Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 15:44:41 (3042)

2003-01-27 15:44:41# 128. lþ. 65.95 fundur 380#B launamunur kynjanna hjá hinu opinbera# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil gjarnan geta þess í upphafi að launamunur kynjanna hjá hinu opinbera eða almennt sem hér er gerður að umtalsefni í dag er að sjálfsögðu viðfangsefni sem við erum öll sammála um að taka á. Það er ekki á stefnu neins stjórnmálaflokks eða almannasamtaka að viðhalda slíkum mun. Það er þvert á móti stefna okkar allra, vænti ég, að sporna gegn honum eftir því sem nokkur kostur er.

[15:45]

Ég tel að gömlu kjörorðin um sömu laun fyrir sömu vinnu eigi enn þá fullan rétt á sér. Ég tel fullvíst að við ætlumst öll til þess að dætur okkar þiggi sömu laun fyrir störf sín og synir okkar í sambærilegum störfum. Þetta er fyrst og fremst verkefni sem við verðum að taka saman höndum um að leysa.

Þingmenn rekur væntanlega minni til þess að í desember sl. var töluverð umræða í fjölmiðlum um könnun sem hv. þm. nefndi hér áðan, fjölþjóðlega rannsókn um launamun á milli karla og kvenna sem kölluð var ,,Að loka launagjánni.`` Ég ætla ekki frekar en hv. þm. að rekja þá umfjöllun sérstaklega en sú umræða leiddi í ljós að það þarf að fara mjög varlega í að alhæfa eða draga ályktanir út frá einni rannsókn þar sem talnameðferð og framsetning gagna er með öðrum hætti en í öðrum rannsóknum um sama viðfangsefni. Ég vil benda á það sem í því efni kom fram hjá hagstofustjóra, að Íslendingar koma ekki illa út úr samanburði við önnur lönd eins og þó var haldið fram í tengslum við þá umræðu. En það þýðir ekki að ástandið sé fullnægjandi eða nógu gott í þessu efni. Í því sambandi má líka vitna til könnunar sem gerð var um þessi málefni á vegum Jafnréttisráðs og var birt í septembermánuði þar sem talið er að samkvæmt gögnum kjararannsóknarnefndar hafi laun kvenna verið um það bil 70% af launum karla en jafnframt var tekið fram að skýra mætti 2/3 til 3/4 þess munar með ólíkum starfsvettvangi, ólíku starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna. Sá 7,5--11% munur sem eftir stæði stafi af öðrum ástæðum, t.d. hjónabandi, barneignum og öðru sem hafi önnur áhrif á laun kvenna og karla eins og hv. þm. benti á í framsögu sinni.

Ég vil segja að þegar verið er að rannsaka launamun kynjanna eða launamun annarra hópa er auðvitað verið að skoða hvað ræður því hvernig launin ákvarðast, hvaða þættir hafa áhrif á launamyndunina. Við verðum þó annars vegar að gera mun á almennum launamun og hins vegar því sem kalla mætti launamismunun. Launamunur getur myndast af ýmsum málefnalegum ástæðum eins og ég hef reyndar getið hér um. Þegar menn rannsaka þessa hluti þarf að gera greinarmun á því hvað er málefnalegt og hvað er ekki málefnalegt. Ég hygg að almennt talað sé það svo að launamunur sem byggist á þáttum eins og styttri vinnutíma og þar af leiðandi minna vinnuframlagi og styttri starfsreynslu svo dæmi séu nefnd sé talinn málefnalegur. Það getur aftur á móti verið meiri ágreiningur um hvað telst ekki málefnalegt en atriði eins og hjúskaparstaða, barneignir og þess háttar hljóta að falla undir það.

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að forsenda þess að hægt sé að stunda rannsóknir á launamyndun og þróun hennar er að gögnum hafi verið safnað með kerfisbundnum hætti. Þau gögn þurfa bæði að ná til alls vinnumarkaðarins og þeirra þátta sem áhrif hafa á launin. Þess vegna þarf að efla og samræma þessa gagnasöfnun og horfa til allra aðila vinnumarkaðarins.

En hvað hefur af hálfu ríkisins verið gert til að bæta möguleika á að jafna kjaralega stöðu kvenna og karla sem starfa hjá ríkinu? Á grundvelli þeirrar stefnumótunar í starfsmannamálum sem samþykkt var 1995 var ákveðið að leggja m.a. áherslu á valddreifingu og einföldun á launakerfi ríkisins þannig að það yrði gegnsærra og skýrar reglur lægju fyrir við launaákvarðanir. Í samræmi við þessar áherslur var samið við flestöll stéttarfélög starfsmanna ríkisins um dreifstýrt launakerfi og var launajafnrétti einn af grunnþáttunum sem þar var byggt á. Þær raddir hafa hins vegar heyrst að með þessari breytingu frá miðstýringu til dreifstýringar hafi launamunur kynjanna aukist. Ég tel slíkar fullyrðingar mjög vafasamar. Í því sambandi vil ég láta það koma fram að hlutur yfirvinnu í heildarlaunum opinberra starfsmanna hefur farið mjög minnkandi frá árinu 1997. Að því marki sem launamunur er skýrður með meiri yfirvinnu karla þá hefur úr henni dregið á þessum tíma, þ.e. það hefur dregið úr þeim launamun sem kann að vera til staðar af þessum ástæðum.