Siglingar olíuskipa við Ísland

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:23:05 (2940)

2003-01-22 18:23:05# 128. lþ. 63.10 fundur 452. mál: #A siglingar olíuskipa við Ísland# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið sem hann hefur gefið okkur um þetta mál sem er afar mikilvægt og afar brýnt að taka á. Jafnframt þakka ég hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir innlegg hans sem fjallar um flutning á sjó eða ballest milli heimshafa. Auðvitað er þetta mjög merkilegt atriði sem ber að hafa í huga líka.

Ég þakka ráðherra fyrir þetta svar en mér finnst þó, án þess að ég sé að gagnrýna það og ég skil vel að kannski er verið að vinna ýmis önnur verkefni, að það gangi frekar hægt í þessu, t.d. varðandi nefndina sem samgrn. skipaði. Hún fjallaði um þessar aðskildu siglingaleiðir og skilaði af sér í árslok 2000. En tillögur nefndarinnar hafa ekki komið til framkvæmda eins og hér kom fram og ráðherra hefur skýrt frá því að hann hafi skipað nefnd til þess að fara yfir þetta. Þetta gengur engu að síður frekar hægt. Nú er komið upphaf árs 2003 og ég held að við þolum ekki að bíða í allt of langan tíma með að setja þessar reglur. Hins vegar vil ég taka skýrt fram að ég er ekki endilega viss um að skynsamlegt sé að setja ákveðnar siglingaleiðir suður fyrir landið, langt frá landi, nema þá í undantekningartilfellum þegar vond eru veður. Við skulum hafa það í huga að þetta hefur í för með sér aukinn kostnað við að koma þessum vörum, svo ég noti það orð, til landsins. Ég er einfaldlega að segja að væntanleg vaktstöð siglinga gæti þegar skip tilkynnir komu ákveðið hvaða siglingaleið yrði farin þannig að við setjum þetta ekki of strangt. Alla vega hef ég heyrt skipstjórnarmenn segja að í góðu veðri sé ekki ástæða til þess að skikka skip til þess að fara mjög langt frá landi en í vondum veðrum er það jafnsjálfsagt.

Ég ítreka að ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið.