Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 990  —  629. mál.
Frumvarp til lagaum réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna.
    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda,
     b.      hafskip.

2. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Framseljandi er einstaklingur eða lögpersóna sem við aðilaskipti hættir að vera vinnuveitandi starfsmanna fyrirtækis eða hluta fyrirtækis.
     2.      Framsalshafi er einstaklingur eða lögpersóna sem við aðilaskipti verður vinnuveitandi starfsmanna fyrirtækis eða hluta fyrirtækis.
     3.      Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir þeir sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt er gert í hagnaðarskyni.
     4.      Aðilaskipti eru aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi.

II. KAFLI
Réttarvernd starfsmanna.
3. gr.
Launakjör og starfsskilyrði.

    Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað færast yfir til framsalshafa.
    Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.
    Ákvæði þetta gildir ekki um rétt starfsmanna til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerðum sem staðfest hafa verið af fjármálaráðuneyti. Það getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum úr þeim sjóðum sem um er að ræða. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður starfar áfram hjá fyrirtækinu eða hluta þess eftir aðilaskipti eða ekki.
    Ákvæði þetta á ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.


4. gr.
Vernd gegn uppsögnum.

    Framseljanda eða framsalshafa er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta þess bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis.
    Vinnuveitandi ber ábyrgð á riftun á ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi hafi aðilaskipti leitt til verulegra breytinga á starfsskilyrðum, starfsmanni í óhag.
    Ákvæði þetta á ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

5. gr.
Réttarstaða trúnaðarmanna.

    Trúnaðarmenn starfsmanna skulu halda stöðu sinni samkvæmt lögum og kjarasamningi eftir aðilaskiptin haldi fyrirtækið eða hluti þess áfram sjálfstæði sínu en að öðrum kosti skulu starfsmenn eiga sér fulltrúa þar til nýr trúnaðarmaður hefur verið valinn.
    Missi trúnaðarmaður umboð sitt við aðilaskipti skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða samningar kveða á um.
    Um réttarstöðu trúnaðarmanna fer samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eftir atvikum kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.

III. KAFLI
Réttur starfsmanna til upplýsinga og samráðs.
6. gr.
Upplýsingar og samráð.

    Framsalshafi og framseljandi skulu láta trúnaðarmönnum starfsmanna, eða starfsmönnum sjálfum séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, í té upplýsingar um eftirfarandi atriði:
     a.      dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra,
     b.      ástæður sem liggja til grundvallar aðilaskiptum,
     c.      lagaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif aðilaskiptanna fyrir starfsmenn, og
     d.      hvort ráðstafanir séu fyrirhugaðar vegna starfsmanna.
    Framseljandi skal veita upplýsingar skv. 1. mgr. með góðum fyrirvara áður en aðilaskiptin koma til framkvæmda.
    Framsalshafi skal veita upplýsingar skv. 1. mgr. með góðum fyrirvara og áður en aðilaskiptin hafa bein áhrif á störf og starfsskilyrði starfsmanna.
    Ef framseljandi eða framsalshafi hyggst gera ráðstafanir vegna starfsmanna sinna skal hann hafa samráð um þær með góðum fyrirvara við trúnaðarmenn starfsmanna, eða starfsmenn sjálfa séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, með það að markmiði að ná samkomulagi.

7. gr.
Upplýsingagjöf milli fyrirtækja.

    Þær skyldur sem hvíla á aðilum skv. 6. gr. gilda án tillits til þess hvort ákvörðun um aðilaskipti er tekin af vinnuveitanda sjálfum eða fyrirtæki sem vinnuveitandi heyrir undir.
    Komi fram staðhæfing um ætlað brot á kröfum um upplýsingar og samráð er ekki nægjanlegt að bera því við að fyrirtækið sem vinnuveitandi heyrir undir hafi ekki látið upplýsingar í té.

IV. KAFLI
Viðurlög.
8. gr.
Skaðabætur.

    Vinnuveitandi, hvort heldur framseljandi eða framsalshafi, sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.

Innleiðing.


    Lög þessi eru m.a. sett til innleiðingar á tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sem vísað er til í 32. lið d XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 159/2001.

10. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Falla þá jafnframt úr gildi lög, nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er m.a. lagt fram til innleiðingar á tilskipun nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, sbr. tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB um sama efni. Gerð frumvarpsins fól í sér endurskoðun á gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, sem innleiddu tilskipun nr. 77/187/EBE, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar, inn í íslenskan rétt. Hinn 29. júní 1998 gaf Evrópusambandið út tilskipun nr. 98/50/EB, um breytingu á tilskipun nr. 77/187/EBE. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella hana undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 30. apríl 1999, sbr. ákvörðun nefndarinnar nr. 57/99. Með tilskipun nr. 2001/23/EB frá 12. mars 2001 var efni framangreindra tilskipana sameinað í eina tilskipun. Hún var felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 12. desember 2001 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001.

II.


    Í formála tilskipunar nr. 2001/23/EB kemur fram að nauðsynlegt hafi þótt að setja ákvæði um verndun launamanna þegar nýir vinnuveitendur taki við, einkum til að tryggja að staðinn sé vörður um réttindi þeirra. Enn fremur kemur fram að talið hafi verið nauðsynlegt að samræma innlend lagaákvæði sem tryggja að staðinn sé vörður um réttindi launafólks og leggja þá skyldu á framseljanda og framsalshafa að þeir veiti trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar og ráðfæri sig við þá með góðum fyrirvara.
    Meðal þeirra breytinga sem tilskipun nr. 98/50/EB hafði á efni tilskipunar nr. 77/187/EBE var að hugtakið aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar var skýrt nánar með tilliti til túlkunar Evrópudómstólsins á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/187/EBE. Í formála tilskipunar nr. 2001/23/EB er tekið fram að sú skýring sem þar kemur fram hafi ekki breytt gildissviði tilskipunar nr. 77/187/EBE eins og það er túlkað af dómstólnum. Í máli C-24/85 ( Speijkers) taldi Evrópudómstóllinn meginviðmiðið til að ákvarða hvort um væri að ræða aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar vera hvort fyrirtækið héldi einkennum ( e. identity) sínum. Í því sambandi gaf hann dómstólum aðildarríkjanna ákveðnar leiðbeiningar um þau atriði sem hafa skal í huga við mat á því hvort aðilaskipti að fyrirtæki falli undir gildissvið tilskipunarinnar. Þar á meðal þarf að líta til þess um hvaða tegund fyrirtækis er að ræða. Einnig getur skipt máli hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld, svo sem fasteignir eða lausafé, og hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fara fram. Jafnframt er litið til þess hvort meiri hluti starfsmanna flyst til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi heldur viðskiptavinum framseljanda. Sá tími, ef svo ber undir, sem rekstur fyrirtækis liggur niðri eftir að aðilaskipti hafa átt sér stað þar til hann hefst að nýju getur einnig haft áhrif á mat dómstóla um hvort aðilaskiptin teljist eiga undir tilskipunina, sem og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin. Dómstóllinn tók jafnframt fram að líta skyldi heildstætt á framangreind atriði en ekki hvert þeirra eitt og sér. Ljóst er að slík ákvörðun getur verið nokkuð matskennd en þessar leiðbeiningar hafa verið staðfestar í síðari dómum Evrópudómstólsins. Í máli E-2/95 ( Eidesund) vísar EFTA-dómstóllinn til fjölmargra dóma Evrópudómstólsins um túlkun tilskipunarinnar. Í samræmi við Speijkers-málið telur EFTA-dómstóllinn nauðsynlegt að skoða hvort fyrirtæki, eða sá hluti þess sem framseldur er, heldur áfram rekstri með sama eða sambærilegum hætti og áður. Í niðurstöðu sinni staðfesti hann þær leiðbeiningar sem Evrópudómstóllinn hafði fyrst sett fram í Speijkers-málinu. Enn fremur hefur dómaframkvæmd staðfest að ekki skiptir máli þótt einstakir hlutar starfseminnar færist ekki yfir við aðilaskiptin, t.d. fasteignir eða viðskiptavild.
    Til frekari afmörkunar á gildissviði tilskipunar nr. 77/187/EBE kvað tilskipun nr. 98/50/ EB á um þá breytingu að tilskipunin tæki bæði til einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja án tillits til þess hvort þau eru starfrækt með það að markmiði að afla eigendum þeirra hagnaðar. Að því er varðar opinbera aðila var síðan kveðið á um þá takmörkun að breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærsla á verkefnum milli stjórnvalda ( e. administrative functions) falla ekki undir hugtakið aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar.
    Þá hefur tilskipun nr. 2001/23/EB, sbr. tilskipun nr. 98/50/EB, að geyma nánari reglur um upplýsingar og samráð vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum en hér er fyrst og fremst um viðbót að ræða við þau ákvæði sem voru upphaflega að finna í tilskipun nr. 77/187/EBE.
    Að öðru leyti vísast til athugasemda við einstök ákvæði frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæði 1. gr. afmarkar gildissvið frumvarpsins þar sem lagðar eru til ákveðnar undanþágur frá gildissviði þess.
    Í 1. mgr. segir að reglur þessa frumvarps taki til réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins til annars vinnuveitanda á grundvelli framsals eða samruna. Eðli aðilaskiptanna, þ.e. hvort þau verða t.d. fyrir sölu eða leigu á fyrirtæki, er ekki aðalatriðið í þessu tilliti heldur skiptir meginmáli að nýr vinnuveitandi komi að rekstri fyrirtækisins í stað hins fyrri. Þetta hefur verið staðfest í dómum Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins þar sem fram hefur komið að eigendaskipti þurfa ekki að hafa farið fram til að um aðilaskipti sé að ræða heldur er nægjanlegt að nýr aðili verði ábyrgur fyrir rekstri fyrirtækis og teljist því vinnuveitandi starfsfólksins.
    Lagðar eru til tvær undanþágur frá gildissviði frumvarpsins. Í a-lið 2. mgr. er kveðið á um að breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærsla á verkefnum milli stjórnvalda falli ekki undir gildissvið frumvarpsins. Undanþága þessi er byggð á c-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB. Í máli C-298/94 ( Henke) komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að gildissvið tilskipunar nr. 77/187/EBE tæki ekki til framsals eiginlegra stjórnsýsluverkefna milli tveggja eða fleiri stjórnsýsluaðila. Aðilaskipti að rekstri frá hinu opinbera til einkaaðila eða eftir atvikum frá einkafyrirtækjum til hins opinbera falla hins vegar undir ákvæði frumvarpsins að uppfylltum öðrum ákvæðum þess.
    Í b-lið 2. mgr. er gert ráð fyrir að frumvarpið taki ekki til hafskipa og er sú undanþága byggð á 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Með hugtakinu hafskip er átt við skip sem siglir á opnu hafi, þ.e. annað en það sem siglir eingöngu á innlendum vatnaleiðum eða í landvari, eða á svæðum nærri landvari, eða þar sem hafnarreglur gilda. Er hér byggt á skilgreiningu á hugtakinu sem er að finna í alþjóðasamþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um menntun og þjálfun sjómanna á kaupskipum frá árinu 1978, sbr. breytingar frá árinu 1995.

Um 2. gr.


    Orðskýringar í 1. og 2. tölul. ákvæðis þessa eru byggðar á a- og b-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB. Þar eru lagðar til þær breytingar frá gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, að hugtökin framseljandi og framsalshafi verði notuð í stað hugtakanna eigandi og nýr eigandi í tengslum við aðilaskipti. Í enska texta tilskipunarinnar eru hugtökin transferor og transferee notuð án þess að það sé afmarkað nánar hvaða heimildir umræddir aðilar hafi fyrir þeim rekstri sem framseldur er. Hugtakið eigandi hefur hins vegar þrengri merkingu í íslensku þar sem með því er gefið til kynna að þeir aðilar sem gera með sér samning um aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta þess hafi eða muni njóta fullrar eignarheimildar fyrir rekstri þess. Þykir það því samræmast betur efni tilskipunarinnar að nota hugtökin framseljandi og framsalshafi enda má sjá af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins að aðilaskipti sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar geta verið fyrir tilstilli kaupsamnings, leigusamnings, kaupleigusamnings, þjónustusamnings eða einhliða ákvörðunar stjórnvalds.
    Í 3. tölul. er hugtakið fyrirtæki skilgreint sem einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir þeir sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt er gert í hagnaðarskyni. Ljóst er að Evrópudómstóllinn hefur túlkað hugtakið fyrirtæki mjög rúmt í dómum sínum. Í gildandi lögum, nr. 77/1993, er ekki gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða opinber fyrirtæki eða einkafyrirtæki enda hafði slíkt ekki verið gert í tilskipun nr. 77/187/EBE. Það álitaefni hefur komið til kasta Evrópudómstólsins og var allur vafi tekinn í því efni með tilskipun nr. 98/50/EB þar sem kveðið var skýrt á um að gildissvið tilskipunarinnar ætti að ná bæði til opinberra fyrirtækja og einkafyrirtækja. Frumvarpið á einnig við um opinberar stofnanir, sbr. þó undanþágu a-liðar 2. mgr. 1. gr. Þessi skilgreining er því í samræmi við síðari breytingar á gildissviði tilskipunar nr. 77/187/ EBE. Þá er tekið fram, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB, að ekki skipti máli hvort fyrirtækið er starfrækt með það að markmiði að afla rekstraraðila þess hagnaðar, sbr. t.d. mál C-29/91 ( Redmond Stichting).
    Hugtakið aðilaskipti er skilgreint í 4. tölul. Sú skilgreining sem tekið er mið af var fyrst sett fram í b-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 98/50/EB, sbr. b-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB, til frekari skýringar á hugtakinu. Hún er svohljóðandi í íslenskri þýðingu: „ Með fyrirvara um a-lið og eftirfarandi ákvæði þessarar greinar merkja aðilaskipti, í skilningi þessarar tilskipunar, aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða meginstarfsemi eða stoðstarfsemi.“ Þótti með tilliti til réttaröryggis og gagnsæis nauðsynlegt að skýra hugtakið frekar í ljósi fordæma Evrópudómstólsins. Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar í II. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 3. gr.


    Sú meginregla er sett fram í 1. mgr. að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað færist yfir til framsalshafa. Þá er áréttað í 2. mgr. að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningum með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda. Skal sú regla gilda þangað til gildistími kjarasamnings er liðinn, honum hefur verið sagt upp með löglegum hætti eða nýr kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Framangreindar reglur gera ráð fyrir að réttarstaða starfsmanna breytist ekki fyrir það eitt að þeir fái nýjan vinnuveitanda í kjölfar aðilaskipta. Ákvæði þetta er byggt á 4. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 2. gr. gildandi laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993. Lagt er til að ákvæði þetta gildi ekki um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta til samræmis við 5. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB. Í gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, voru bú fyrirtækja sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta undanþegin gildissviði laganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þetta var í samræmi við eldri tilskipun nr. 77/187/EBE og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Kveðið var hins vegar skýrar á um þetta efni í tilskipun nr. 98/50/EB þar sem eingöngu er heimilt skv. 1. mgr. 4. gr. a að skilja fyrirtæki sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta undan 3. og 4. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 4. og 5. gr. frumvarps þessa eru efnislega samhljóða 3. og 4. gr. tilskipunarinnar, sbr. 3. og 4. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB. Er hér um að ræða aðilaskipti sem verða að fyrirtæki eftir að það hefur verið úrskurðað gjaldþrota og skiptastjóri verið skipaður samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ástæða undanþágunnar er að sérreglur gilda um meðferð fyrirtækja eftir að þau hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Um 4. gr.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta þess geti ekki ein sér verið ástæða uppsagnar starfsmanna. Er þetta í samræmi við 4. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB þar sem kveðið er á um að fleira þurfi að koma til. Samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar er því einungis heimilt að segja upp starfsfólki við aðilaskipti þegar efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður eru fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 3. gr. gildandi laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993.
    Um skýringar á 3. mgr. vísast til athugasemda við 3. gr.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að trúnaðarmenn starfsmanna haldi stöðu sinni samkvæmt lögum eða kjarasamningum eftir aðilaskiptin haldi fyrirtækið eða hluti þess áfram sjálfstæði sínu. Haldi fyrirtæki eða hluti þess ekki sjálfstæði sínu skal tryggt að starfsmenn eigi sér áfram fulltrúa þangað til nýr trúnaðarmaður hefur verið valinn í samræmi við lög eða kjarasamninga. Þess ber að geta að ákvæðið gildir einnig um fyrirsvar starfsmanna sem starfa áfram hjá fyrirtækinu eftir aðilaskipti sem eiga sér stað eftir að fyrirtæki framseljanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvæðið byggir efnislega á 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB en þar kemur m.a. fram að um réttarstöðu trúnaðarmanna og útnefningu eða nýja skipan trúnaðarmanna skuli fara samkvæmt landslögum, venju, stjórnsýslufyrirmælum eða samningi. Er þess vegna lagt til að um réttarstöðu trúnaðarmanna fari samkvæmt gildandi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eftir atvikum kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 2. mgr. 4. gr. gildandi laga, sbr. 2. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB.

Um 6. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 5. gr. gildandi laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993. Þar er kveðið á um skyldu vinnuveitanda, hvort heldur framseljanda eða framsalshafa, til að tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna, eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi, um fyrirhuguð aðilaskipti og að gefa upplýsingar um ástæður aðilaskiptanna, lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar aðilaskiptanna fyrir starfsmenn og um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna. Til samræmis við 1. og 6. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB, sbr. 1. og 6. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 98/50/EB, er lagt til að þessum upplýsingum til viðbótar skuli vinnuveitandi gefa upplýsingar um dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra ef svo ber undir.
    Í 1. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB, sbr. 1. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 98/50/EB, er að finna nánari ákvæði um upplýsingaskyldu framseljanda og framsalshafa gagnvart trúnaðarmönnum starfsmanna. Er lagt til að þau verði tekin efnislega upp í 2. og 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag 5. gr. gildandi laga, nr. 77/1993, um að framseljandi og framsalshafi skuli tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi upplýsingar skv. 1. mgr. með góðum fyrirvara haldist óbreytt.
    Ákvæði 2. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB kveður á um skyldu til samráðs ef framseljandi eða framsalshafi hyggst gera einhverjar ráðstafanir vegna starfsmanna sinna og er lagt til að sú regla verði tekin upp í 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Ákvæðið sem er nýmæli er efnislega samhljóða 4. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB, sbr. 4. mgr. 6. gr. tilskipunar nr. 98/50/EB. Þar er kveðið á um að þær skyldur sem hvíla á vinnuveitendum skv. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB gildi án tillits til þess hvort ákvörðun um aðilaskipti er tekin af vinnuveitanda sjálfum eða fyrirtæki sem vinnuveitandi heyrir undir.
Komi fram staðhæfing um brot á kröfum um upplýsingar og samráð er lagt til í 2. mgr. að það verði ekki talin nægjanleg réttlæting á ætluðu broti vinnuveitanda að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um aðilaskipti var tekin, sbr. 4. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 2001/23/EB.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru sambærileg þeim ákvæðum sem er að finna í tilskipun ráðsins nr. 98/59/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir, sbr. 4. gr. laga um hópuppsagnir, nr. 63/2000.

Um 8. gr.


    Ákvæðið er nýmæli. Þar er lagt til að brjóti vinnuveitandi, hvort heldur framseljandi eða framsalshafi, gegn ákvæðum laganna geti hann orðið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Á þetta sérstaklega við þegar vinnuveitandi virðir ekki launakjör og starfsskilyrði starfsmanna, verndina gegn uppsögnum og skylduna til upplýsinga og samráðs.

Um 9. og 10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um réttarstöðu starfsmanna
við aðilaskipti að fyrirtækjum.

    Frumvarpið er m.a. lagt fram til að innleiða tilskipun nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Frumvarpið felur í sér m.a. endurskoðun á gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, sem jafnframt eru felld úr gildi verði frumvarpið að lögum. Í frumvarpinu er gerð grein fyrir réttindum og skyldum framseljanda fyrirtækja sem færast yfir til framsalshafa við aðilaskipti, varðandi launakjör og starfsskilyrði, vernd gegn uppsögnum, réttarstöðu trúnaðarmanna og rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs. Verði starfsemi ríkisins flutt yfir í hlutafélagsform eða til einkaaðila fellur kostnaður, ef til hans kemur, á framsalshafann er tekur við starfseminni.
    Ekki er ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.