Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1309  —  427. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns (hryðjuverk).

(Eftir 2. umr., 20. apríl.)


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.
1. gr.

    Við 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/2001, bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     13.      Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997.
     14.      Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999.


2. gr.

    Á eftir 100. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 100. gr. a – 100. gr. c, svohljóðandi:

    a. (100. gr. a.)
    Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum, þegar verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn getur skaðað ríki eða alþjóðastofnun alvarlega:
     1.      manndráp skv. 211. gr.,
     2.      líkamsárás skv. 218. gr.,
     3.      frelsissviptingu skv. 226. gr.,
     4.      raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni,
     5.      flugrán skv. 2. mgr. 165. gr. eða veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð skv. 3. mgr. 165. gr.,
     6.      brennu skv. 2. mgr. 164. gr., veldur sprengingu, útbreiðslu skaðlegra lofttegunda, vatnsflóði, skipreika, járnbrautar-, bifreiðar- eða loftfarsslysi eða óförum annarra slíkra farar- eða flutningatækja skv. 1. mgr. 165. gr., veldur almennum skorti á drykkjarvatni eða setur skaðleg efni í vatnsból eða vatnsleiðslur skv. 1. mgr. 170. gr. eða lætur eitruð eða önnur hættuleg efni í muni sem ætlaðir eru til sölu eða almennrar notkunar skv. 1. mgr. 171. gr.
    Sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru í 1. mgr.

    b. (100. gr. b.)
    Hver sem beint eða óbeint styður mann, félag eða hóp, sem fremur eða hefur þann tilgang að fremja hryðjuverk skv. 100. gr. a, með því að leggja fram fé eða veita annan fjárhagslegan stuðning, útvega eða safna saman fjármagni eða með öðrum hætti að gera fjármagn aðgengilegt skal sæta fangelsi allt að 10 árum.

    c. (100. gr. c.)
    Hver sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt styður refsiverða starfsemi eða sameiginlegt markmið félags eða hóps, sem framið hefur eitt eða fleiri brot gegn 100. gr. a eða 100. gr. b, og starfsemin eða markmiðin fela í sér að eitt eða fleiri slík brot séu framin, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu
til opinbers starfsmanns, nr. 144 22. desember 1998.

3. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Nú er í starfsemi lögaðila framið brot gegn 100. gr. a – 100. gr. c almennra hegningarlaga og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt.

4. gr.


    Heiti laganna verður: Lög um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka.

III. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.