Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1312  —  652. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 20. apríl.)


1. gr.

    Á eftir 4. mgr. 51. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fullnaðarskírteini til þess sem hefur bráðabirgðaskírteini má gefa út, fullnægi hlutaðeigandi eftirtöldum skilyrðum:
     a.      hafi haft bráðabirgðaskírteini samfellt í eitt ár, farið í akstursmat og fengið að því loknu umsögn ökukennara um árangur þar sem mælt er með útgáfu fullnaðarskírteinis,
     b.      hafi ekki í eitt ár samfellt fengið punkta í punktakerfi vegna umferðarlagabrota eða á sama tíma verið án ökuréttar vegna sviptingar.
    Nú fullnægir hlutaðeigandi skilyrðum a-liðar en ekki skilyrðum b-liðar 5. mgr. og skal þá gefa út bráðabirgðaskírteini á ný að loknum gildistíma þess.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 52. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ökupróf“ í b-lið kemur: og akstursmat.
     b.      Á eftir orðinu „próf“ í d-lið kemur: akstursmat.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 1. mgr. kemur: ríkislögreglustjóra.
     b.      Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra“ í 6. mgr. kemur: Ríkislögreglustjóri.

4. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 64. gr. a laganna, sbr. lög nr. 37/1996, fellur brott.

5. gr.

    65. gr. laganna, sbr. lög nr. 48/1997, fellur brott.

6. gr.

    111. gr. laganna orðast svo:
    Umferðarstofa annast stjórnsýslu á sviði umferðarmála, sbr. 112. gr. Umferðarstofa skal veita almenningi fræðslu um umferðarlöggjöf og annað það sem stuðlað getur að umferðaröryggi og bættri umferðarmenningu.
    Umferðarstofa skal hafa samvinnu við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.

7. gr.

    112. gr. laganna, sbr. lög nr. 12/1992 og 44/1993, orðast svo:
    Hlutverk Umferðarstofu er að:
     a.      annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað,
     b.      annast ökupróf, veita leyfi til að starfrækja ökuskóla og hafa umsjón með ökunámi og eftirlit með ökukennslu,
     c.      veita leyfi til að annast skoðun ökutækja og hafa eftirlit með þeirri starfsemi í samvinnu við Löggildingarstofu,
     d.      annast fræðslu og upplýsingamiðlun um umferðarmál,
     e.      styðja aðgerðir sem stuðlað geta að bættu umferðaröryggi,
     f.      vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál,
     g.      annast mótun reglna er varða ökutæki og umferð,
     h.      annast skráningu umferðarslysa og rannsóknir á orsökum umferðarslysa,
     i.      sinna þróunarverkefnum á starfssviði sínu,
     j.      annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum og
     k.      annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.
    Umferðarstofu er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um starf og hlutverk Umferðarstofu og staðfestir skipurit hennar og skiptingu í starfsdeildir.

8. gr.

    113. gr. laganna, sbr. lög nr. 138/1996, orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skipar framkvæmdastjóra Umferðarstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri stjórnar rekstri Umferðarstofu og gætir þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.

9. gr.

    114. gr. laganna, sbr. lög nr. 12/1992, 138/1996 og 83/1997, orðast svo:
    Til Umferðarstofu renna þessi gjöld:
     a.      gjöld fyrir skráningu ökutækja, sbr. 64. gr.,
     b.      gjöld fyrir skráningarmerki, sbr. 64. gr.,
     c.      gjöld fyrir viðurkenningu á gerð, sbr. 64. gr.,
     d.      gjöld fyrir einkamerki, sbr. 64. gr. a,
     e.      umferðaröryggisgjald, sbr. 2. mgr.,
     f.      önnur gjöld sem Umferðarstofa innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af dómsmálaráðherra.
    Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarstofu, að fjárhæð 200 kr., og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Ráðherra setur reglur um innheimtu gjaldsins og um skil þess í ríkissjóð.
    Sértekjur Umferðarstofu af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum, renna óskiptar til hennar.

10. gr.

    115. gr. laganna, sbr. lög nr. 12/1992 og 147/1995, orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skipar umferðarráð til þriggja ára í senn. Meginhlutverk þess skal vera að beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum. Umferðarráð skal vera ráðherra til ráðgjafar um gerð umferðaröryggisáætlunar og framkvæmd hennar, svo og um fræðslu og upplýsingamiðlun, og vera samráðsvettvangur þeirra sem fjalla um umferðarmál og láta sig umferðaröryggi varða.
    Dómsmálaráðherra skipar tvo fulltrúa í umferðarráð án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins en hinn varaformaður. Aðra fulltrúa ráðsins skipar ráðherra samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.
    Dómsmálaráðherra skipar stjórn umferðarráðs. Skal stjórnin skipuð formanni ráðsins og varaformanni og einum aðila samkvæmt tilnefningu umferðarráðs. Stjórnin hefur með höndum yfirstjórn á starfsemi umferðarráðs, boðar fundi í ráðinu, undirbýr dagskrá funda þess og leggur fyrir það skýrslu um starfsemi ráðsins. Dómsmálaráðherra ákveður þóknun stjórnar umferðarráðs, en að öðru leyti eru störf fulltrúa í umferðarráði ólaunuð.
    Umferðarstofa leggur umferðarráði til framkvæmdastjóra og starfsaðstöðu.
    Dómsmálaráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um störf umferðarráðs.

11. gr.

    Á eftir 115. gr. laganna kemur ný grein, 115. gr. a, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu, svo sem að því er varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar. Dómsmálaráðherra ákveður fjölda nefndarmanna og setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

12. gr.

    Í stað orðsins „Umferðarráðs“ í 2. málsl. 117. gr. laganna kemur: Umferðarstofu.

13. gr.

    Fyrirsögn XV. kafla laganna verður: Umferðarstofa, umferðarráð, umferðarfræðsla o.fl.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. október 2002. Ákvæði 1. og 2. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Dómsmálaráðherra skipar verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun Umferðarstofu og annast tilfærslu verkefna frá Umferðarráði og Skráningarstofunni hf. til Umferðarstofu.
    Störf hjá Umferðarráði eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki Umferðarráðs skulu boðin störf hjá Umferðarstofu. Heimilt er að bjóða starfsfólki Skráningarstofunnar hf. störf hjá Umferðarstofu í samræmi við ákvarðanir um tilfærslu verkefna frá Skráningarstofunni hf. til Umferðarstofu.
    Dómsmálaráðherra fer með mál er varða eignaraðild ríkisins að Skráningarstofunni hf.