Afstaða ríkisstjórnarinnar til hernaðarátaka í Írak

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:24:23 (3033)

2003-01-27 15:24:23# 128. lþ. 65.1 fundur 372#B afstaða ríkisstjórnarinnar til hernaðarátaka í Írak# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. utanrrh. að hann skýri á mjög afdráttarlausan hátt hver stefna íslenskra stjórnvalda er í þessu máli.

Nú er það svo að deilur standa um hvernig túlka beri ályktun öryggisráðsins nr. 1441. Annars vegar eru Bandaríkjamenn og Bretar sem segja að ályktunin veiti þeim heimild til innrásar í Írak ef á daginn kemur að Írakar búa yfir gjöreyðingarvopnum. Aðrir telja hins vegar að öryggisráðið þurfi að koma saman að nýju og álykta á nýjan leik.

Í viðtali við hæstv. utanrrh. á Stöð 2 þann 22. þessa mánaðar talar hann að því er virðist á nótum Bandaríkjastjórnar. Hann segir á þá leið að komi í ljós að Saddam Hussein hafi brotið gegn samþykktum öryggisráðsins og nýju samþykktinni, ef fram koma sannanir fyrir þessu --- og hér vitna ég, með leyfi forseta, í hæstv. utanrrh.:

,,Þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hafa þá veitt heimild til þess að grípa til aðgerða.``

Þetta er lína Bandaríkjastjórnar, haukanna í Washington.