipunum framkvæmdarstjórnarinnar ekki sinnt (non-compliance with an injunction decision).
    13. gr.    Ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar (decision of the Commission).
    14. gr.    Endurheimt ríkisaðstoðar (recovery of aid). Hér segir að þegar ESA hefur komist að neikvæðri niðurstöðu varðandi ólögmæta ríkisaðstoð skuli viðkomandi EFTA-ríki grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að endurheimta aðstoðina frá móttakanda hennar, með vöxtum. Verður viðkomandi EFTA-ríki að framfylgja ákvörðun ESA án tafar.
    15. gr.    Tímatakmörk framkvæmdastjórnarinnar (limitation period).
    Í fjórða kafla reglugerðarinnar er fjallað um formreglur varðandi misnotkun ríkisaðstoðar.
    Í fimmta kafla er fjallað um formreglur varðandi ríkisaðstoð sem er þegar við lýði (existing aid schemes). Er þar fjallað um samstarf aðildarríkjanna með vísan í 1. mgr. 93. gr. Rómarsáttmálans (nú 88. gr.) varðandi þess háttar aðstoð og til hvaða aðgerða framkvæmdastjórninni er heimilt að grípa.
    Í sjötta kafla er fjallað um rétt þriðja aðila til að koma gögnum til framkvæmdastjórnarinnar og vekja athygli á hugsanlega ólögmætri ríkisaðstoð.
    Í sjöunda kafla er fjallað um vöktun (monitoring) og skyldu aðildarríkjanna til að skila ársskýrslum til framkvæmdastjórnarinnar um ríkisaðstoð. Einnig er þar fjallað um heimild ESA til að framkvæmda vettvangskönnun (on-site monitoring) að undangengnum vissum skilyrðum. Er í 22. gr. kveðið á um valdheimildir ESA varðandi vettvangskönnun, m.a. að fara inn í fyrirtæki og um landareign fyrirtækis, óska eftir munnlegum útskýringum á staðnum og rannsaka bókhaldsgögn fyrirtækis og taka af þeim ljósrit. ESA getur og krafist þess að hafa með sér óháða sérfræðinga við vettvangskönnunina.
    Í lok sjöunda kafla (23. gr.) er síðan fjallað um heimild framkvæmdastjórnarinnar til að skjóta máli til Evrópudómstólsins (ECJ) ef aðildarríki bregst ekki við ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar.
    Í áttunda kafla eru sameiginleg ákvæði m.a. um þagmælsku, útgáfu ákvarðana og stofnun sérstakrar ráðgjafanefndar.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu en sérstök nefnd sem vinnur að gerð frumvarps um fjármálafyrirtæki mun vinna tillögur um hvernig reglugerðin verður tekin upp í íslenskan rétt. Samkvæmt reglugerðinni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 27. apríl 2002.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 164/2001

frá 11. desember 2001

um breytingu á bókun 26 um valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         Engar breytingar hafa áður verið gerðar á bókun 26.

2)         Reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans( 1 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Vegna þessa ber að aðlaga bókun 26.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi komi í stað textans í bókun 26 við samninginn:

,,1. gr.

Með samningi milli EFTA-ríkjanna skal eftirlitsstofnun EFTA falið sams konar valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB hefur, við undirritun samningsins, við beitingu samkeppnisreglna um ríkisaðstoð í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, sem geri eftirlitsstofnun EFTA kleift að framkvæma þær meginreglur sem settar eru fram í e-lið 2. mgr. 1. gr., 49. og 61.–64. gr. samningsins. Eftirlitsstofnun EFTA skal einnig hafa slíkt vald við beitingu samkeppnisreglna um ríkisaðstoð varðandi framleiðsluvörur sem falla undir stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins eins og um getur í bókun 14.

2. gr.

Auk þeirra gerða sem um getur í XV. viðauka endurspeglar eftirfarandi gerð valdsvið og störf framkvæmdastjórnar EB við beitingu samkeppnisreglna um ríkisaðstoð í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu:

399 R 0659: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999 frá 22. mars 1999 um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans (Stjtíð. EB L 83, 27.3.1999, bls. 1).“

2. gr.

Texti reglugerðar (EB) nr. 659/1999/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 12. desember 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 11. desember 2001.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður


    B. Grydeland


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar


    P. K. Mannes     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 659/1999

frá 22. mars 1999

um ítarlegar reglur um beitingu 93. gr. EB-sáttmálans


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 94. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 2 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Reglugerð þessi gildir um aðstoð í öllum geirum með fyrirvara um sérstakar reglur um málsmeðferð sem mælt er fyrir um í reglugerðum sem gilda um tiltekna geira. Að því er varðar beitingu 77. og 92. gr. sáttmálans hefur framkvæmdastjórnin sérstakar heimildir samkvæmt 93. gr. til að skera úr um hvort ríkisaðstoð samrýmist hinum sameiginlega markaði þegar hún tekur yfirstandandi aðstoð til endurskoðunar, tekur ákvarðanir um nýja eða breytta aðstoð og grípur til aðgerða vegna þess að ákvörðunum hennar er ekki hlítt eða tilkynningaskyldu er ekki sinnt.

     2)      Framkvæmdastjórnin hefur, í samræmi við fordæmi dómstóls Evrópubandalaganna, mótað og komið á ákveðinni venju þegar beita á 93. gr. sáttmálans og hefur mælt fyrir um tilteknar reglur um málsmeðferð og meginreglur í fjölda orðsendinga. Til að tryggja árangursríka og skilvirka málsmeðferð samkvæmt 93. gr. sáttmálans er rétt að kerfisbinda og renna stoðum undir fyrrnefnda venju með setningu reglugerðar.

     3)      Reglugerð um málsmeðferð, sem fjallar um beitingu 93. gr. sáttmálans, mun auka gagnsæi og réttaröryggi.

     4)      Í því skyni að tryggja réttaröryggi er rétt að skilgreina þær aðstæður sem ráða því að aðstoð er talin vera yfirstandandi aðstoð. Tilkoma og efling innri markaðarins verður í áföngum og endurspeglast í stöðugri þróun stefnunnar í málefnum ríkisaðstoðar. Afleiðing þessarar þróunar getur verið sú að tilteknar ráðstafanir, sem voru ekki taldar ríkisaðstoð þegar þær komu til framkvæmda, kunni síðan að hafa orðið að ríkisaðstoð.

     5)      Í samræmi við 3. mgr. 93. gr. sáttmálans ber að tilkynna framkvæmdastjórninni um öll áform um að veita nýja aðstoð en eigi ber að hrinda slíkum áformum í framkvæmd fyrr en framkvæmdastjórnin hefur veitt leyfi til þess.

     6)      Aðildarríkjunum ber skylda til, í samræmi við 5. gr. sáttmálans, að vinna með framkvæmdastjórninni og veita henni allar nauðsynlegar upplýsingar til að gera henni kleift að sinna skyldum sínum samkvæmt þessari reglugerð.

     7)      Frestur, sem framkvæmdastjórnin hefur til að ljúka forathugun á tilkynntri aðstoð, skal vera tveir mánuðir eftir viðtöku fullfrágenginnar tilkynningar eða eftir viðtöku tilhlýðilega rökstuddrar yfirlýsingar viðkomandi aðildarríkis þess efnis að það telji tilkynninguna fullfrágengna af þeirri ástæðu að viðbótarupplýsingarnar, sem framkvæmdastjórnin óskaði eftir, séu ekki tiltækar eða hafi þegar verið látnar í té. Til að tryggja réttaröryggi ber að ljúka fyrrnefndri athugun með ákvörðun.

     8)      Í öllum tilvikum, þar sem framkvæmdastjórnin getur ekki staðfest, í framhaldi af forathuguninni, að aðstoð samrýmist hinum innri markaði, ber að hefja formlega rannsókn í því skyni að gera framkvæmdastjórninni kleift að safna saman öllum nauðsynlegum upplýsingum svo að hún sé í stakk búin til þess að meta samræmi aðstoðarinnar og til þess að gefa þeim, sem eiga hagsmuna að gæta, tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Unnt er að tryggja réttindi hagsmunaaðila á sem bestan hátt innan ramma þeirrar formlegu rannsóknar sem kveðið er á um í 2. mgr. 93. gr. sáttmálans.

     9)      Framkvæmdastjórninni ber, eftir að hafa fjallað um athugasemdirnar sem hagsmunaaðilar hafa lagt fram, að ljúka athugun sinni með lokaákvörðun um leið og efasemdum hefur verið eytt. Sé athuguninni ólokið 18 mánuðum eftir að málsmeðferð var hafin er rétt að hlutaðeigandi aðildarríki eigi þess kost að óska eftir því að framkvæmdarstjórnin taki ákvörðun innan tveggja mánaða.

     10)      Til að tryggja að reglum um ríkisaðstoð sé beitt með réttum og skilvirkum hætti skal framkvæmdastjórnin eiga þess kost að afturkalla ákvörðun sem var byggð á röngum upplýsingum.

     11)      Í því skyni að tryggja að ákvæðum 93. gr. sáttmálans sé hlítt, einkum ákvæðum um tilkynningarskyldu og stöðvun í 3. mgr. 93. gr., ber framkvæmdastjórninni að kanna öll tilvik þar sem um ólöglega aðstoð er að ræða. Af ástæðum er varða gagnsæi og réttaröryggi ber að mæla fyrir um reglur um málsmeðferð sem fylgja skal í slíkum tilvikum. Virði aðildarríki ekki tilkynningarskylduna eða stöðvunarákvæðið er framkvæmdastjórnin óbundin af frestum.

     12)      Ef um ólöglega aðstoð er að ræða ber framkvæmdastjórninni réttur til að afla allra nauðsynlegra upplýsinga sem gera henni kleift að taka ákvörðun og koma tafarlaust aftur á, þar sem það á við, ótruflaðri samkeppni. Því er rétt að gera framkvæmdastjórninni kleift að samþykkja bráðabirgðaráðstafanir gagnvart hlutaðeigandi aðildarríki. Þessar tímabundnu ráðstafanir geta verið fyrirmæli um að veita upplýsingar, fyrirmæli um stöðvun aðstoðar og fyrirmæli um endurgreiðslu aðstoðar. Sé fyrirmælum um að veita upplýsingar ekki hlítt skal framkvæmdastjórninni gert kleift að taka ákvörðun, sem byggist á fyrirliggjandi upplýsingum, og ef fyrirmælum um stöðvun eða endurgreiðslu er ekki hlítt skal hún eiga þess kost að vísa málinu beint til dómstólsins í samræmi við annan undirlið 2. mgr. 93. gr. sáttmálans.

     13)      Ef um er að ræða ólöglega aðstoð sem samrýmist ekki hinum sameiginlega markaði ber að koma aftur á virkri samkeppni. Í þessu skyni er nauðsynlegt að aðstoðin sé endurgreidd án tafar með vöxtum. Rétt er að endurgreiðsla fari fram í samræmi við málsmeðferð samkvæmt ákvæðum innlendra laga. Beiting slíkrar málsmeðferðar á ekki að koma í veg fyrir, með því að hindra að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé hrundið í framkvæmd án tafar og með skilvirkum hætti, að virkri samkeppni sé aftur komið á. Til þess að svo megi verða ber aðildarríkjunum að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nái fram að ganga.

     14)      Til að tryggja réttaröryggi er rétt að ákvarða 10 ára fyrningarfrest að því er varðar ólöglega aðstoð, þannig að ekki sé unnt að gera kröfu um endurgreiðslu eftir að hann er útrunninn.

     15)      Misnotkun aðstoðar kann að hafa áhrif á starfsemi innri markaðarins sem eru svipaðs eðlis og áhrif ólöglegrar aðstoðar og því ber að bregðast við slíkri misnotkun eins og um ólöglega aðstoð sé að ræða. Ólíkt ólöglegri aðstoð er aðstoð, sem hugsanlega hefur verið misnotuð, aðstoð sem framkvæmdastjórnin hefur áður samþykkt. Því skal framkvæmdastjórninni óheimilt að beita fyrirmælum um endurgreiðslu þegar um misnotkun aðstoðar er að ræða.

     16)      Rétt er að skilgreina alla þá kosti sem þriðju aðilar eiga til að verja hagsmuni sína í málarekstri vegna ríkisaðstoðar.

     17)      Framkvæmdastjórninni er skylt, í samræmi við 1. mgr. 93. gr. sáttmálans, að fylgjast stöðugt með skipulagi allra yfirstandandi aðstoðarkerfa í samvinnu við aðildarríkin. Vegna gagnsæis og réttaröryggis er rétt að tilgreina umfang samvinnu samkvæmt þeirri grein.

     18)      Í því skyni að tryggja að samræmi ríki milli yfirstandandi aðstoðarkerfa og innri markaðarins og í samræmi við 1. mgr. 93. gr. sáttmálans ber framkvæmdastjórninni að gera viðeigandi tillögur um nauðsynlegar ráðstafanir, ef yfirstandandi aðstoðarkerfi samrýmist ekki eða samrýmist ekki lengur hinum innri markaði, og hefja málsmeðferðina sem kveðið er á um í 2. mgr. 93. gr. sáttmálans neiti hlutaðeigandi aðildarríki að gera þær ráðstafanir sem eru lagðar til.

     19)      Til þess að gera framkvæmdastjórninni kleift að hafa skilvirkt eftirlit með því hvort ákvörðunum hennar sé hlítt og stuðla að samstarfi framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna um stöðuga endurskoðun allra yfirstandandi áætlana um aðstoð í aðildarríkjunum í samræmi við 1. mgr. 93. gr. sáttmálans er nauðsynlegt að samþykkja almenna kvöð um skýrslugjöf um allar yfirstandandi áætlanir um aðstoð.

     20)      Hafi framkvæmdastjórnin miklar efasemdir um að ákvörðunum hennar sé hlítt skal hún eiga þess kost að grípa til frekari úrræða sem gera henni kleift að afla nauðsynlegra upplýsinga til þess að sannreyna hvort ákvörðunum hennar sé hlítt með skilvirkum hætti. Eftirlitsvitjanir á vettvangi eru viðeigandi og nothæft úrræði, einkum í þeim tilvikum þar sem aðstoð kann að hafa verið misnotuð. Því ber að heimila framkvæmdastjórninni að fara í eftirlitsvitjanir á vettvangi og skal hún njóta samvinnu við lögbær yfirvöld í þeim aðildarríkjum þar sem fyrirtæki er andvígt slíkri vitjun.

     21)      Vegna gagnsæis og réttaröryggis er rétt að upplýsa almenning um ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um leið og sú meginregla er virt að ákvörðunum í málum, sem tengjast ríkisaðstoð, sé beint til hlutaðeigandi aðildarríkis. Því er rétt að birta allar ákvarðanir sem kynnu að hafa áhrif á hagsmuni hagsmunaaðila, annaðhvort í heild eða sem samantekt, eða gera hagsmunaaðilum kleift að nálgast eintök af slíkum ákvörðunum hafi þær ekki verið birtar eða ekki verið birtar í heild. Framkvæmdastjórninni ber, þegar hún veitir almenningi upplýsingar um ákvarðanir sínar, að virða reglur um þagnarskyldu í samræmi við 214. gr. sáttmálans.

     22)      Framkvæmdastjórnin skal, í náinni samvinnu við aðildarríkin, vera í stakk búin til að samþykkja framkvæmdarákvæði þar sem settar eru ítarlegar reglur um málsmeðferðina í þessari reglugerð. Í því skyni að stuðla að samvinnu framkvæmdastjórnarinnar og lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum er rétt að stofna ráðgjafarnefnd um ríkisaðstoð sem ber að hafa samráð við áður en framkvæmdastjórnin samþykkir ákvæði samkvæmt þessari reglugerð.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

I. KAFLI

ALMENNT

1. gr.

Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „aðstoð“: allar ráðstafanir sem samræmast viðmiðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 92. gr. sáttmálans;

b)      „yfirstandandi aðstoð“:

       i)          með fyrirvara um 144. og 172. gr. laganna um aðild Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar, öll aðstoð sem var hafin fyrir gildistöku sáttmálans í viðkomandi aðildarríkjum, það er aðstoðarkerfi og stök aðstoð sem hafin var áður en sáttmálinn öðlaðist gildi og er enn veitt;

       ii)      heimiluð aðstoð, það er aðstoðarkerfi og stök aðstoð sem framkvæmdastjórnin eða ráðið hafa heimilað;

       iii)      aðstoð sem telst hafa verið heimiluð samkvæmt 6. mgr. 4. gr. þessarar reglugerðar eða fyrir gildistöku hennar en í samræmi við þessa málsmeðferð

       iv)      aðstoð sem telst vera yfirstandandi aðstoð skv. 15. gr.;

       v)      aðstoð sem telst vera yfirstandandi aðstoð vegna þess að unnt er að sýna fram á að þegar hún kom til framkvæmda hafi hún ekki talist aðstoð heldur hafi hún orðið að aðstoð síðar vegna þróunar sameiginlega markaðarins, án breytinga af hálfu aðildarríkisins. Þegar tilteknar ráðstafanir verða að aðstoð í kjölfar þess að frelsi er aukið í atvinnugrein með bandalagslögum skulu þær ráðstafanir ekki teljast vera yfirstandandi aðstoð eftir þann dag sem frelsi er aukið;

c)      „ný aðstoð“: öll aðstoð, það er aðstoðarkerfi og stök aðstoð, sem er ekki yfirstandandi aðstoð, þar með taldar breytingar á yfirstandandi aðstoð;

d)      „aðstoðarkerfi“: sérhver gerð sem leggja má, án frekari framkvæmdarráðstafana, til grundvallar því að veita fyrirtækjum sem í gerðinni eru skilgreind á almennan og óhlutbundinn hátt, staka aðstoð og sérhver gerð sem leggja má til grundvallar því að veita einu eða fleiri fyrirtækjum staka aðstoð, sem er ekki bundin sérstöku verkefni, í ótiltekinn tíma og/eða sem nemur ótiltekinni fjárhæð;

e)      „stök aðstoð“: aðstoð sem er ekki veitt á grundvelli aðstoðarkerfis og tilkynningaskyld veiting aðstoðar sem er byggð á aðstoðarkerfi;

f)      „ólögleg aðstoð“: ný aðstoð sem veitt er andstætt ákvæðum 3. mgr. 93. gr. sáttmálans;

g)      „misnotkun aðstoðar“: aðstoð sem þiggjandinn notar andstætt ákvörðun sem er tekin skv. 3. mgr. 4. gr. eða 3. eða 4. mgr. 7. gr. þessarar reglugerðar;

h)      „hagsmunaaðili“: aðildarríki og einstaklingar, fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem eiga hagsmuna að gæta og veiting aðstoðar gæti haft áhrif á, einkum þiggjandi aðstoðarinnar, fyrirtæki í samkeppni og atvinnugreinasamtök.

II. KAFLI

MÁLSMEÐFERÐ VIÐVÍKJANDI TILKYNNTRI AÐSTOÐ

2. gr.

Tilkynning um nýja aðstoð

1.     Ef ekki er kveðið á um annað í reglugerðum sem eru gefnar út samkvæmt 94. gr. sáttmálans eða öðrum viðeigandi ákvæðum hans ber hlutaðeigandi aðildarríki að tilkynna framkvæmdastjórninni tímanlega um öll áform um að veita nýja aðstoð. Framkvæmdastjórninni ber að tilkynna hlutaðeigandi aðildarríki án tafar um viðtöku tilkynningar.

2.     Í tilkynningu hlutaðeigandi aðildarríkis skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að framkvæmdastjórnin geti tekið ákvörðun skv. 4. og 7. gr. (hér á eftir nefnd „fullnægjandi tilkynning“).

3. gr.

Stöðvunarákvæði

Tilkynningaskyld aðstoð skv. 1. mgr. 2. gr. skal ekki koma til framkvæmda fyrr en framkvæmdastjórnin hefur tekið, eða telst hafa tekið, ákvörðun um að leyfa slíka aðstoð.

4. gr.

Forathugun á tilkynningu og ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar

1.     Framkvæmdastjórnin skal taka tilkynninguna til athugunar strax eftir viðtöku hennar. Framkvæmdastjórninni ber að taka ákvörðun skv. 2., 3. eða 4. mgr, sbr. þó 8. gr.

2.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um, að lokinni forathugun, að í tilkynntri ráðstöfun felist ekki aðstoð skal hún skrá þá niðurstöðu í ákvörðun.

3.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um, að lokinni forathugun, að enginn vafi leiki á að tilkynnt ráðstöfun samrýmist hinum sameiginlega markaði, að því marki sem hún fellur undir gildissvið 1. mgr. 92. gr. sáttmálans, skal hún ákvarða að ráðstöfunin samrýmist hinum sameiginlega markaði (hér á eftir nefnd „ákvörðun um að hreyfa ekki andmælum“). Í tilkynningunni skal tilgreina hvaða undanþáguákvæði sáttmálans hafi verið beitt.

4.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um, að lokinni forathugun, að vafi leiki á að tilkynnt ráðstöfun samrýmist hinum sameiginlega markaði skal hún ákvarða að hefja málsmeðferð skv. 2. mgr. 93. gr. sáttmálans (hér á eftir nefnd „ákvörðun um að hefja formlega rannsókn“).

5.     Ákvarðanirnar, sem um getur í 2., 3. og 4. mgr., skulu teknar innan tveggja mánaða. Fresturinn hefst daginn eftir viðtöku fullnægjandi tilkynningar. Tilkynningin verður talin fullnægjandi komi ekki beiðni frá framkvæmdastjórninni um viðbótarupplýsingar innan tveggja mánaða frá viðtöku hennar eða frá viðtöku viðbótarupplýsinga sem farið er fram á. Unnt er að framlengja frestinn ef bæði framkvæmdastjórnin og hlutaðeigandi aðildarríki eru því samþykk. Framkvæmdastjórninni er heimilt að ákvarða skemmri frest þar sem það á við.

6.     Hafi framkvæmdastjórnin ekki tekið ákvörðun í samræmi við 2., 3. eða 4. mgr. innan þess frests sem mælt er fyrir um í 5. mgr. skal líta svo á að framkvæmdastjórnin hafi heimilað aðstoðina. Hlutaðeigandi aðildarríki er að svo búnu heimilt að gera þær ráðstafanir, sem um ræðir, eftir að hafa tilkynnt framkvæmdastjórninni um það áður, nema framkvæmdastjórnin taki ákvörðun samkvæmt þessari grein innan 15 virkra daga frá viðtöku tilkynningarinnar.

5. gr.

Beiðni um upplýsingar

1.     Telji framkvæmdastjórnin að upplýsingar, sem hlutaðeigandi aðildarríki veitir um ráðstöfun sem tilkynnt er um skv. 2. gr., séu ófullnægjandi skal hún leggja fram beiðni um allar nauðsynlegar viðbótarupplýsingar. Þegar aðildarríki svarar slíkri beiðni ber framkvæmdastjórninni að tilkynna því um viðtöku svarsins.

2.     Veiti hlutaðeigandi aðildarríki ekki umbeðnar upplýsingar innan þess frests sem framkvæmdastjórnin hefur mælt fyrir um eða veiti það ófullnægjandi upplýsingar skal framkvæmdastjórnin senda ítrekun þar sem gefinn er hæfilegur viðbótarfrestur til þess að veita upplýsingarnar.

3.     Líta ber svo á að tilkynningin hafi verið dregin til baka séu umbeðnar upplýsingar ekki veittar innan tilskilins frests, nema sá frestur hafi, áður en hann rann út, annaðhvort verið framlengdur með samþykki bæði framkvæmdastjórnarinnar og hlutaðeigandi aðildarríkis eða hlutaðeigandi aðildarríki hafi tilkynnt framkvæmdastjórninni, með tilhlýðilega rökstuddri yfirlýsingu, að það telji tilkynninguna fullnægjandi af þeirri ástæðu að umbeðnar viðbótarupplýsingar séu ekki tiltækar eða hafi þegar verið veittar. Í því tilviki skal fresturinn, sem um getur í 5. mgr. 4. gr., hefjast daginn eftir viðtöku yfirlýsingarinnar. Sé litið svo á að tilkynningin hafi verið dregin til baka ber framkvæmdastjórninni að tilkynna aðildarríkinu um það.

6. gr.

Formleg rannsókn

1.     Í ákvörðuninni um að hefja formlega rannsókn skal vera samantekt um þau atriði, sem máli skipta að lögum og í reynd, bráðabirgðamat framkvæmdastjórnarinnar á því hvort fyrirhuguð ráðstöfun sé í eðli sínu aðstoð og þar skulu raktar þær efasemdir sem eru uppi um að hún samrýmist hinum sameiginlega markaði. Í ákvörðuninni skal hvetja hlutaðeigandi aðildarríki og aðra hagsmunaaðila til þess að gera athugasemdir innan tiltekins frests sem að öllu jöfnu skal ekki vera lengri en einn mánuður. Framkvæmdastjórninni er heimilt að framlengja þennan frest í tilhlýðilega rökstuddum tilvikum.

2.     Senda skal hlutaðeigandi EFTA-ríki þær athugasemdir sem berast. Fari hagsmunaaðili fram á að hlutaðeigandi aðildarríki fái ekki vitneskju um hver hann er, vegna þess að það kunni að skaða hann, skal orðið við þeirri ósk. Hlutaðeigandi aðildarríki má svara athugasemdunum sem berast innan tiltekins frests sem skal að öllu jöfnu ekki vera lengri en einn mánuður. Framkvæmdastjórninni er heimilt að framlengja þennan frest í tilhlýðilega rökstuddum tilvikum.

7. gr.

Ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um að ljúka formlegri rannsókn

1.     Formlegri rannsókn ber að ljúka með ákvörðun eins og kveðið er á um í 2. til 5. mgr. þessarar greinar, sbr. þó 8. gr.

2.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um að í tilkynntri ráðstöfun felist ekki aðstoð eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur, eftir atvikum, gert breytingu á henni, ber henni að skrá þá niðurstöðu í ákvörðun.

3.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um að ekki leiki lengur vafi á að tilkynnt ráðstöfun samrýmist hinum sameiginlega markaði, eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur, eftir atvikum, gert breytingu á henni, skal hún ákvarða að aðstoðin samrýmist hinum sameiginlega markaði (hér á eftir nefnd „jákvæð ákvörðun“). Í ákvörðuninni skal tilgreina hvaða undanþáguákvæði sáttmálans hafi verið beitt.

4.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að binda jákvæða ákvörðun skilyrðum sem uppfylla þarf til að aðstoð geti talist samrýmast hinum sameiginlega markaði og hún getur mælt fyrir um kvaðir til þess að unnt sé að fylgjast með því að ákvörðuninni sé hlítt (hér á eftir nefnd „skilyrt ákvörðun“).

5.     Komist framkvæmdastjórnin að raun um að tilkynnt aðstoð samrýmist ekki hinum sameiginlega markaði skal hún ákvarða að aðstoðin komi ekki til framkvæmda (hér á eftir nefnd „neikvæð ákvörðun“).

6.     Ákvarðanir, sem eru teknar samkvæmt 2., 3., 4. og 5. mgr., skal taka undir eins og vafanum, sem um getur í 4. mgr. 4. gr., hefur verið eytt. Framkvæmdastjórnin skal leggja allt kapp á að samþykkja ákvörðun innan 18 mánaða frá því að málsmeðferð hefst. Unnt er að framlengja frestinn ef bæði framkvæmdastjórnin og hlutaðeigandi aðildarríki eru því samþykk.

7.     Eftir að fresturinn, sem um getur í 6. mgr., er liðinn og fari hlutaðeigandi aðildarríki fram á það ber framkvæmdastjórninni að taka ákvörðun, innan tveggja mánaða, sem byggist á fyrirliggjandi upplýsingum.

Framkvæmdastjórninni ber, eftir atvikum, að taka neikvæða ákvörðun ef veittar upplýsingar nægja ekki til þess að sýna fram á að aðstoðin samrýmist hinum sameiginlega markaði.

8. gr.

Tilkynning dregin til baka

1.     Hlutaðeigandi aðildarríki er heimilt að draga til baka tilkynningu í skilningi 2. gr. í tæka tíð áður en framkvæmdastjórnin hefur tekið ákvörðun skv. 4. eða 7. gr.

2.     Þegar framkvæmdastjórnin hefur hafið formlega rannsókn skal hún ljúka þeirri rannsókn.

9. gr.

Afturköllun ákvörðunar

Framkvæmdastjórninni er heimilt að afturkalla ákvörðun, sem er tekin skv. 2. eða 3. mgr. 4. gr. eða 2., 3. og 4. mgr.7. gr., eftir að hafa gefið hlutaðeigandi aðildarríki tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri, hafi ákvörðunin verið byggð á röngum upplýsingum sem voru veittar meðan rannsókn stóð yfir og höfðu úrslitaáhrif á að ákvörðunin var tekin.. Framkvæmdastjórninni ber, áður en hún afturkallar ákvörðun og tekur nýja, að hefja formlega rannsókn skv. 4. mgr. 4. gr. Ákvæði 6., 7. og 10. gr., 1. mgr. 11.gr. og 13., 14. og 15. gr. gilda að breyttu breytanda.

III. KAFLI

MÁLSMEÐFERÐ VEGNA ÓLÖGLEGRAR AÐSTOÐAR

10. gr.

Athugun, beiðni um upplýsingar og fyrirmæli um að veita upplýsingar

1.     Hafi framkvæmdastjórnin í fórum sínum upplýsingar um meinta ólöglega aðstoð skal hún athuga þessar upplýsingar án tafar, óháð því hvaðan þær eru komnar.

2.     Ef nauðsyn krefur skal hún óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi aðildarríki. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. og 1. og 2. mgr. 5. gr. gilda að breyttu breytanda.

3.     Ef hlutaðeigandi aðildarríki veitir ekki, þrátt fyrir ítrekun skv. 2. mgr. 5. gr., umbeðnar upplýsingar innan þess frests sem framkvæmdastjórnin hefur mælt fyrir um eða veitir ófullnægjandi upplýsingar skal framkvæmdastjórnin fara fram á það með ákvörðun að upplýsingarnar séu veittar (hér á eftir nefnd „fyrirmæli um að veita upplýsingar“). Í ákvörðuninni skal koma fram hvaða upplýsinga er krafist og mæla fyrir um viðeigandi frest til þess að veita þær.

11. gr.

Fyrirmæli um stöðvun eða bráðabirgðaendurgreiðslu aðstoðar

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, eftir að hafa gefið hlutaðeigandi aðildarríki tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri, að samþykkja ákvörðun þar sem þess er krafist að aðildarríkið stöðvi alla ólöglega aðstoð uns framkvæmdastjórnin hefur tekið ákvörðun um hvort aðstoðin samrýmist hinum sameiginlega markaði (hér á eftir nefnd „fyrirmæli um stöðvun“).

2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, eftir að hafa gefið hlutaðeigandi aðildarríki tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri, að samþykkja ákvörðun þar sem þess er krafist að aðildarríkinu sé endurgreidd til bráðabirgða öll ólögleg aðstoð uns framkvæmdastjórnin hefur tekið ákvörðun um hvort aðstoðin samrýmist hinum sameiginlega markaði (hér á eftir nefnd „fyrirmæli um endurgreiðslu“), að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

–    samkvæmt viðtekinni venju leiki enginn vafi á því að viðkomandi ráðstöfun sé í eðli sínu aðstoð,

–    brýnt sé að grípa til aðgerða, og

–    veruleg hætta sé á að samkeppnisaðili verði fyrir umtalsverðum og óbætanlegum skaða.

Endurgreiðsla skal fara fram í samræmi við málsmeðferðina í 2. og 3. mgr. 14. gr. Eftir að aðstoðin hefur verið endurgreidd ber framkvæmdastjórninni að taka ákvörðun innan þeirra tímamarka sem gilda um tilkynnta aðstoð.

Framkvæmdastjórnin getur heimilað aðildarríkinu að tengja endurgreiðslu aðstoðarinnar greiðslu björgunaraðstoðar til hlutaðeigandi fyrirtækis.

Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einungis um ólöglega aðstoð sem kemur til framkvæmda eftir að reglugerð þessi öðlast gildi.

12. gr.

Fyrirmælum í ákvörðunum ekki hlítt

Hlíti aðildarríkið ekki fyrirmælum um stöðvun eða endurgreiðslu hefur framkvæmdastjórnin, samtímis því að láta fara fram athugun á efnisatriðum málsins á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, rétt til að vísa málinu beint til dómstóls Evrópubandalaganna og fara fram á yfirlýsingu þess efnis að misbrestur á því að hlíta fyrirmælunum feli í sér brot á ákvæðum sáttmálans.

13. gr.

Ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar

1.     Athugun á aðstoð, sem hugsanlega er ólögleg, skal ljúka með ákvörðun skv. 2., 3. eða 4. mgr. 4. gr. Ef um er að ræða ákvarðanir um að hefja formlega rannsókn skal rannsókninni ljúka með ákvörðun skv. 7. gr. Hlíti aðildarríki ekki fyrirmælum um að veita upplýsingar ber að taka ákvörðunina á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

2.     Ef um er að ræða aðstoð, sem hugsanlega er ólögleg, og með fyrirvara um 2. mgr. 11. gr. skal framkvæmdastjórnin óbundin af frestinum sem um getur í 5. mgr. 4. gr.og í 6. og 7. mgr. 7. gr.

3.     Ákvæði 9. gr. gilda að breyttu breytanda.

14. gr.

Endurgreiðsla aðstoðar


1.     Ef neikvæðar ákvarðanir eru teknar þegar um ólöglega aðstoð er að ræða skal framkvæmdastjórnin ákveða að hlutaðeigandi aðildarríki skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að þiggjandi aðstoðar endurgreiði hana (hér á eftir nefnd „ákvörðun um endurgreiðslu“). Framkvæmdastjórnin skal ekki krefjast endurgreiðslu aðstoðar ef það stríðir gegn einhverju grundvallaratriði í bandalagslögum.

2.     Aðstoðin, sem ber að endurgreiða samkvæmt ákvörðun um endurgreiðslu, skal endurgreidd með hæfilegum vöxtum sem framkvæmdastjórnin ákveður. Greiða ber vexti frá þeim degi að þiggjandinn fékk hina ólöglegu aðstoð til umráða og fram til þess dags að hún er endurgreidd.

3.     Með fyrirvara um úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna skv. 185. gr. sáttmálans skal endurgreiðsla fara fram án tafar og í samræmi við fyrirmæli laga hlutaðeigandi aðildarríkis, að því tilskildu að þau heimili tafarlausa og skilvirka framkvæmd ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar. Til að svo megi verða og þegar um er að ræða mál fyrir innlendum dómstólum skulu hlutaðeigandi aðildarríki gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, meðal annars bráðabirgðaráðstafanir, sem réttarkerfi hvers og eins heimila, sbr. þó ákvæði bandalagslaga.

15. gr.

Fyrningarfrestur

1.     Tíu ára fyrningarfrestur skal gilda um heimildir framkvæmdastjórnarinnar til þess að láta endurgreiða aðstoð.

2.     Fyrningarfrestur hefst daginn sem hin ólöglega aðstoð er veitt þiggjanda, annaðhvort sem stök aðstoð eða aðstoð samkvæmt aðstoðarkerfi.

Sérhver aðgerð af hálfu framkvæmdastjórnarinnar eða aðildarríkis, sem aðhefst að beiðni framkvæmdastjórnarinnar vegna ólöglegrar aðstoðar, rýfur fyrningarfrestinn. Í hvert sinn, sem fyrningarfrestur er rofinn, hefst jafnlangur frestur að nýju. Rjúfa ber fyrningarfrestinn á meðan ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er til meðferðar fyrir dómstóli Evrópubandalaganna.

3.     Sé fyrningarfrestur vegna aðstoðar útrunninn skal líta svo á að um yfirstandandi aðstoð sé að ræða.

IV. KAFLI

MÁLSMEÐFERÐ VEGNA MISNOTKUNAR AÐSTOÐAR

16. gr.

Misnotkun aðstoðar

Þegar um misnotkun aðstoðar er að ræða er framkvæmdastjórninni heimilt, með fyrirvara um 23. gr., að hefja formlega rannsókn skv. 4. mgr. 4. gr. Ákvæði 6., 7., 9. og 10. gr., 1. mgr. 11. gr. og 12., 13., 14. og 15. gr. gilda að breyttu breytanda.

V. KAFLI

MÁLSMEÐFERÐ VEGNA YFIRSTANDANDI AÐSTOÐARKERFA

17. gr.

Samvinna samkvæmt 1. mgr. 93. gr. sáttmálans

1.     Framkvæmdastjórnin skal afla allra nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi aðildarríki vegna endurskoðunar yfirstandandi aðstoðarkerfa sem fer fram í samvinnu við aðildarríkið skv. 1. mgr. 93. gr. sáttmálans.

2.     Telji framkvæmdastjórnin að yfirstandandi aðstoðarkerfi samrýmist ekki eða samrýmist ekki lengur hinum sameiginlega markaði ber henni að tilkynna hlutaðeigandi aðildarríki um bráðabirgðaálit sitt og gefa því kost á að koma athugasemdum sínum á framfæri innan eins mánaðar. Framkvæmdastjórninni er heimilt að framlengja þennan frest í tilhlýðilega rökstuddum tilvikum.

18. gr.

Tillaga um viðeigandi ráðstafanir

Komist framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu, í ljósi upplýsinga sem aðildarríkið hefur látið í té skv. 17. gr., að yfirstandandi aðstoðarkerfi samrýmist ekki eða samrýmist ekki lengur hinum sameiginlega markaði skal hún gefa út tilmæli til hlutaðeigandi aðildarríkis þar sem hún gerir tillögur um viðeigandi ráðstafanir. Í tilmælunum geta einkum falist eftirfarandi tillögur:

a)      að gerðar skuli verulegar breytingar á aðstoðarkerfinu,

    eða

b)      að settar verði fram kröfur um málsmeðferð,

    eða

c)      að aðstoðarkerfið skuli fellt niður.


19. gr.

Lagalegar afleiðingar tillögu um viðeigandi ráðstafanir

1.     Ef hlutaðeigandi aðildarríki samþykkir fyrirhugaðar ráðstafanir og tilkynnir framkvæmdastjórninni það skal hún bóka þá niðurstöðu og tilkynna aðildarríkinu um það. Aðildarríkið er bundið af samþykki sínu um framkvæmd viðeigandi ráðstafana.

2.     Ef hlutaðeigandi aðildarríki samþykkir ekki fyrirhugaðar ráðstafanir og framkvæmdastjórnin telur enn, að teknu tilliti til röksemdafærslu hlutaðeigandi aðildarríkis, að ráðstafanirnar séu nauðsynlegar skal hún hefja málsmeðferð skv. 4. mgr. 4. gr. Ákvæði 6., 7. og 9. gr. gilda að breyttu breytanda.

VI. KAFLI

HAGSMUNAAÐILAR

20. gr.

Réttur hagsmunaaðila

1.     Öllum hagsmunaaðilum er heimilt að gera athugasemdir skv. 6. gr. í kjölfar ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar um að hefja formlega rannsókn. Senda ber öllum hagsmunaaðilum, sem hafa gert slíkar athugasemdir, og þiggjendum stakrar aðstoðar afrit af ákvörðuninni sem framkvæmdastjórnin hefur tekið skv. 7. gr.

2.     Öllum hagsmunaaðilum er heimilt að gera framkvæmdastjórninni viðvart um meinta ólöglega aðstoð og meinta misnotkun aðstoðar. Telji framkvæmdastjórnin, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hefur í fórum sínum, að ekki séu nægilegar ástæður til að taka málið til athugunar ber henni að tilkynna hagsmunaaðilanum um það. Taki framkvæmdastjórnin ákvörðun í máli, sem varðar efnisatriði upplýsinganna sem hafa verið veittar, ber henni að senda hagsmunaaðilanum afrit af þeirri ákvörðun.

3.     Ef hagsmunaaðilar óska þess skulu þeir fá afrit af öllum ákvörðunum, sem teknar eru skv. 4. og 7. gr., 3. mgr. 10. gr. og 11. gr.

VII. KAFLI

EFTIRLIT

21. gr.

Ársskýrslur

1.     Aðildarríkin skulu afhenda framkvæmdastjórninni ársskýrslur um öll yfirstandandi aðstoðarkerfi sem engar sérstakar kvaðir um skýrslugjöf hafa verið samþykktar um í skilyrtri ákvörðun skv. 4. mgr. 7. gr.

2.     Láti hlutaðeigandi aðildarríki hjá líða, þrátt fyrir ítrekun, að afhenda ársskýrslu er framkvæmdastjórninni heimilt að gera ráðstafanir í samræmi við ákvæði 18. gr. varðandi viðkomandi aðstoðarkerfi.

22. gr.

Eftirlit á vettvangi

1.     Hafi framkvæmdastjórnin verulegar efasemdir um að ákvörðunum um að hreyfa ekki andmælum, jákvæðum ákvörðunum eða skilyrtum ákvörðunum með tilliti til stakrar aðstoðar sé hlítt ber hlutaðeigandi aðildarríki, eftir að hafa verið gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir sínar, að heimila framkvæmdastjórninni að efna til eftirlitsvitjana á vettvangi.

2.     Embættismenn, sem framkvæmdastjórnin viðurkennir, skulu hafa umboð, í því skyni að sannreyna að viðkomandi ákvörðun sé hlítt, til þess að:

a)      fara inn á athafnasvæði og lóðir hlutaðeigandi fyrirtækis,

b)      fara fram á munnlegar skýringar á staðnum,

c)      rannsaka bókhald og önnur viðskiptaskjöl og taka eða fara fram á afrit.

Framkvæmdastjórninni er heimilt að njóta aðstoðar óháðra sérfræðinga ef nauðsyn krefur.

3.     Framkvæmdastjórnin skal tilkynna hlutaðeigandi aðildarríki, skriflega og með góðum fyrirvara, um fyrirhugaða eftirlitsvitjun á vettvangi og segja deili á viðurkenndu embættismönnunum og sérfræðingunum. Andmæli aðildarríkið vali framkvæmdastjórnarinnar á sérfræðingum með tilhlýðilegum rökstuðningi ber að komast að samkomulagi við aðildarríkið um tilnefningu þeirra. Embættismenn framkvæmdastjórnarinnar og sérfræðingar með umboð til eftirlits á vettvangi skulu framvísa skriflegu leyfi þar sem fram kemur tilefni og tilgangur vitjunarinnar.

4.     Embættismönnum með umboð aðildarríkisins sem ræður yfir því svæði þar sem eftirlitsvitjun er fyrirhuguð er heimilt að vera viðstaddir eftirlitsvitjunina.

5.     Framkvæmdastjórnin skal láta aðildarríkinu í té afrit af öllum skýrslum sem eru gerðar í kjölfar eftirlitsvitjunarinnar.

6.     Andmæli fyrirtæki eftirlitsvitjun, sem er fyrirskipuð með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt þessari grein ber hlutaðeigandi aðildarríki að veita embættismönnum og sérfræðingum með umboð framkvæmdastjórnarinnar nauðsynlega aðstoð til að fara í eftirlitsvitjunina. Aðildarríkinu ber, í þessu skyni og að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina, að gera nauðsynlegar ráðstafanir innan 18 mánaða frá því að reglugerð þessi öðlast gildi.

23. gr.

Ákvörðunum og dómsúrskurðum ekki hlítt

1.     Hlíti hlutaðeigandi aðildarríki ekki skilyrtum eða neikvæðum ákvörðunum, einkum í tilvikum sem um getur í 14. gr., er framkvæmdastjórninni heimilt að vísa málinu beint til dómstóls Evrópubandalaganna í samræmi við 2. mgr. 93. gr. sáttmálans.

2.     Telji framkvæmdastjórnin að hlutaðeigandi aðildarríki hafi ekki hlítt úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna getur hún fylgt málinu eftir í samræmi við 171. gr. sáttmálans.

VIII. KAFLI

SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI

24. gr.

Þagnarskylda

Framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum, embættismönnum þeirra og öðrum opinberum starfsmönnum, þar með töldum óháðum sérfræðingum sem framkvæmdastjórnin tilnefnir, er óheimilt að láta öðrum í té upplýsingar sem þeir hafa fengið við beitingu ákvæða þessarar reglugerðar og sem falla undir þagnarskyldu.

25. gr.

Viðtakandi ákvarðana

Ákvörðunum, sem eru teknar samkvæmt II., III., IV., V. og VII. kafla, skal beint til hlutaðeigandi aðildarríkis. Framkvæmdastjórninni ber að tilkynna hlutaðeigandi aðildarríki um þær án tafar og gefa því tækifæri til þess að benda framkvæmdastjórninni á hvaða upplýsingar það telur falla undir þagnarskyldu.

26. gr.

Birting ákvarðana

1.     Framkvæmdastjórnin skal birta samantekt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna um þær ákvarðanir sem hún tekur skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. og 18. gr. svo og 1. mgr. 19. gr. Í samantektinni komi fram að unnt sé að fá afrit af ákvörðuninni á tungumáli eða tungumálum frumútgáfunnar.

2.     Framkvæmdastjórnin skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna þær ákvarðanir, sem hún tekur skv. 4. mgr. 4. gr., á tungumáli frumútgáfunnar. Í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna, sem eru birt á öðrum tungumálum en á tungumáli frumútgáfunnar, mun fylgja útgáfunni á frummálinu ítarleg samantekt á tungumáli viðkomandi Stjórnartíðinda Evrópubandalaganna.

3.     Framkvæmdastjórnin skal birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna þær ákvarðanir sem hún tekur skv. 7. gr.

4.     Í þeim tilvikum, þar sem ákvæði 6. mgr. 4. gr. eða 2. mgr. 8. gr. gilda, skal birta stutta tilkynningu í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

5.     Ráðið getur, með samhljóða samþykki, ákveðið að birta ákvarðanir, samkvæmt þriðju undirgrein 2. mgr. 93. gr. sáttmálans, í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

27. gr.

Framkvæmdarákvæði

Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 29. gr., hafa umboð til þess að samþykkja framkvæmdarákvæði um framsetningu, efni og önnur formsatriði er lúta að tilkynningum, framsetningu, efni og önnur formsatriði er lúta að ársskýrslum, formsatriði er lúta að frestum og útreikningi fresta og um vextina sem um getur í 2. mgr. 14. gr.

28. gr.

Ráðgjafarnefnd um ríkisaðstoð

Koma ber á fót ráðgjafarnefnd um ríkisaðstoð (hér á eftir kölluð „nefndin“). Hún skal skipuð fulltrúum aðildarríkjanna undir formennsku fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar.

29. gr.

Samráð við nefndina

1.     Framkvæmdastjórninni ber að hafa samráð við nefndina áður en hún samþykkir framkvæmdarákvæði skv. 27. gr.

2.     Samráð við nefndina skal fara fram á fundi sem framkvæmdastjórnin boðar til. Drög og skjöl, sem fjalla á um, skulu fylgja fundarboði. Fundurinn skal haldinn í fyrsta lagi tveimur mánuðum eftir að fundarboð var sent. Heimilt er að stytta þann tíma ef um bráðatilvik er að ræða.

3.     Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar leggur fyrir nefndina drög að þeim ráðstöfunum sem gera skal. Nefndin skal skila áliti sínu á drögunum innan þeirra tímamarka sem formanni er heimilt að setja eftir því hversu brýnt málið er, með atkvæðagreiðslu ef þörf krefur.

4.     Álitið skal skráð í fundargerð; þar að auki hefur hvert aðildarríki rétt til að láta bóka afstöðu sína í fundargerðina. Nefndin getur lagt til að álitið verði birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

5.     Framkvæmdastjórnin skal taka ítrasta tillit til álits nefndarinnar. Henni ber að greina nefndinni frá því með hvaða hætti álit hennar var haft til hliðsjónar.

30. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

    Gjört í Brussel 22. mars 1999.


Fyrir hönd ráðsins,

G. VERHEUGEN

forseti.



( 1) Stjtíð. EB L 83, 27.3.1999, bls. 1.
( *) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
( 1)    Stjtíð. EB C 116, 16. 4. 1998, bls. 13.
( 2)    Áliti var skilað 14. janúar 1999 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
( 3)    Stjtíð. EB C 284, 14. 9. 1998, bls. 10.