Alþjóðasakamáladómstóllinn

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:21:31 (2910)

2003-01-22 15:21:31# 128. lþ. 63.4 fundur 179. mál: #A alþjóðasakamáladómstóllinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. er ekki mikið fyrir að reyna að leita diplómatískra lausna á erfiðum alþjóðamálum. Vonandi lærir hún eitthvað í framtíðinni í því sambandi. Til þess að ná fram mikilvægum málum þarf samstarf á milli ríkja. Það þarf líka samstarf við Bandaríki Norður-Ameríku.

Bandaríki Norður-Ameríku eru voldugasta ríki í heimi. Það liggur ljóst fyrir. Og það er afskaplega mikilvægt að Bandaríkin taki þátt í þessu starfi, taki þátt í starfi Alþjóðlega sakamáladómstólsins og taki þátt í friðargæslu í heiminum. Það er afstaða okkar eins og annarra Norðurlandaþjóða, annarra Evrópuþjóða, að rétt sé að halda áfram að ræða þessi mál við Bandaríkin og tryggja samstarf Evrópuþjóða og Bandaríkjanna á þessum vettvangi.

Ég sagði jafnframt að við teldum nauðsynlegt að standa vörð um Rómarsamþykktina um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Það lá alveg fyrir í mínu máli. Eins og aðrar Evrópuþjóðir viljum við leita að lausn í þessu máli. En mér heyrist að hv. þm. vilji ekki leita neinna lausna í málinu. Ég held að hv. þm. kæmist afskaplega skammt í alþjóðamálum með þá afstöðu sem hún hefur til stórmála eins og þessa sem hér er rakið. Miðað við málflutning hennar þá held ég að það fyndist nú ekki lausn í mörgum málum ef slík sjónarmið væru ráðandi.