Sjómannalög

Mánudaginn 27. janúar 2003, kl. 18:44:51 (3081)

2003-01-27 18:44:51# 128. lþ. 65.21 fundur 60. mál: #A sjómannalög# (bótaréttur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 128. lþ.

[18:44]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu frv. ásamt hv. 1. flm. Hjálmari Árnasyni sem hér mælti fyrir því og hv. þm. Magnúsi Stefánssyni.

Þetta frv. gengur út á að breyta réttarstöðu sjómanna þegar skip ferst en þannig hefur verið í íslenskum rétti fram að þessu að réttur skipverja þegar skip ferst er nánast enginn. Menn eru nánast kauplausir að öðru leyti en því að sérstaklega er tekið fram að þeir skuli njóta kaups á heimferð eða á þeim stað sem skipið er, enda þurfi þeir að dvelja á staðnum af orsökum sem upp eru taldar í lögunum í dag, sem eru m.a. þær að skipverji á rétt á kaupi vegna dvalarkostnaðar þegar hann þarf að bíða á staðnum eftir för heimleiðis eða þegar hann þarf að mæta fyrir rétti eða af öðrum orsökum að hugsa um skipið og vera til staðar á strandstað ef svo hagar til að skipið hafi farist við strönd.

Þessi ákvæði sem eru orðin mjög gömul í íslenskum rétti eru ekki neitt í takti við það sem nú tíðkast og engar þær ástæður sem hér eru taldar upp í gömlum ákvæðum eins og það að menn viti ekki af ófriði þegar skip lætur í haf og þar af leiðandi geti menn ekki forðast eitthvert ástand sem upp gæti komið. Þessi lög eru auðvitað barn síns tíma eins og segir í 130. gr. siglingalaga en þar segir: ,,Ef skip týnist eða laskast eða er dæmt óbætandi eða sjóræningjar taka það, greiði landssjóður kostnaðinn. Svo er og ef skip er hernumið og gert upptækt og skipstjóri vissi ekki af ófriðnum þá er hann lét í haf síðast.``

Menn geta auðvitað séð af þessu að ákvæðin eru mjög gömul og hafa staðið óbreytt lengi í íslensku rétti. Þau eru í raun og veru komin úr dönskum og norskum lögum á sínum tíma og færð inn í íslenskan rétt.

Ég held að sú breyting sem við leggjum hér til um að menn eigi ævinlega rétt til eigi minna en þriggja mánaða launa og hefur sú hefð mótast á undanförnum missirum og árum að í dómum Hæstaréttar hefur verið tekið tillit til þess hvaða kaup menn hafi haft síðustu þrjá eða sex mánuðina sem þeir störfuðu á skipi. Þannig hefur rétturinn verið að þróast sem byggðist áður oft á því að menn áttu rétt á kauptryggingu en í seinni dómum hefur það verið staðfest í mörgum tilvikum að menn eigi rétt á sambærilegum launum og þeir höfðu haft á ákveðnu tímabili áður en skip var selt, skip var tekið úr þjónustu útgerðarmanns eða samkvæmt þessu, ef skip ferst.

Hér erum við að leggja til réttarbót fyrir sjómenn í samræmi við þá réttarþróun sem hefur orðið í samfélaginu á undanförnum árum og reyndar má finna því stað í dómum bæði undirréttar og Hæstaréttar að túlkun dómenda á réttarstöðu sjómanna að þessu leyti hefur verulega breyst og mönnum hefur eins og ég sagði áður verið dæmur sá réttur að fá staðgengilslaun í þeirri vinnu sem þeir voru í og þar af leiðandi er verið að lagfæra stöðu skipverja varðandi bótarétt og launarétt þegar skip ferst.

Ég held að um þetta sé ekki mikið meira að segja, herra forseti. Það er ákaflega skýrt sem verið er að breyta og þó að áður fyrr hafi kannski þótt sanngjarnt að útgerðarmanni bæri ekki að greiða skipverja bætur þegar skip fórst, þá eru þær orsakir sem þá voru til staðar um erfiðar samgöngur og öðruvísi atvinnuréttindi fólks ásamt uppsagnar- og veikindarétti, fæðingarorlofi nýverið og fjöldamörgum öðrum réttarbótum sem tryggja fólki laun af einhverjum ástæðum sem upp koma í lífi þess eða vegna breytinga í atvinnuháttum, þá situr þetta í raun og veru eitt eftir, herra forseti, sem gamalt ákvæði, enda orðað með þeim hætti sem ég las hér áðan um að menn viti ekki af stríðsátökum áður en látið er í haf, nánast fyrir tíma nútímafréttamiðlunar. Þannig að hér sitjum við einfaldega uppi með gamlan draug og ég tel þinginu til sóma að lagfæra þetta ákvæði.